19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Klemens Jónsson:

Þó að mál þetta hafi komið seint frá fjhn., er það ekki af því, að nefndin hafi ekki sýnt því fullan sóma. Það kom snemma fram á þinginu, og athugaði nefndin það á nokkrum fundum áður en hún gaf nál., og mátti taka það á dagskrá fyrir löngu, svo að hún á enga sök á því, þótt málið komi nú fram undir þinglok.

Nefndin gerði sjer far um að afla sjer upplýsinga um þessa lóð úr bókum borgarstjóra. Eftir þeim upplýsingum er fasteignamat á húseigninni, ásamt lóð, 49.800 kr., en brunabótavirðing á húsinu er 49.241 kr. En það er dýrtíðarvirðing, framkvæmd 5. ágúst 1919, og því ekkert að marka, því húsið sjálft er nálega einskis virði til niðurrifs. Ef maður reiknar nú út eftir stærð lóðarinnar, þá verður verðið á hverjum fermetra 360 kr., og er það óheyrilega hátt. Lóðin er sem sje talin samkv. fasteignamati 320.1 fermetrar en 290.2 eftir lóðargjaldaskrá. Dýrasta lóðin hjer í Reykjavík, sem er lóðin á horninu við Austurstræti, mun vera metin um 150 kr. á fermetra. Sjest á því, að það var ekki ósatt, sem hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að lóðin væri óhæfilega dýr, enda neitaði hæstv. atvrh. (MG) því ekki, en áleit það þó hagnað að kaupa húsið, af því að það mætti nota það fyrir pósthús í nokkur ár. En eftir því sem mjer skildist á settum landssímastjóra, þá er það aðeins tímaspursmál, hvenær víkja þarf pósthúsinu burt úr hinu sameiginlega húsi. Það rekur því brátt að því, að byggja verður nýtt pósthús, og er þá spurningin, hvort heppilegra er að byggja það á lóðinni í Hafnarstræti 16 eða á mun ódýrari lóð gamla pósthússins við Pósthússtræti, þar sem nú er íbúðarhús Olsens heildsala. Lóðin, sem því fylgir, er þrisvar sinnum stærri en í Hafnarstræti, og er fáanleg fyrir líkt verð, og húsið þar eins stæðilegt og hitt. Þessi kjör og kaup eru því margfalt aðgengilegri.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að hið umrædda hús væri gamalt, en þó ófúið. Þetta hús mun nú að stofninum til vera eitt hið elsta hús hjer í bænum, bygt fyrir 100 árum, árið 1827 eða 1828. Hefir það auðvitað verið stækkað síðan, en að það sje ekki mjög fúið á jeg bágt með að trúa. Aftur á móti er litla húsið við Pósthússtræti töluvert yngra, og mætti líka fult eins vel nota það fyrir pósthús þangað til bygt yrði. Og það er víst, að lóð þessi við Pósthússtræti fæst, og það með mun lægra verði, samanborið við stærð hennar, en lóðin við Hafnarstræti. Íslandsbanki á lóðina, og vill hann selja hana fyrir 140 þús. kr.

Það er leiðinlegt, að hv. frsm. (BL) skuli ekki vera við, en hann var búinn að afla sjer ítarlegra upplýsinga um þetta mál og hafði sjerstaklega athugað alt viðvíkjandi húsinu í Pósthússtræti. Lóðin þar er miklu stærri, og er hægt að byggja þar reglulegt stórhýsi. En lóðin, sem fylgir húsinu í Hafnarstræti 16, er mjög lítil; það er bara rúmlega húslengdin. Hún var stærri áður, en nú hefir verið bygður þar skúr, sem gerir það að verkum, að ekki er hægt að byggja þar stórhýsi. (Atvrh. MG: En sú lóð fylgir). En sú kvöð hvílir á eigninni, að skúr þessi megi standa þarna. Aftur á móti má byggja stærra hús á lóðinni í Pósthússtræti. En nú hefi jeg heyrt, að ef til vill muni verða erfitt að fá að byggja þar, vegna þess að skipulagsnefndin hafi ákveðið, að þar skuli standa hótel. En mjer finst nú nefndin ekki hafa neitt vald til þess að láta lóðina vera ónotaða, þar til einhver kynni að vilja byggja þar hótel, hver veit hvenær. Jeg ímynda mjer, að skipulagsnefndin geti ekki sagt annað en að á þessari lóð skuli byggja stórhýsi og annað ekki. (Forsrh. JÞ: Þm. ætti að lesa lögin um skipulagsnefndina, sem sett voru á síðasta þingi). Já, en sá sami sem setti lögin hefir einnig valdið til þess að breyta þeim aftur, og ef þau eru gölluð mjög eða vitlaus, þá á að afnema þau, og er jeg viss um, að hæstv. forsrh. mundi fá atkv. þm. til þess. (Forsrh. JÞ: Jeg fekk þau ekki í fyrra). Jeg var þó ráðherranum samþykkur.

Fjhn. játar, að þörf sje á að fá hús fyrir póstinn, en telur rjett að láta það bíða til næsta þings.