28.04.1927
Efri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

27. mál, milliþinganefnd í landbúnaðarlöggjöf

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og hv. deild er kunnugt, er mál þetta flutt í hv. Nd. af 1. þm. Árn. (JörB). í meðferð málsins þar tók það ekki öðrum breytingum en þeim, hvernig nefndina skyldi skipa. Landbn. Nd. fjelst á þessa till. eins og hún liggur hjer fyrir, og nú hefir landbn. þessarar deildar haft málið til meðferðar og borið það undir hæstv. atvrh., sem var því eindregið fylgjandi, að það næði fram að ganga.

Það liggja nú fyrir þessu þingi allmörg mál, sem dregist hefir að afgreiða vegna þess, að beðið er eftir því, hver verða afdrif þessarar till. Það virðist einhuga vilji meiri hluta þingsins, að till. nái fram að ganga, en þau önnur mál, er nú liggja fyrir þinginu, og eiga eftir þál. að heyra undir verkahring milliþinganefndarinnar, verði ekki afgreidd að þessu sinni. Hæstv. atvrh. (MG) hefir skýrt landbn. frá, að hann teldi sjer ekki fært að taka til undirbúnings fyrir næsta þing öll þau mál, sem nefndin á að fjalla um, og væntir landbn. þess því fastlega, að till. um skipun milliþinganefndar í þessum málum verði samþ.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, nema sjerstakt tilefni gefist til þess.