22.02.1927
Neðri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í D-deild Alþingistíðinda. (3607)

30. mál, vaxtalækkun

Flm. (Magnús Torfason):

Till. þessi, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram í hv. deild, er komin hjer samkvæmt þingmálafundarsamþykt að Tryggvaskála 30. f. m. Þar var samþykt svohljóðandi till. í einu hljóði:

„Að gefnu tilefni mótmælir fundurinn því, að hækkað verði gengi krónunnar, og krefst þess jafnframt, að vextir verði færðir niður“.

Það er ekki svo að skilja, að líkt þessu hafi ekki verið samþykt fyr á þessum stað. Mjer er óhætt að segja að á hverjum þingmálafundi síðan um kosningar hafi komið kröfur frá kjósendum um lækkun vaxta. Jeg verð að játa þá synd mína að hafa látið farast fyrir að koma fram með þessa till. þar til nú. En ástæðurnar eru þær, að 15. febr. 1924, sama dag og þing var sett, var krónan lækkuð að mun, eða um 10%, þannig, að sterlingspundið varð 33 kr. í stað 30. Þetta var vitanlega svo mikil linkind gagnvart atvinnuvegum landsins, að ekki var ástæða til að fara fram á frekari lækkun. Aftur er frá því að segja, að á þingi 1925 var hjer alt í blóma og því ekki ástæða til að bera fram slíka tillögu, enda mjer kunnugt um, að annar bankinn hafði í hyggju að lækka vextina, og var það líka gert í október 1925, úr 8% niður í 7%. Nú er svo komið, að jeg hefi ekki sjeð neitt undanfæri að flytja þessa till. Eins og kunnugt er, hefir hagur manna hríðversnað nú talsvert á annað ár og orðið erfiðari með degi hverjum. Og það er mál manna, að landshagurinn sje jafnvel verri nú en 1923. En við, sem hjer sitjum, vitum, að þjóðin hugsaði þá um það eitt að leysa úr fjárhagsvandræðunum.

Hagur landsins er ábyggilega verri nú að því leyti, að 1923 rofaði þó fyrir því, að rætast mundi úr. En nú eru engar slíkar vonir fram undan, a. m. k. ekki á nálægum tíma — alls engar vonir. Ástæðurnar eru líka að sumu leyti mun verri nú en 1923, og þarf ekki mörgum orðum um það að eyða, því það er alkunnugt. Bændur flýja bestu jarðir í sveitum, jafnvel hingað í atvinnuleysið, en það er glöggur vottur þess, að þeir eru að gefast upp. Sjávarútvegurinn er engu betur staddur, nema ver sje. Það hefir ekki fyr heyrst talað um, að atvinnuvegur í heilum landsfjórðungi væri kominn alveg á heljarþrömina. Þegar svona stendur á, vænti jeg þess, að hv. deild telji það skyldu sína að rjetta atvinnuvegunum, og þá sjerstaklega þeim, sem draga í búið, einhverja hjálparhönd.

Til þess geta verið margar leiðir. Beinasta og hægasta leiðin væri sjálfsagt sú, að lækka hreint og beint krónuna. Jeg hefi ekki viljað fara þá leið, af því að jeg held, að jafnvel alt þingið sje sammála um að gera það ekki, ef með nokkru móti verður hjá komist. Það langar víst engan til þess, að þjóðin þurfi að súpa þann kaleik aftur. Sú leið verður heldur ekki farin án þess menn lendi í stefnustríði um gengismálið, en þar er, eins og kunnugt er, hver höndin upp á móti annari.

Önnur leið, sem þingið gæti kannske farið, er sú, að lækka skattana. En sú leið þykir víst ekki fær heldur. Ríkinu veitir áreiðanlega ekki af tekjum sínum; a. m. k. hefir stjórnin ekki borið fram neitt frv. um að lækka skatta; þvert á móti mun hún líta svo á, að þörf sje á auknum sköttum, og eitt frv. hefir hún komið með í þá átt, þó lítið sje.

