21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (3634)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil lýsa yfir því, að jeg er hlyntur þessari till. um skipun milliþinganefndar til að rannsaka hag bátaútvegsins og gera tillögur til tryggingar honum, en hefi þó komið með brtt. um, að fyrir orðið „bátaútvegur“ verði alstaðar sett orðið „sjávarútvegur“. Jeg get ekki fallist á þær ástæður, sem hv. flm. (SvÓ) kom með, að bátaútvegurinn væri það sjerstæður, að ástæða væri til að taka hann sjerstaklega úr samhengi við hinn hluta atvinnuvegsins og skipa milliþinganefnd til þess að athuga ástæður hans eins. Það er kunnugt, að þótt hagur bátaútvegsins sje bágborinn hjer á landi, þá er hagur stórútgerðarinnar það engu síður, og því engu síður ástæða til að athuga, hverjar umbætur mætti gera hennar vegna, og líka er margt það við rannsókn bátaútvegsins, sem kemur að meira eða minna leyti við hag stórútgerðarinnar, t. d. nýjar vinnuvjelar og nýjar veiðiaðferðir, sömuleiðis að finna ný mið, sjerstaklega ef til Grænlandsútgerðar kæmi, og um skipulag á afurðasölu. Alt þetta mundi jafnt eiga heima um bátaútveginn og stórútgerðina, og svipað er um markaðsleit og eins það, hvernig hægt væri að nota fiskúrgang og verðlitlar fisktegundir. Það er aðeins eitt atriði, sem er sjerstætt, 4. atriðið, hver ráð muni til að útvega bátaútveginum ódýrt rekstrarfje o. s. frv., enda hefi jeg ekki komið með brtt. um að breyta þar orðinu „bátaútveginum“ í „sjávarútveginum“. Hjer er ætlast til, að kosin verði 5 manna nefnd, og finst mjer, að hún sje svo fjölmenn, að hún geti tekið að sjer að athuga sjávarútveginn allan, og ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að hjer er á ferðinni í þinginu till. um þriggja manna nefnd til þess að athuga ástand landbúnaðarins. Þá ætti þetta fjölmennari nefnd að geta tekið að sjer rannsókn sjávarútvegsins alls.

Fiskiþingið hefir gert samþykt um að skipa milliþinganefnd til þess að rannsaka sjávarútveginn yfirleitt, og er það í samræmi við brtt. mína.