18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. ráðh. (JÞ) hóf mál sitt með því, að hann vildi hlífa deildinni við innihaldssnauðri ræðu, og sýndi hann með því, að hann hafði rjetta skoðun á ræðumensku sinni. Og hann sýndi ennfremur, að hann hafði rjetta skoðun á því, hvernig deildin lítur á ræður hans. En þó að andinn væri að vísu reiðubúinn, þá var holdið veikt. Er þetta í raun og veru gott tákn um starfsemi hæstv. ráðh. Hann vill gera gott, en það, sem hann gerir, er óheppilegt.

Hæstv. ráðh. mintist á frv. mitt um ölvun embættismanna. Efni þess var, að embættismenn mættu ekki vera druknir við embættisstörf sín. — Jeg skal aðeins gefa þá skýringu, að frv. þetta var borið fram eftir eindreginni ósk templara, og var samið af einum af helstu lögfræðingum þessa bæjar og manni, er lengi hefir setið hjer á þingi. Jeg tók málið til flutnings af þessum ágætismanni og mín dýrð af frv. var ekki önnur en að bera það fram. En reynsla mín er sú hjer á þingi, að mál þau, er jeg hefi borið fram, hafa að jafnaði, þó þau hafi haft mótstöðu íhaldsins fyrst í stað, fengið fylgi þess síðar, og svo mun enn reynast. Eftir svo sem 1–2 ár verður frv., sem gengur í sömu átt og frv. þetta, að öllum líkindum samþykt. Skal jeg sem dæmi minna á það, er jeg kom fyrst með það inn í þingið að veita fje til stofnunar nýbýla. Þá var það ein af mótbárunum gegn frv., að verið væri með því að gera menn að betlurum. En nú er svo komið, að starfsbróðir hæstv. ráðh., hæstv. atvrh. (MG), og 2 fylgifiskar stjórnarinnar hafa lýst blessun sinni yfir frv., og einn af mönnum þeim, sem hæstv. ráðh. lagði mikla stund á að koma inn á þingið í haust, hefir borið fram till., er fer í sömu átt og frv. mitt. Að ári liðnu mun hæstv. ráðh. vilja leggja blessun sína yfir frv. mitt, og er það ekki að undra, þegar þess er gætt, að hann hefir nú á 3 mánuðum algerlega snúist í máli því, sem hjer er um að ræða, eins og 15. gr. frv. til Landsbankalaga ber með sjer. — Jeg segi þetta aðeins vegna ósanngjarnra ummæla hæstv. ráðh. um frv. mitt. Það vill svo til, að frv. mín sigla yfirleitt í hagstæðum byr í höfn, þó að íhaldið sje andstætt þeim í fyrstu. En frv. þau, er hæstv. ráðh. ber fram, standa eins og blýkökkur fyrir brjósti þingmanna. Svo drepandi er dómur þingsins um þau frv. Jeg hefi því í sannleika ástæðu til þess að gleðjast yfir því, hversu reynslan hefir sýnt, að frv. mín eru í samræmi við þróun tíðarandans.

Það kom fram í Nd., að fjhn. þar bar fram frv. þetta eingöngu af greiða við ríkisstjórnina, enda greiddi einn þm. í nefndinni atkv. á móti frv. Frv. hefir aldrei verið rannsakað neitt í Nd. nje því veitt þingleg meðferð. öðru máli gegnir um meðferð Ed. á því. Hjer hefir verið rætt um frv. við hlutaðeigandi bankastjórn og leitað allra upplýsinga um málið, er hægt var að fá, en ekki tekið við frv. af stjórninni og því hraðað gegnum þingið eins og gert hefir verið í Nd.

Hæstv. ráðh. leiddi ástandið á Ísafirði inn í umræðurnar um þetta mál. Þó að jeg að vísu játi, að skera beri niður þau fyrirtæki, er ekki bera sig fjárhagslega, þá stendur nokkuð öðruvísi á þar, enda hefir það kornið fram, að hæstv. ráðh. hefir þar fundið vöntun á fjármálahæfileikum flokksbróður síns.

