19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í D-deild Alþingistíðinda. (3543)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Jakob Möller:

Það er ekki svo að skilja, að jeg hafi gert ágreining í nefndinni, þó að nafn mitt sje ekki undir nál., það hefir fallið úr í prentuninni, og jeg stend þess vegna ekki upp til þess að gera grein fyrir neinni sjerstöðu í nefndinni, heldur er jeg fullkomlega sammála henni.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. N.-Ísf (JAJ) muni hafa talað fyrir nefndarinnar hönd og gert grein fyrir þeim ástæðum, sem hún byggir þessa afstöðu sína á, en jeg heyrði því miður ekki ræðu hv. þm., því jeg var ekki viðstaddur.

Af því að mjer fanst hæstv. atvrh. halda því allhart fram, að þetta væri misráðið hjá nefndinni, finst mjer rjett að segja nokkur orð um málið.

Hæstv. atvrh. (MG) viðurkendi, að þessi eign væri dýr, og jeg held, að það verði varla hægt að komast hjá að viðurkenna það, því að það er satt að segja eitthvert það óskaplegasta verð á húseign hjer í bæ. Húsið er, eins og allir vita, afgamalt, og það er enginn vafi á því, að ef á að nota það fyrir símann, þá verður að gera stórkostlega við það, en satt að segja held jeg, að það detti ekki nokkrum manni í hug að nota það öðruvísi en sem geymsluhús; það er lítt nothæft fyrir slíkar skrifstofur, sem síminn þarf að hafa. Um það, hvernig þessi húseign geti rentað sig, er kannske ekkert að segja, að því er snertir rentur af verðinu og kostnað af viðhaldi hússins, en að hún geti borgað nokkuð upp í verðið, getur ekki komið til mála, svo að kaupverðið er þá verð lóðarinnar og ekkert annað. En það er, eins og hæstv. atvrh. (MG) gat um, 115 þús. kr. Lóðin er eitthvað rúmir 300 ferm., en til samanburðar má geta þess, að lóðin við Pósthússtræti nr. 11, sem fáanleg mun vera fyrir 150 þús. kr., er rúmlega þrefalt stærri, og á betri stað, og á henni eru hús, að jeg hygg, fult svo góð sem þetta.

Hæstv. atvrh. talaði um, að það hefði verið gert tilboð í þetta hús, 120 þús. kr., í því skyni að byggja þar stórhýsi. En jeg vil vekja athygli á því, að það er ómögulegt, af því að lóðin er svo lítil, 300 ferm., og verður ekkert stórhýsi bygt á þeirri lóð. Jeg efa ekki, að þetta tilboð hafi verið gert, en jeg álít, að það hafi ekki verið gert í þeim tilgangi að byggja þar stórhýsi, því að það er ekkert vit í því, og hygg, að það hafi naumast verið gert til annars en að sprengja upp verðið. Mjer sýnist yfir höfuð að tala, að hjer sje ekki um annað að ræða en það, að eigandinn sje að reyna að nota sjer það ástand, sem nú er, að það þarf að auka húsrúm landssímans og pósthússins, og svo ætlar hann að stinga í sinn vasa því, sem þyrfti til þess að flytja símastöðina á annan stað.

Jeg er ekki í neinum vafa um, að það er hægt að fá lóð undir símabyggingu, sem myndi kosta þeim mun minna, og svo er þess að gæta, að það er ekki víst, að til þessara miklu útgjalda fyrir símann þurfi að koma, vegna þess að ríkissjóður á þarna annað hús, pósthúsið, og það er áreiðanlegt, að þau tvö hús veita nægilegt húsrúm fyrir símann í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er þá ekki um annað að ræða en að flytja pósthúsið, og það kostar ekkert. Hinsvegar er líka á það að líta, að þótt þessi eign verði lögð til símans, þá verður pósthúsið bráðlega að bæta við sig, og þá verður sjálfsagt ekkert smáræðisverð heimtað fyrir það hús, því að þótt þessi lóð sje góð, þá eru þó lóðirnar austur með Austurstræti enn þá dýrari, af því að það eru enn þá betri verslunarlóðir.

Hæstv. atvrh. talaði um, að pósthúsið þyrfti að fá aukið húsrúm, og þá er það, sem á að gera, að flytja pósthúsið og leggja hús þess smátt og smátt undir símann. En fyrir pósthúsið er ekki svo vandfenginn staður, að ekki sje auðgert að fá lóð með sæmilegu verði, og jeg efast ekki um, að lóð bæjarsjóðs við Hafnarstræti myndi fást með viðunandi verði, og ríkissjóður á sjálfur lóðir svo að segja í miðbænum, þar sem Arnarhólslóðirnar eru, og þótt ekki væri um aðrar lóðir að ræða en lóðina í Pósthósstræti 11, þá yrði hún tiltölulega miklu ódýrari, svo að það er enginn skaði skeður, þótt þessu tilboði sje hafnað. En hinsvegar efast jeg ekki um, að eigandi Hafnarstr. 16 muni bíða rólegur eftir því, að þetta verði rannsakað til hlítar.