25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

107. mál, smíði brúa og vita

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð út af síðustu ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann sagði, að vegamálastjóri mætti búast við árásum hjer. Jeg er hissa á, að hann skuli ekki hafa látið mig eða vegamálastjóra vita, svo að hægt hefði verið að svara strax. Jeg skora á hv. þm. að fá mjer þessar sakargiftir uppskrifaðar, svo að jeg geti sýnt vegamálastjóra þær. Jeg gat ekki skrifað þetta alt upp, svo að jeg vona, að hv. þm. vilji lána mjer sín minnisblöð, svo að vegamálastjóri geti borið af sjer þessar þungu sakir, sem mjer virtust vera í því fólgnar, að hann hafi keypt ónýta hluti og látið þá grotna niður.

Um kaupgjaldið er það að segja, að þó að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) þyki það undarlegt, veit jeg ekki á öllum stöðum hvað það er. En mjer er kunnugt um, að það er 50–60 aurar á tímann úti um land. Það er sjálfsagt þetta, sem hv. þm. þykir of lágt, en það er ilt að þjóna tveim herrum.

Hvort verið er að smíða brú hjá „Hamri“ nú, skiftir ekki miklu máli. Tillögur hv. flm. ganga aðeins út á að láta smíða hjer á landi. (JBald og HjV: Ekki síðari liðurinn).