03.05.1927
Neðri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (3296)

117. mál, sameining póststöðva og símastöðva

Hákon Kristófersson:

Hæstv. atvrh. (MG) benti til þess, að það væri þegar horfið að því ráði að sameina ýmsar af þeim stöðum, sem hjer er um að ræða.

Þetta gefur mjer tilefni til að spyrjast fyrir um það, hvernig ástatt sje með póstafgreiðslumannsstarfið í Flatey á Breiðafirði, sem jeg veit ekki til, að veitt sje enn þá, en ef svo er, þá hefði jeg talið, að fullkomlega hefði verið hægt að sameina þá stöðu við forstöðumannsstarfið við loftskeytastöðina, því að jeg býst við, að það gæti orðið nokkur sparnaður að því, þó ekki væri nema 2–300 krónur á ári. Sýnist rjett að stefna að því, þar sem slíkar sameiningar eru vel mögulegar, en á slíkum smástöðum sýnist það vera vel í hóf stilt, að farið sje eftir þessari till., sem hjer liggur fyrir.

Jeg vildi aðeins minnast á þetta til athugunar og ábendingar, ef hæstv. stjórn sæi sjer fært að hlutast til um, að það yrði gert, ef ekki þykir ástæða til að láta þessar stöður halda áfram að vera sjálfstæðar.

Viðvíkjandi því, sem fram kom um að sameina forstöðuna fyrir póst- og símamálum, vil jeg segja það, að þau störf eru alt annars eðlis, og býst jeg við, að það sje svo fráleitt, að sami maður geti gegnt báðum, að ekki þýði að hugsa til þess, því að þeir menn, sem slíkan starfa taka að sjer, verða að mínu áliti að hafa alist upp við þau störf, eða ef það mætti orða það svo, lifað sig inn í starfið, og það segir sig sjálft, að það er annar maðurinn hæfari til þess að veita forstöðu póstmálum og þvílíku, en annar máske hæfari fyrir hina stöðuna, og frá mínum bæjardyrum sjeð er það nauðsynlegt, að hjer sje um menn að ræða, sem hafi komið ungir að þeim störfum og einlægt farið stig af stigi, eða eins og jeg orðaði það áður, lifað sig inn í starfið. Sameining á svona ólíkum störfum get jeg ekki hugsað mjer að verði til mikilla hagsmuna fyrir þjóðfjelagið, ef þeim er slengt saman, og jeg skil þess vegna ekki, hve vel hæstv. atvrh. (MG) tekur í að láta rannsókn fara fram í þessu efni, og úr því að jeg skil það ekki, þá þætti mjer vænt um að fá að vita, hvernig þessi rannsókn ætti að fara fram. Jeg kem í svipinn ekki auga á það, hvernig á að framkvæma rannsókn hvað þetta atriði snertir.

En sem sagt, jeg álít, að sameining ýmissa smásýslana sje í rauninni það, sem eigi helst að stefna að, en það segir sig þá sjálft, að það verður að vanda vel menn í þessar stöður, ef þessi tvö trúnaðarstörf eiga að sameinast. Það verða að vera mjög trúverðugir og efnalega sjálfstæðir menn, því að þeir koma til að ráða yfir stórum fúlgum af opinbera fje, sem viðkomandi á að standa skil á, svo að ábyrgðin verður þeim mun meiri, sem hún er margþættari. En jeg býst við því, og jeg slæ því alveg föstu, að hver stjórn myndi vanda til þessa starfs sem mest mætti verða, og að minsta kosti treysti jeg svo vel núverandi stjórn, og maður reynir að vona, að sama máli gegni um stjórnir í framtíðinni, að það verði aldrei settir í þessar stöður nema valinkunnir menn, sem treystandi sje til alls drengskapar í hvívetna.