23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

95. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tók svo eftir hjá hv. flm., að hann legði til, að þessu frv. verði vísað til samgmn., og geri jeg þá ráð fyrir, að nefndin láti fram fara þá rannsókn, sem hv. þm. N.-Ísf. talaði um. Annars stóð jeg upp til að svara fyrirspurn háttv. þm. S.-Þ. um loftskeytastöðvarnar norðanlands. Það er nú svo, að á þessu sviði eru að gerast miklar breytingar og nýjungar, og má gera ráð fyrir, að innan skamms verði hægt að byggja þessar stöðvar með miklu minni tilkostnaði en áður, og þó jafngóðar eða betri en þær, sem nú tíðkast. T. d. eru nú starfsmenn loftskeytastöðvarinnar hjer að gera tilraun með loftskeytatæki og búa til áhöld, sem hægt er að heyra með frá Akureyri. Önnur nýjung sem nú er að ryðja sjer til rúms, er talsambandið loftleiðina. Mjer sýnist miklu rjettara fyrir þá Norðlendinga, sem hjer eiga hlut að máli, að bíða og sjá, hvernig þessi tæki, sem jeg talaði um, reynast, og ef hægt væri að koma upp talstöðvum, þá er slíkt samband vitanlega miklu fullkomnara og betra en skeytasamband. Sem sagt: mjer sýnist miklu betra fyrir hlutaðeigendur að bíða dálítið, ef vera mætti að hægt væri að koma upp jafngóðum stöðvum með miklu minni kostnaði. Ef þessi tæki, sem jeg talaði um, reynast vel, verður að sjálfsögðu ekki dregið lengi að byggja þessar stöðvar. Þessi svör vænti jeg að hv. þm. S.-Þ. sje ánægður með.