17.02.1927
Efri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í C-deild Alþingistíðinda. (3110)

28. mál, stýrimannaskólinn

Flm. (Jónas Jónsson):

Tilefni þess, að jeg flyt þessa brtt. á lögum um stýrimannaskólann, er það frv. um laun starfsmanna á varðskipum landsins, sem liggur fyrir þessari hv. deild.

Það var öllum vitanlegt, að það hlyti að kosta allmikið að auka strandgæsluna, eins og nú er orðið. En jafnframt hljóta allir að vera sammála um það, að hafa þann kostnað ekki meiri en nauðsynlega þarf. Nú mun suma hv. þdm. reka minni til, að árið 1923 var því hreyft í sambandi við strandvarnamálið, hvort ekki mætti lækka útgerðarkostnaðinn með því, að væntanlegir stýrimenn og skipstjórar ynnu einskonar herskyldu á varðskipunum; jeg nota þetta orð, þótt það eigi ekki allskostar við; en þetta er dálítið skylt vissri tegund herskyldu í nálægum löndum, að því er snertir að fá menn á flotann. Þessi kvöð yrði þá gerð bæði til þess að spara kostnað við háseta á skipunum, en engu síður vegna skipstjóraefnanna sjálfra. Jeg býst við, að þar sem sú regla hefir verið sett, að skipstjóraefni fái verklega æfingu í 3 ár á gufuskipum, áður en þeir ganga í skólann, þá muni það viðurkent hagnýtt úrræði vegna stýrimannanna sjálfra. Og þá tel jeg það einmitt geta vel komið til mála, að þeir ynnu einhvern tíma af þessum 3 árum á strandgæsluskipum. Jeg geri ráð fyrir, að menn geri þær kröfur yfirleitt til varðskipanna, að öll vinnubrögð og sjómenska sjeu í sem fullkomnustu lagi. Þannig gæti þá sennilega þessi tími á varðskipinu haft svipaða þýðingu eins og það hefir fyrir lækna að ganga á spítala, meðan þeir eru að nema, og unga verkfræðinga að fá að vinna með eldri verkfræðingum.

Jeg get búist við, að þótt hallast yrði að þessari námskvöð, vegna stýrimannaefnanna sjálfra og vegna ríkisins, þá mundi hjer þurfa einhverju að breyta; ef til vill er tíminn heldur langur. Ef til vill þyrfti ekki nema eitt ár. Væri máske ekki hægt að koma öllum mönnunum á skip, ef aðsókn að skólanum er mikil. En slík fyrirkomulagsatriði munu koma í ljós við meðferð málsins, þegar bæði hefir verið talað um það við skipstjóra og forstöðumann stýrimannaskólans, sem jeg hefi ekki haft aðstöðu til að bera málið undir ennþá. Ýmislegt af þessu tæi geri jeg ráð fyrir að þyrfti að setja í fastara horf.

Þar sem er nú talað um að binda landinu þann verulega bagga, að taka 40–50 menn á föst árslaun, þá álít jeg, að það muni ekki þykja úr vegi að athuga, hvort ekki væri hægt að spara alt að af því kaupi. Jeg geri ráð fyrir, að skipstjóraefnin mundu hafa á varðskipunum álíka kjör og dátar hafa yfirleitt á herskipum nágrannaþjóðanna, það er að segja þeir, sem vinna þar aðeins sína skylduvinnu.

Af því að jeg býst ekki við að þurfa að taka aftur til máls að sinni, þá tek jeg það fram strax, að eina mótbáru hefi jeg heyrt gegn þessu, sem sje, að það gæti komið sjer illa, að tilvonandi skipstjórar á togurum væru kunnugir öllum vinnubrögðum varðskipanna, og gætu því betur forðast þau. Jeg geri ekkert úr þessari ástæðu; því að mjög er það sennilegt, að skipstjórar geti verið á annan hátt nægilega kunnugir varðskipunum til þess að forðast þau, enda þótt þeir ynnu ekki á þeim.

Í öðru lagi hefi jeg grun um, að sumir áliti hjer of þunga kvöð lagða á skipstjóraefni, að vera aðeins matvinnungar eitt ár eða svo á skipi. En jeg hygg þetta sje bláber misskilningur. Gæti maður að því, að þegar skipstjóraefni komast af með mjög stutta skólagöngu tiltölulega og eiga þá — ef þeir eru álitnir nokkrir menn — von á mjög háu kaupi, sumir hærra kaupi en nokkrir aðrir menn á Íslandi, þá þarf ekki að óttast, að það dragi neitt úr aðsókninni.

Jeg vil til samanburðar nefna það, að þegar ungir prestar hafa eytt 10–12 árum í nám, þá fá þeir þau laun, sem ekki eru miklu betri en hásetalaun á þessum skipum. Nei, jeg held við þurfum ekki að óttast, að nemendum verði íþyngt með þessu fram yfir það, sem hæfilegt er, þar sem maður gerir ráð fyrir, að þessi tími yrði þeim fullkomlega sem partur af skólanáminu.

Þar sem þetta mál er frá mínu sjónarmiði aðallega fjárhagsmál, þá legg jeg til, að því verði vísað í fjhn., sem hefir launamálið til meðferðar nú. Það er borið fram sem viðbót við stjfrv., til þess að vita, hvort ekki væri hægt að koma fram sparnaði í sambandi við rekstur skipanna. Þó að það gæti haft mikla uppeldislega þýðingu, þá mundi líklega enginn sjá ástæðu til þess að hugsa fyrir skólaskipi beinlínis fyrir stýrimannaefnin, ef slíkt skip hefði ekki neitt annað starf með höndum.