22.02.1927
Neðri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í D-deild Alþingistíðinda. (3611)

30. mál, vaxtalækkun

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg gleymdi í fyrri ræðu minni að geta þess, að jeg hafði hugsað mjer dálítið aðra meðferð heldur en hæstv. fjrh. á þessu máli. Jeg hafði hugsað mjer, að umr. væri aðeins frestað, en till. ekki vísað beint til nefndar. Svo stendur á, að við vitum, og jeg býst við, að hæstv. fjrh. viti það líka, að fjvn. hefir einmitt hugsað sjer að tala við ráðherrana um fjárhagsástandið yfirleitt, áður en hún tekur nokkra ákvörðun um einstaka liði fjárlaganna, og þá hafði jeg hugsað mjer, að þetta gæti um leið komið til tals. En ef svo vill verkast, þá er ekkert á móti því, að nefndarmenn taki þá einnig þetta til íhugunar. Þess vegna er það fyrst og fremst mín till., að umr. sje aðeins frestað.

Hæstv. fjrh. vildi ekki kannast við það, að hann hefði vald til að ráða vöxtum bankanna. Já, mjer fanst það beint liggja í orðum hans, og jeg verð að segja, að jeg er þeirrar skoðunar, og jeg hjelt, að hæstv. ráðh. áliti það líka, að ef einhver maður er annars manns handbendi, þá hljóti hann að ráða við hann. Hæstv. fjrh. vildi segja það, að hagur bankanna hefði verið betri árið 1923. Jeg tók beint fram, eða mjer fórust þannig orð, að jeg vildi ekki deila um það, meðal annars vegna þess, að mjer er það mál of ókunnugt, bæði þá og nú, til að geta felt ábyggilegan dóm um það. En jeg sagði það, að ástandið hefði þá verið betra að nafninu til, og jeg vil meðal annars færa þessum orðum mínum stað, að minsta kosti hvað annan bankann snertir. Við vitum, hverju hlutabrjef Íslandsbanka standa í núna. Þau eru undir 30 krónum. (KlJ, og fjrh. JÞ: Nei, þau eru yfir 30). Jeg sá þó að minsta kosti í nýjum blöðum nýlega, að kaupandi vildi fá þau á 29 krónur, en hinn vildi selja á 30, og þetta bendir á, að þeir, sem að bankanum standa, hafi ekki mikið álit á fjárhag hans. En árið 1923 stóðu brjefin miklu hærra. En þess er líka að gæta, að krónan stendur miklu hærra nú en þá, svo að þau ættu að standa mun hærra.

Þá hneykslaði jeg hæstv. ráðh. (JÞ) með því að skjóta því fram, að jeg skoðaði þessa vaxtalækkun sem ráð til þess að halda uppi gjaldeyrinum. Jeg hefi aldrei ætlað mjer þá dul að vera nokkur sjerstakur gjaldeyrisfræðingur, þótt jeg hafi reynt að fylgjast með þeim málum. En jeg vil benda á, að jeg vissi vel um þessa kenningu og hafði meðal annars hugsað mjer, að það gæti ekki komið til mála, að bankinn lækkaði vextina, á meðan hann væri að vinna töpin upp af hækkuninni, en það, sem jeg vildi segja, var það, að ástæðurnar hjer innanlands eru þannig, að það er mikil ástæða til að efast um, hvort þessar almennu kenningar hafa nokkurt verulegt gildi á Íslandi. Þær geta verið í gildi þar, sem um stóra og fasta atvinnuvegi er að ræða, þar sem menn láta sjer nægja með mjög lítinn arð. Jeg efast ekki um, að þær gildi þar. En jeg hygg, að þær hafi ekki nærri eins mikið gildi hjer hjá okkur. Aðalatvinnuvegurinn, sem hjá okkur hefir sópað til sín peningunum, og vitanlega átt mestan þátt í hækkun og lækkun krónunnar, hann fer ekkert eftir því, hvort krónan hækkar eða lækkar; hjá slíkum atvinnuvegum getur verið að tala um 100% tap eða gróða á árinu. Sá atvinnuvegur fer mjög lítið eftir því, hve háir vextirnir eru, svo að þessi regla gildir ekki nærri eins alment hjer eins og annarsstaðar. En það er enginn vafi á því, að slíkt ljettir fyrir atvinnuvegunum, og sjerstaklega á þann hátt að auka þeirra vonir, og það er kannske ekki minst í það varið, einmitt þegar menn kúgast undir vaxtabyrðinni. Þeir eru kannske komnir að því að leggja alveg árar í bát, en ef þeir fá einhverja linkind, þá eykur það stórum þol og þrek þeirra, og það er máske mest gagn að því að auka vonir þeirra, sem hagur þjóðarinnar stendur og fellur með. Það er að auka þeim ásmegin.