09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3590)

128. mál, sparnaðarnefndir

Flm. (Jónas Jónsson):

Fyrir nokkru fluttum við Framsóknarmenn á þingi till. svipaða þessari. Hún var sett í nefnd, og eftir till. hennar breytt svo, að landsstjórnin skyldi útnefna menn í nefndina. Það var gert, og ef jeg man rjett, voru allir nefndarmenn launamenn hjeðan úr bænum. Þessi nefnd gerði nokkrar sparnaðartillögur til landsstjórnarinnar, sem svo lagði þær fyrir Alþingi. Eitthvað af þessu kann að hafa náð fram að ganga, en þó varð árangurinn ekkert í átt við það, sem við tillögumenn höfðum vænst og ætlast til. Í raun og veru var ekki heldur mikils að vænta af þessari nefnd, því að þótt sumum nefndarmanna væri trúandi til að koma fram með nýtilegar tillögur, voru þó aðrir beinlínis fulltrúar fyrir hið skipulagsbundna embættisvald og notuðu aðstöðu sína, sjálfrátt eða ósjálfrátt, til að sjá um, að ekki væri við því hróflað. T. d. virðist það alveg hafa farið framhjá hv. nefnd, að forstöðumaður áfengisverslunar ríkisins hefir 1/3 hærri laun en ráðherrarnir. Ekki kom heldur frá nefndinni nein till. um að spara neitt af hinni miklu húsaleigu opinberra stofnana hjer í bæ. Nú þarf að fella niður fjölda af fjárveitingum til síma og brúa, og menn búast við, að tekjur ríkissjóðs verði minni á næsta ári en vænst hefir verið til þessa. Þetta er farið að verða í áttina við það, sem menn hafa lengi kviðið, að landssjóður verði ekki fær um margt annað en að standa straum af vöxtum af skuldum sínum og föstum embættakostnaði, en verði í stað þess að fella niður verklegar framkvæmdir.

Það er ekkert áhlaupaverk að breyta hinu íslenska embættakerfi. Þó sjá margir ýmislegt, sem betur mætti fara. Jeg held t. d., að mikið mætti spara með betri verkaskiftingu hjá kennarastjettinni, en þeirri stjett er jeg kunnugastur.

Það er nauðsynlegt, að stjórnir landanna hafi opin augu fyrir þessu, enda hafa þær það sumstaðar, svo sem í Danmörku. Mjer er ekki kunnugt, hvernig gengur um embættaniðurskurðinn þar, en það er víst, að margir af stuðningsmönnum stjórnarinnar gera mjög ákveðnar kröfur í því efni.

Þetta land er miklu embættafrekara en flest lönd önnur, t. d. um lækna. Hjer skal ekki farið út í það, hvaða embætti helst mætti leggja niður. Þó má minna á, að fyrv. hæstv. landsstjórn lagði til niðurskurð á nokkrum sýslumannsembættum, sem Alþingi fjelst þó eigi á. Að sjálfsögðu hefði landsstjórnin átt að hafa forgöngu áfram um þetta mál, en fyrst hún gerir það ekki, er ekki um annað að ræða en að Alþingi taki sjálft að sjer forgönguna. Jeg tel það ekki koma að haldi, þótt málinu verði vísað til landsstjórnarinnar á ný, því að þá eru allar líkur til, að hún skipaði í nefndina einmitt einhverja úr hópi þeirra manna, sem þjóðin gæti helst án verið. Atkvgr. um þetta mál sýnir það, hverjir vilja á ódýran hátt undirbúa, að farið verði að sníða af hinu mikla bákni, sem embættakerfið er orðið hjer á landi. Allir, sem það vilja, munu greiða till. atkv. Hinir, sem una vilja núverandi skipulagi á þessum málefnum, munu greiða atkv. annaðhvort á móti till. sjálfri eða með því að vísa henni til stjórnarinnar.

Jeg vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. forsrh. (JÞ), sem jafnframt er formaður bankaráðs Íslandsbanka, hvort ástandið þar sje ekki þannig, að ástæða væri fyrir hann að sjá um, að bankastjórarnir sjeu ekki látnir fá margföld laun á við þá, sem hæst eru launaðir af starfsmönnum ríkisins. Mjer er sagt, að einn bankastjórinn, sá, sem bankaráðið hefir valið, hafi 40 þús. kr. árslaun og hinir tveir sínar 25 þús. kr. hvor, og sýnist það óneitanlega ærið nóg. Jeg verð því að halda, að lítils góðs sje að vænta af hæstv. forsrh. (JÞ) um sparnað á embættum, úr því að hann hefir ekki einu sinni notað sína góðu aðstöðu til að lækka laun þessara manna, eða a. m. k. að koma samræmi á þau. Einnig hefir hann beitt sjer fyrir stofnun margra nýrra embætta; nægir þar að minna á varðskipafrv., sem hann fær sennilega afgr. sem lög mjög bráðlega, og frv. um samskóla Reykjavíkur, sem bráðum mun koma til umr. í þessari hv. þd. Þar álít jeg, að gengið sje inn á mjög hættulega braut um embættafjölgun, og yfirleitt finst mjer, að hæstv. landsstjórn hafi sýnt litla ráðdeild í þessum efnum.

Jeg legg til, að nefndin starfi launalaust, því að mjer finst óviðfeldið, að sparnaðarnefnd eyði miklum peningum. Sumir kunna e. t. v. að ætla, að ekki fáist 3 menn á Alþingi, sem vilji gera þetta, án sjerstakrar þóknunar. Jeg held þó, að ástæðulaust sje að bera kvíðboga fyrir því, sakir þess, að í fyrra fengust 5 menn í þjóðhátíðarnefnd, sem vinnur algerlega launalaust, en hefir þó haldið marga fundi. En þó að þessi nefnd eigi að starfa meira landinu til gagns en sjálfum nefndarmönnunum, verður hún þó að hafa aðgang að öllum skilríkjum, er henni kunna að verða nauðsynleg. Því er það tekið fram í tillögunni.

Jeg geri ráð fyrir, að þessi till. mæti ekki sjerstakri mótspyrnu af hálfu hæstv. stjórnar. Henni ætti að vera þökk á því, að eitthvað væri gert til að ljetta útgjöldum af ríkissjóði. Því tel jeg ástæðulaust að tala lengur fyrir till. Jeg tel víst, að hún nái samþykki hv. þd., með tilstyrk hæstv. stjórnar.