Hv. frsm. meiri hl. (BK) hefir lýst yfir því, að hann teldi það sannað, að Landsbankinn þyrfti og vildi lán og að hann ætti frumkvæði að lántöku þeirri, sem um er að ræða. Þó að hæstv. ríkisstjórn vilji skjóta sjer á bak við Landsbankann í máli þessu, þá getur hún ekki hrakið þá staðreynd, að Landsbankinn á enn eftir 4 milj. króna viðskiftafjár erlendis. Það er því bæði ónauðsynlegt og óskynsamlegt af bankanum að óska eftir nýju láni.

Það er augljóst af öllu, að ríkisstjórnin hefir fengið tilmæli frá Íslandsbanka um peningahjálp. Hefði verið eðlilegast, að stjórnin hefði sjálf snúið sjer til þingsins um þau tilmæli, því að þá hefði þingið getað rætt um það, hve mikið það vildi lána bankanum. En stjórnin treysti sjer ekki til þess að fara þessa beinustu leið, heldur ýtir hún undir Landsbankastjórnina til þess að æskja láns, sem miðla á Íslandsbanka af.

Hæstv. ráðh. sór yfirskotseið, er hann sagðist ekki hafa vitað um samningana við National City Bank fyr en bankastjórarnir hefðu sagt honum frá því. En landsstjórnin hefir getið þess, að hún hafi verið í vandræðum, — en ekki vitað um samningana við þennan erlenda banka. Þetta sýnir ekki annað en það, að hæstv. landsstjórn vill ekki sverja fyrir, að hún hafi verið í lánsbraski, en hefir á sama staðið, í hvaða Keflavíkinni róið var. Og það er mikið vafamál, hvort ekki var búið að lofa Íslandsbanka peningum þegar áður en þessir lánssamningar voru gerðir í Kaupmannahöfn. Það, sem hjer hefir gerst, er það, að hæstv. ríkisstjórn ýtir undir Landsbankastjórnina um peningalán erlendis, sem Landsbankinn hefir ekkert með að gera.

Hæstv. ráðh. reyndi í gær að verja það, að það væri annað reikningslán en fast lán. Jeg benti þá hæstv. ráðh. á það, að svo gæti farið, að reikningslán yrðu að föstum lánum, og því til sönnunar drap jeg á það, að reikningslán Íslandsbanka í Englandi og í Danmörku væru orðin að föstum lánum og að hjálp hæstv. ráðh. nú við Íslandsbanka væri í því fólgin að taka lán í Ameríku, til þess að bankinn gæti greitt þau reikningslán, sem nú væru orðin að föstum lánum. — Þá er það og algerlega óhrakið, sem jeg hefi haldið fram, að allar líkur væru fyrir því, að tekjuhalli haldi áfram á atvinnurekstri þjóðarinnar, og að þegar lán það, sem nú er verið að taka, er upp jetið, þá sje ekki annað fyrir hendi en að taka nýtt lán, og svo koll af kolli. Nú hefir hæstv. ráðh. orðið að flýja úr virkinu, því að það eru tíu líkur á móti einni um, að lán þetta verði að föstu láni. Til frekari sönnunar því skal jeg geta þess, að það er upplýst í nefndinni, að 700 þús. kr. lán, sem Íslandsbanki fjekk í Landsbankanum með Alþingisábyrgð í fyrra vetur, er ennþá ekki greitt nema að litlu leyti. Lán þetta er því orðið fast að mestu leyti og landið situr ennþá í ábyrgðinni. Þetta er sú reynsla, sem alloftast hefir fengist um þessar lántökur.

