10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í C-deild Alþingistíðinda. (3021)

76. mál, fasteignamat

Pjetur Ottesen:

Með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er farið fram á að gerbreyta skipun matsnefnda við það væntanlega fasteignamat, sem á fram að fara nú á næstunni. Ef jeg skil rjett ákvæði laganna um þetta efni, þá á matinu að vera lokið 1930. Og þó að það sje nú víst, að matið verði ekki eins tímafrekt nú og þegar síðasta mat fór fram, þannig, að stuðning megi hafa af því, þá býst jeg við því, að það taki samt sem áður nokkurn tíma, því æði miklar breytingar hafa orðið á þessum árum, bæði að því er snertir endurbætur á jörðum, og svo hefir orðið mjög mikil breyting á húsaskipun víðsvegar. Með þessum brtt. sínum ætlar hv. flm. að fá meira samræmi í matið en áður var. Það á einn og sami maður að taka þátt í mati allra sveitabýla á öllu landinu. Og aftur á einn og sami maður að taka þátt í mati allra kaupstaða og allra þeirra kauptúna, sem eru hreppar út af fyrir sig, og þeirra hreppa, sem kauptún eru í.

Hvað samræmi snertir, þá býst jeg við, að það sje allmikill aðstöðumunur við þetta væntanlega mat og það, er síðast fór fram. Þá höfðu ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til þess að fá sameiginlegan grundvöll fyrir matsnefndirnar að byggja á, þannig, að hver nefnd vann að þessu út af fyrir sig og bjó sjer til reglur til þess að fara eftir. Jeg býst reyndar við, að matsnefndir úr næstu sýslum hafi eitthvað borið saman ráð sín, en þó mun það ekki hafa verið neitt verulega.

Við það nýja mat, sem nú fer í hönd, efast jeg ekki um að það verði hægt að hafa mjög mikinn stuðning af fyrra matinu, einmitt á þann hátt, að samræmi í matinu geti nú orðið miklu betra en það var síðast.

Ef það er rjettur skilningur hjá mjer, að mati eigi að vera lokið 1930, þá sje jeg ekki, að með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í frv., sje nokkur leið, að því takmarki verði náð. Það leiðir af sjálfu sjer, að ef maður á að ferðast um allar sýslur landsins og taka þar þátt í matsstörfum, þá geti ekki hjá því farið, að þetta hljóti að taka nokkur ár. Svo að það er ekki minsta von um, að mati með því fyrirkomulagi geti orðið lokið 1930. Ef þetta trygði betur matið í raun og veru, þá væri kanske ekki í það horfandi, þótt nokkuð yrði að fresta því. En eins og þetta mál horfir við frá mínu sjónarmiði. Þá finst mjer það muni vera mest og best trygging fyrir því, að fá samræmi í þetta mat, að sem flestir þeir, sem unnu að síðasta mati, taki þátt í mati því, sem nú á að fara fram.

Þá er á annað að líta. Eftir þessu frv. skilst mjer, að í sumum tilfellum verði tvær matsnefndir fyrir sömu sýslu. Þar sem svo hagar til, að kauptún er hreppur út af fyrir sig og þar sem nokkur hluti hreppsins er kauptún, þá verður sjerstök nefnd að meta þessa staði. Þarna verða þá á ferðinni, ef til vill samtímis, tvær matsnefndir. Það er öllum vitanlegt, að þetta eru mjög óhentug vinnubrögð. Um það, hvort það sje nauðsynlegt, að einn maður úr hverju hreppsfjelagi taki þátt í matinu, þá held jeg, að með því fyrirkomulagi að velja þrjá menn innan sýslu, sje nokkurnveginn fengin trygging fyrir því, að fá nauðsynlega staðþekkingu til þess að byggja matið á. Sýslunefndir eiga, eins og kunnugt er, að kjósa tvo af þessum mönnum; og vitanlega haga þær sinni kosningu þannig, að hlutaðeigendur hafi þekkingu á þeim breytileika, sem er á staðháttum innan hverrar sýslu.

Jeg vildi aðeins láta þessar athugasemdir koma strax fram við 1. umr., og vænti þess, að nefndin, sem fær málið, taki þær til athugunar.