10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í C-deild Alþingistíðinda. (3022)

76. mál, fasteignamat

Flm. (Halldór Stefánsson):

Það er ekki nema gott, að fram komi athugasemdir, slíkar sem mönnum finst þörf vera, þegar málið er borið fram. En af því að jeg get ekki fallist á, að þær athugasemdir, sem nú voru fram bornar, sjeu á rökum bygðar, get jeg ekki leitt hjá mjer að minnast örstutt á þær, áður en málið fer í nefnd.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það hefði enginn sameiginlegur grundvöllur verið lagður undir frummatið 1916–19. Þetta held jeg sje alls ekki rjett. Fyrst og fremst voru útbúin eyðublöð til þess að byggja á lýsingu jarðanna og mat. Auk þess er í 2. gr. laganna lagður allnákvæmur grundvöllur undir matið.

Þá óttaðist hv. þm., að tími væri ekki nægur til stefnu — það mundi svo tímafrekt mat, sem fram færi með þessari skipun. Tíminn er alls ekki orðinn svo naumur. Það má telja 3–4 ár, þangað til matinu á að vera lokið, þó að því ætti að vera lokið 1930.

Þá álítur hv. þm., að best samræmi fengist í matið, ef sömu menn ættu þátt í þessu mati og unnu að því fyrra. Það er nú einmitt það, sem mjer finst vanta, að nokkrar líkur sjeu til, að samræmi fáist á þann hátt. Vitanlega vantar þá ekki staðlegan kunnugleika. En það vantar skilyrði til þess, að geta samræmt verðmæti þeirra einstöku fasteigna milli hinna einstöku hjeraða. Það hygg jeg næðist langt um betur með þeirri skipun, sem jeg legg til.

Hv. þm. kvað það mundu verða óhagkvæm vinnubrögð, að tvær nefndir þyrftu samtímis að starfa í sama hjeraðinu. Ef þær ættu að meta sömu eignir, þá væri það svo. En vitalega eiga þær að meta sínar eignirnar hvor nefnd. Það hefði frekar mátt benda á, að það væri ekki hentugt út af fyrir sig, að þurfa að láta formann nefndarinnar ferðast eins mikið og hjer er gert ráð fyrir. En það sparast líka alveg ferðalög hinna hreppakjörnu nefndarmanna. Ekki verður því neitað, að það verði samt sem áður heldur fyrirhafnarmeira en að taka alla mennina innan hjeraðanna. En mjer finst ekki í það horfandi, ef betra samræmi fengist í matið. Fyrir því vil jeg ganga að því, þó að það verði e. t. v. eitthvað dýrara.

þetta vildi jeg taka fram, út af þeim athugasemdum, sem fram hafa komið, og vísa því einnig til athugunar þeirrar nefndar, sem væntanlega fjallar um málið.