Jeg hefi í fyrri ræðu minni í þessu máli gefið hæstv. ráðh. kost á því að láta viðhorf sitt í ljós um skuldir landsins. Hann gat þess í ræðu, er hann hjelt á Austurlandi og eitt af flokksblöðum hans hafði eftir honum, að hann ætlaðist til, að landið yrði skuldlaust árið 1943. En hvernig fylgir hæstv. ráðh. fram þeirri stefnu sinni? Nú er verið að taka lán á lán ofan. Og hæstv. ráðh. hefir jafnvel gengið svo langt, að stappar nærri stjórnarskrárbroti, með lántöku án leyfis þingsins eigi alls fyrir löngu. Nú hefir hæstv. ráðh. ætlað að gera samskonar afglöp um þetta lán, sem hjer er um að ræða, en það er aðeins fyrir tilstilli lánveitanda, að málið er komið fyrir Alþingi.

Jeg vil leyfa mjer að skora á hæstv. ráðh. að skýra frá því, hvort hann sje nú kominn að þeirri niðurstöðu, að sú kenning hans forðum hafi verið röng, að landið ætti að vera skuldlaust 1943. Hvort það hafi verið einskonar bjartsýni hveitibrauðsdaga lengi þráðra en ófenginna valda, sem hafi ráðið þessum orðum hans, og að hann reyni nú að láta landið vera í sem mestum skuldum 1943.

Það er t. d. svo um sigurinn, sem stjettarbróðir hæstv. ráðh. vann 1921, þegar hann tók enska lánið, veðsetti tolltekjurnar og ljet 15% afföll, sem runnu m. a. til þeirra, sem útveguðu lánið. Þessi slæmu kjör bygðust vitanlega á eymd landsins og á því, að Íslandsbanki var kominn á knje og hafði tekið landið með sjer í fallinu. — Jeg vil ekki óska hæstv. ráðh. svo ills, að hann vinni marga slíka sigra. Þó að jeg sje stjórnarandstæðingur, vil jeg ekki óska stjórninni þess, að hún komi landinu enn meira á höfuðið en orðið er.

Það gladdi mig, að hæstv. ráðherra fjell frá dönsku fyrirmyndinni um að leyna öllu um svona lántökur, enda var það hlægileg vitleysa. Jeg held, að það hefði verið betra fyrir hæstv. ráðh. að segja þegar í stað alveg hreint um það, hve stór ábyrgðin er, og fylgja þar með almennri venju.