Þriðja leiðin er sú, að lækka vexti. Jeg hefi kosið að fara þá leið, af því jeg held, að hún sje sanngjörnust og rjettlátust. Eins og menn vita, fylgir hækkun krónunnar hækkun vaxta. Til að svara útlánsvöxtum af vissri upphæð þurfti bóndinn 5 dilka, meðan krónan stóð í 50 aurum, en nú, þegar hún stendur í fullum 80 aurum, þarf hann 8 dilka, að öðru jöfnu. Sama máli gegnir um sjávarútveginn. Sá, sem þurfti 50 skpd. til vaxtagreiðslu 1924, þarf 80 skpd. nú, til að greiða vexti af sömu upphæð. Þetta er vitanlega stór baggi á öllum atvinnuvegum landsins. Að því er innlánsvexti snertir, mættu eigendur innstæðna ekki kvarta, þó að vextir af fje þeirra lækkuðu, því að þeir hafa hækkað að sama skapi og útlánsvextirnir. Mjer finst þeir mega tæplega ætlast til að fá bæði í bak og fyrir, bæði hækkaða krónu og stórhækkaða vexti, enda mun nú vera svo, þegar öllu er á botninn hvolft, að þeir innstæðueigendur munu vera fáir hjer, sem ekki bíða meiri eða minni skaða við örðugleika atvinnuveganna.

Þess verður að gæta, að munurinn á innláns- og útlánsvöxtum er afar mikill, svo mikill, að jeg hefi ekki orðið þess var, að hann væri eins mikill hjá nokkurri kristinni þjóð, sem ekki lenti í ófriðnum mikla. Innlánsvextir eru en útlánsvextir 7%, mætti fremur segja 7½, því að það er aðeins af nýjum lánum, sem 7% eru greiddir. Af öllum framlengingarlánum verður að borga 7½% eða því sem næst.

Jeg hefi nú í svo fáum orðum sem unt var fært fram aðalástæðumar fyrir þessari till. En fleiri mætti nefna. Jeg skal fyrst geta þess, að mjög þegnsamleg tilmæli hæstv. fjrh. (JÞ) í ræðu hans, er hann lagði fram fjárlagafrv., ýttu mjög undir þessa till. Hæstv. fjrh. óskaði þess, að þingið hjálpaði sjer til þess að leysa úr fjárhagsvandræðunum. Þessi till. er fram komin til að sýna lit á slíku. En það sem í upphafi varð til þess, að hert var á, að slík till. kæmi fram að Tryggvaskála, var nýársboðskapur hæstv. fjrh. (JÞ), er hann nýlega hefir árjettað í málgagni sínu. Þar er sýnilega gert ráð fyrir að halda áfram að hækka krónuna, hvenær sem því verður við komið.

Jeg vil leyfa mjer að mótmæla því algerlega, að krónan sje látin hækka meðan vextir eru jafngífurlega háir sem nú. 1925 voru vextirnir 8%. Jeg leit svo á, og hafði orð á því við þá menn, sem um þetta áttu að vjela, að ekki væri gerlegt að hækka krónuna svo gífurlega sem gert var, nema sýnt væri, að vextir gætu lækkað að mun. Lágir vextir sýna vitanlega, að fjárhagur þjóðarinnar sje kominn í eðlilegt horf. Meðan vextir eru háir, er sýnt, að fjárhagurinn og peningastofnanirnar eru ekki í góðu horfi. Því hefi jeg komið með þessa till. mína, og hún á þá jafnframt að vera mótmæli gegn frekari hækkun krónunnar, þar til peningamál landsins eru komin í það lag, að vextir komi sæmilega við.

Jeg skal að endingu taka það fram, að jeg hefi orðið var við, að menn líta svo á, að jeg ætli hæstv. fjrh. (JÞ) nokkuð mikið með þessari kröfu um vaxtalækkun; hann sje þess ekki megnugur að koma henni fram. En jeg lít svo á, að hann hafi nóg vald til að framkvæma þessa umbót.