01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Bernharð Stefánsson:

Fundartími er bráðum á enda, svo að jeg vil ekki þreyta menn. En jeg verð að leiðrjetta eitt atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV), því að annars mætti líta svo á, að jeg hefði farið með ósannindi hjer í hv. deild. Það var út af fylgi flokksbræðra hans á Akureyri við bygðarleyfið. Hann kvaðst ekki vita, hvað þeir á Akureyri vildu taka upp hjá sjer, en þóttist vita, að þeir væru á móti frv. mínu um bygðarleyfi.

En þetta er ekki rjett. Það eru mjög ákveðnir jafnaðarmenn á Akureyri, sem hafa beinlínis tjáð sig samþykka því frv., sem jeg hefi flutt hjer áður á þingi um bygðarleyfi.

Hv. þm. þótti það mjög vel að orði komist hjá hv. þm. Ak. (BL), að sú stefna, sem kæmi fram í bygðarleyfisfrv., væri íhalds- og öfgastefna. Ef þetta er rjett, þá eru góðir flokksbræður hv. þm. þannig innrættir, að þeir fylgja íhalds- og öfgastefnu.

Það er ekki rjett hjá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að jeg álíti, að fólk myndi flykkjast ár eftir ár að þeim stöðum, þar sem atvinna er horfin. En jeg álít, að nokkurn tíma eftir að atvinnulaust er orðið á einum stað, eftir góða atvinnu áður, þá geti þetta átt sjer stað.

Það getur vel verið að vísu, að hjer áður hafi mönnum verið synjað um bygðarleyfi, sem síðar urðu miklir og nýtir menn. En það voru alt aðrir tímar þá. Það var ýmislegt gert þá, sem engum dettur í hug nú. Jeg fyrir mitt leyti er ekkert hræddur um það, eftir þeirri stefnu, sem nú er uppi í þjóðfjelaginu, að ákvæði í þessa átt yrðu misbrúkuð á sama hátt og gert var — ef til vill — fyrir 50–100 árum síðan. Hugsunarháttur manna hefir tekið þeim breytingum síðan í mannúðaráttina.