17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Samkv. mjög eindregnum tilmælum stjórnar Danmerkur vil jeg leyfa mjer að leggja til, að kosnir verði að þessu sinni tveir menn af okkar hálfu í þessa nefnd, svo að þar eigi sæti 4 fulltrúar fyrir hvora þjóð, Dani og Íslendinga. Eftir gildandi ákvæðum er frjálst að hafa hvort heldur er 6 eða 8 menn í nefndinni. Mætti jafnvel líta svo á, að annað ríkið hefði leyfi til að kjósa 4 fulltrúa, og þá yrði hitt að gera það líka. Annars ber jeg nú fram þessa tillögu fyrir mjög vinsamleg, en eindregin tilmæli stjórnar Dana og sjálfrar ráðgjafarnefndarinnar.