19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (3544)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg neita því ekki, að þetta hús, sem hjer er um að ræða, sje dýrt. En á hinn bóginn treysti jeg því, að það sje rjett, sem hinn látni landssímastjóri sagði, að það myndi koma nærri helmingur verðs í spöruðum kostnaði við flutning á landssímastöðinni, og mjer er ekki kunnugt um það, að hann hafi nokkurntíma í sinni embættistíð lagt til, að það væri keypt fyrir símann, sem ekki væri hagkvæmt, og jeg vissi, að í fyrrahaust var honum það ákaflega mikið kappsmál að ná í þessa eign. En það þykist jeg vita, að hann hefði ekkert haft á móti því að fá pósthúsið, og ef Alþingi vill heldur láta byggja nýtt pósthús, þá er ekkert því til fyrirstöðu. Það gerir landssímanum sama gagn, en það er ekki eins gott fyrir ríkissjóð, því að jeg er viss um, að nýtt pósthús myndi ekki kosta minna en ½ milj. kr. En það, sem landssímastjórinn ætlaðist til, var það, að hann gæti smátt og smátt tekið til afnota herbergi í húsinu í Hafnarstræti 16, en ætlaði svo að leigja hitt út, sem ekki þyrfti til afnota fyrir símann.

Það er þess vegna alveg villandi, þegar hv. 1. þm. Reykv. (JakM) segir, að hjer sje ekkert annað keypt en lóðin, því að hver getur bent á lóð, sem hægt er að hafa upp úr um 12500 kr. á ári? Auk þess er í húsinu mikill og góður viður, ef það væri rifið, og sömuleiðis mjög mikið af múrsteini, og jeg er viss um, að það er ekkert því til fyrirstöðu, að húsið geti staðið í ein 20–30 ár enn þá.

Hv. þm. (JakM) sagði, að lóðin væri svo lítil, að það væri ekki hægt að byggja stórhýsi á henni. En það fer nokkuð eftir því, hvaða kröfur hv. þm. gerir til stórhýsa. Húsið stendur á hálfri lóðinni, og svo eru geymsluhús á bak við. Nýtt hús á allri þessari lóð gæti verið bæði langt og breitt. En hvað það snertir, að eigandinn muni vera að ,,spekúlera“ í því að selja húsið eins dýrt og hægt er, þá er því ekki að neita, að húsið er dýrt, en það er ekki það, sem er aðalatriðið, heldur hitt, hvort það sjeu líkur til, að ríkissjóður komist ódýrara út úr þessu með öðru móti. En mjer finst það ekki nema eðlilegt, að eigandinn vilji fá það verð fyrir húsið og lóðina, sem hann getur fengið tilboð um frá vel stæðum mönnum hjer í bæ, og því ekkert rangt í því, þó að hann vilji fá þessa upphæð, ef hann selur ríkissjóði.

Það er ekki rjett hjá hv. þm., að jeg hafi lagst fast á móti dagskránni. Jeg gerði það ekki, enda er sýnilegt, að það er ekki til neins, þar sem komið er að þingslitum og málið verður því varla útrætt. En jeg vildi aðeins skýra málið og sýna fram á, að það væri hyggilegra að taka þessu tilboði en að þurfa að byggja nýtt hús fyrir póst og síma.