Ennfremur dró í sömu seglin og áður hjá hæstv. ráðh. um gengi norsku krónunnar. Hann byrjaði í gær með að segja, að það væru aðrar ástæður en stækkun krónunnar, sem hefðu lækkað verðið á ísl. kjöti, og nefndi þar til erlendar verðbreytingar. Jeg svaraði því, að enda þótt verðlag ísl. krónu hafi ekki breyst, þá hafi hækkað gengi norskrar krónu. Sú gengishækkun hefir orðið til þess að lama norsku þjóðina. Nú vill svo til, að hæstv. ráðh. er ekki svo fáfróður, að hann geti neitað þessu. Hann hefir fyr á tímum lesið Cassel og hefir því hugmynd um, að „deflation“ lamar kaupmátt fólksins. Af því að hæstv. ráðh. stóð sig ekki við að gera sjálfan sig þann glóp að neita þessu, greip hann til þess úrræðis að vitna í, að mismunandi skýringar hafi komið fram á áhrifum gengishækkunar í hv. Nd. Hann kvað einn hv. þm. hafa haldið fram því sama, sem hjer hefir verið sagt, en annar segir hæstv. ráðherra, að hafi haldið því fram, að gengishækkun yki kaupgetu manna óeðlilega mikið. — Nú vil jeg enn halda áfram þeirri fræðslu hæstv. ráðh. til uppeldisbóta, sem hann byrjaði sjálfur að leita eftir fyrir nokkrum árum með lestri erlendra fræðirita, enda þótt sú sjálfsfræðsla fjelli bráðlega niður. Nú vil jeg sýna hæstv. ráðherra, að þetta mikla „ósamræmi“, sem hann talaði um, getur vel farið saman í hinu sama landi. Við skulum taka sementskaupmann til dæmis. Hann hefir grætt margar 50-aura krónur og lagt í sjóð. (Forsrh. JÞ: Það gerir enginn sementskaupmaður!). Það er ekki „teoretisk“ vissa fyrir því, að allir sementskaupmenn sjeu á hausnum. — Já, sementskaupmaðurinn hefir lagt í sjóð margar 50aura krónur. Síðan hækkar gengið, máske fyrir þá sök, að sementskaupmaðurinn verður ráðherra eða kemst í aðra þá aðstöðu, að hann geti haft áhrif á peningagengið. Nú vænti jeg, að öllum sje ljóst, að kaupgeta þessa manns eykst með hækkuninni, að hann getur nú keypt meira af óþarfa frá útlöndum en áður. Ef hæstv. ráðh. hefir skýrt rjett frá um skoðun hv. þm. í Nd., þá hefir hann eflaust átt við þetta. Á hinn bóginn er fátækur maður, sem byggir sjer steinsteypuhús fyrir lánsfje meðan krónan er 50 gullaurar. Síðan hækkar krónan upp í 100 gullaura, áður en skuldin borgast. Þá hefir hækkunin raunverulega gert skuldina helmingi meiri en hún átti að vera. Sannarlega hefir gengið lamað kaupgetu þessa manns. — En það eru aðrir menn, og margfalt fleiri, sem skaðast á gengishækkuninni. Þess vegna er „deflation“ fordæmd í öllum löndum af hinum bestu mönnum. Ræðustúfur hæstv. ráðh. sannar ekki annað en það, að hann botnar ekkert í einföldustu gengislögmálum, og skilur meira að segja ekki sjálfan sig. Það er svo að sjá, sem hann viti ekki, að það eru samskonar menn og sementskaupmaðurinn, sem jeg nefndi áðan, er alstaðar heimta hækkun, eingöngu af því að þeir sjálfir hagnast á því. í fyrra voru það aftur á móti atvinnurekendur landsins, sem ljetu það koma í ljós, eftir því sem hver hafði kjark til, að þeir vildu taka svo mikið tillit til hinnar skuldugu framleiðslu, að þeir gætu ekki sætt sig við að „deflationin“ hjeldi áfram. í þessum hóp voru jafnvel sumir stuðningsmenn hæstv. stjórnar, — Jeg vil vona, að þessi litla fræðsla verði til þess, að hæstv. ráðh. geri ekki oftar það þjóðgat í gengismálinu, sem hann gerði í dag.

Næst fór hæstv. ráðh. dálítinn útúrdúr til annara landa og vildi halda því fram, áð gengishækkun væri hvergi álitin hafa erfiðar afleiðingar í för með sjer fyrir atvinnuvegina. Jeg vil ráðleggja hæstv. forsrh. að lesa það, sem forsætisráðherra Dana hefir skrifað um þetta. Jeg vil ráða honum til að kynna sjer ástandið í Noregi eða í Englandi, eftir að hækkunin varð í þessum löndum. Alt þetta benti jeg á í gær, en hæstv. ráðh. kaus þann kostinn, sem honum var vænstur, að þegja um þetta. Hann veit, að ekki verður um það deilt, að vandræðaástandið í þessum löndum stafar af hækkun gengisins. En um Finnland, sem lamað var bæði af heimsstyrjöldinni og borgarastríðum, má segja, að það hefir rjett við á skömmum tíma, sakir þess, að það tók öfuga stefnu við hæstv. ráðh. í gengismálum. Þar voru atvinnuvegir landsins ekki særðir holsári með óeðlilegri gengishækkun. — Þrautasvar hæstv. ráðh. var, að ómögulegt væri að líta til Þýskalands, sem jeg hafði nefnt til samanburðar, sakir þess hve þar hafi alt verið komið í niðurníðslu. Það er rjett, að þar var áður íhaldsstjórn, sem steypti landinu út í heimsstyrjöldina. En hinu gekk hæstv. ráðh. fram hjá, að þetta land, sem var svo traðkað og þjakað, gat nú í sumar boðið sigurvegurunum hjálp til að rjetta við fjárhag þeirra. Þjóðverjar buðu Frökkum hjálp til að rjetta við gengi þeirra, og annari sigurvegaraþjóð, Belgum, buðu þeir að kaupa af þeim þýska landspildu fyrir einn miljarð gullmarka, svo að Belgía mætti rjetta við fjárhag sinn. Jeg verð að halda fram, að aðstaða þýska þjóðbankastjórans hafi verið dálítið önnur, þegar hann var að gera þessi boð, heldur en aðstaða bankastjóranna hjer, þegar þeir eru að aura saman fje upp í tap framleiðslunnar, sem orðið hefir að miklu leyti fyrir tilstuðlan hæstv. ráðh. (JÞ).

