27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í C-deild Alþingistíðinda. (3101)

120. mál, gjöld af fasteignum í Hafnarfjarðarkaupstað

Frsm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir athugað frv. þetta, sem er borið fram af hv. 2. þm. G.-K, eftir beiðni bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði. Tilætlunin er, að útvega kaupstaðnum tekjuauka á svipaðan hátt og aðrir kaupstaðir hafa af þessum gjöldum, og hefir nefndin orðið sammála um að mæla með frv., en vill gera á því nokkrar breytingar, eins og sjá má á þskj. 120.

Í fyrsta lagi vill nefndin ákveða gjalddaga á þessum gjöldum 1. júní. Í öðru lagi, að krefjast megi dráttarvaxta, ½%, eftir að 2 mánuðir eru liðnir frá gjalddaga, og að þessum dráttarvöxtum fylgi lögtaksrjettur. Í þriðja lagi leggur nefndin til, að vatnsskatturinn haldist eins og áður hefir verið, en með frv. var ætlast til, að hann fjelli niður. Ef vatnsskatturinn fjelli niður, yrði afleiðingin sú, að Hafnarfjörður hefði næstum engan tekjuauka af þessari breytingu.

Sem sagt: nefndin mælir með frv., með þessum breytingum. Jeg skal geta þess fyrir mitt leyti í þessu sambandi, að jeg kynni betur við, að frv. væri talsvert öðruvísi, en jeg tel hinsvegar mikilsvert fyrir Hafnarfjörð að fá ákveðin lög um þessi gjöld, þó jeg álíti skattinn á húsum of háan, en á lóðum of lágan.