17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Pjetur Ottesen:

Jeg vil taka undir það með hv. þm. N.-Þ. (BSv), að með því að fjölga þeim Dönum, er mega láta í ljós vilja sinn um íslensk löggjafarmálefni, er verið að hvika frá þeirri stefnu, er mörkuð var á Alþingi 1918. — Eins og kunnugt er, var það látið undan Dönum að stofna þessa dansk-íslensku ráðgjafarnefnd. Það var seinasta tilraunin af þeirra hálfu til að koma fram dönskum áhrifum á íslenska löggjöf, seinasta hálmstráið, er þeir gripu til, þegar ekki varð lengur siglt á „ríkisráðinu“. — Þetta var liðið af Íslendinga hálfu með þeim ásetningi að gera nefndina að engu í framkvæmdinni, stinga henni svefnþorn. Þessu var yfir lýst af þeim mönnum, sem greiddu atkvæði með sambandslagafrv. á Alþingi 1918, áður en það var borið undir þjóðina. Á þessu var atkvgr. þjóðarinnar bygð, er hún samþykti frv. Því eru það bein undanbrögð og óheilindi gagnvart Íslendingum, ef nú á að láta undan óskum Dana um að fjölga þeim dönsku mönnum, er hafa aðstöðu til að hafa áhrif á íslenska löggjöf. Mjer skilst, að í þessum óskum þeirra komi það fram, að „glögt er það enn, hvað þeir vilja“.