12.03.1927
Efri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg get slept því að ræða um málið nú við 1. umr. þess. En jeg get ekki látið hjá líða að lýsa nú þegar yfir óánægju minni út af þeirri launung og því pukri, sem átt hefir sjer stað í allri meðferð málsins, og það frá fyrstu tíð. Hæstv. stjórn hefir varist allra svara um hinn eiginlega kjarna málsins, þrátt fyrir það, þó óskað hafi verið eftir frekari upplýsingum.

Þegar um það er að ræða erlendis að taka ný lán, þá er venjan, að slíkt mál sje rætt opinberlega í blöðum og frá öllu því skýrt, sem þýðingu hefir í málinu.

Þessi hula og launung, sem hvílir yfir þessu máli, er aðeins til að koma á stað tortrygni gagnvart þeim stofnunum, sem að þessu standa. Almenningur hugsar sem svo, að úr því ekki eru gefnar sjálfsagðar upplýsingar af hálfu hæstv. stjórnar, þá hljóti eitthvað óttalegt að liggja hjer á bak við. Hæstv. stjórn hefir því farist mjög óviturlega um meðferð málsins og gert það óttalegra í augum fólksins en þörf er á.

Jeg minnist þess nú, að þegar Danir tóku sitt stóra miljónalán til þess að sameina skuldir sínar, þá var þetta mál rætt í blöðum þeirra, og þá frá öllum hliðum, t. d. hvað lánið þyrfti að vera stórt, hvert gagn það mundi vinna, vaxtakjör lánsins o. fl., o. fl., sem gert var til þess að mönnum yrði ljóst, um hvað væri að ræða. Afleiðingin varð líka sú, að málið fór svo að segja umræðulaust gegnum þingið, og var það þakkað því, að búið var að ræða það svo rækilega í blöðunum, og auðvelt var fyrir þm. að taka afstöðu um það.

En þó að þetta mál sje enn með öllu óupplýst, þá mun jeg ljá því atkv. til 2. umr. og nefndar, í þeirri von, að af því verði hjúpuð sú launung, sem yfir því hvílir. Annars er það ekki rjett, að frv. þetta sje borið fram af fjhn. Nd. Hún kom að vísu með frv., en því var breytt svo í meðferð hv. deildar, að það má miklu fremur segja algerlega um nýtt frv. að ræða, sem hæstv. forsrh. (JÞ) er flm. að, en um þetta gefst eflaust tækifæri til að ræða síðar, og get jeg því látið máli mínu lokið nú.