Allar stríðsþjóðirnar hafa liðið mikið, en það er aðdáunarvert, hversu margar þeirra hafa rjett við með því að lækna peningasjúkdóm sinn. Það, sem Þjóðverjar gerðu í því efni, er aðalfyrirmyndin fyrir okkur. Þeir gátu komið framleiðslunni til að bera sig með því að lækka framleiðslukostnaðinn. Fram hjá þessu hefir hæstv. ráðherra algerlega gengið. Hann hefir forðast að afsaka það einu orði, að ekkert spor hefir verið stigið hjer í þessa átt. Hjer hefir ekki verið sagt eða gert neitt í þá átt að koma betra skipulagi á útgerðina, fækka framkvæmdarstjórum eða lækka laun skipstjóra eða neitt þessháttar, ekki einu sinni reynt að koma í veg fyrir það, sem nú á sjer stað, að skipstjórar hafi beinan hag af brúttóeyðslu skipanna. En það hljóta allir menn að sjá, að lækkun framleiðslukostnaðarins er aðalatriðið. Sakir þeirrar lækkunar var það, sem Þýskaland gat boðið sigurvegurum sínum peningahjálp. Hæstv. ráðh. getur ekki komist utan um neitt af þessu með fáfræði sinni.

Hæstv. ráðh. endaði mál sitt með því að segja, að mjer virtist standa stuggur af þessu láni. Eins og í nál. mínu segir, eru það ekki þessar 9 miljónir frekar en allar hinar lántökurnar síðan 1920, sem fylla mig kvíða. Út af fyrir sig er þessi 9 milj. kr. skuld ekkert verri en hver önnur jafnhá upphæð áður. En mjer virðist svo sem hrunið sje þegar orðið svo mikið, að kominn sje tími til að stöðva það.

Þar sem hæstv. ráðh. (JÞ) ljet í ljós, að í andmælum mínum fælist vantraust á stjórn Landsbankans, þá lítur út fyrir, að hann hafi ekki lesið nál. mitt. Þar stendur það einmitt skýrum stöfum, að eina lífsvonin sje, að stjórn bankans geti haft svo mikinn hemil á lánveitingum, að lán þetta verði ekki að þjóðarvoða. Þessi von hefði í sjálfu sjer getað verið nægileg, ef það hefði ekki sannast fyrir hinu háa Alþingi, að í bankann er kominn nýr yfirbankastjóri, að nafni Jón Þorláksson, og það er hann, sem er sá óttalegi leyndardómur í þessu máli. Vegna sinnar röngu stefnu notar hann vald sitt til að sökkva hverri miljóninni af annari í tekjuhallaframleiðsluna. Hann vill heldur sjá miljónirnar hverfa í hyldýpið en viðurkenna, að hann hafi tekið skakka stefnu. Hann getur sagt með spiltasta konungi Frakklands: „Það er gott, ef alt flýtur mína tíð, hvernig sem fer á eftir“. — Það er annars fleira svipað með hæstv. forsrh. og Lúðvíki XV., eða a. m. k. er ástand landsins að sumu leyti svipað ástandi Frakklands á dögum þess konungs. Ef marka mætti t. d. nokkurt orð, sem ritstjóri stjórnarblaðsins segir, þá vill flokkur hæstv. ráðherra hlúa að þeim saurugustu og siðspiltustu bókmentum, sem hjer á landi hafa nokkru sinni verið skrifaðar og líkastar eru frönskum bókmentum frá dögum Lúðvíks XV. Slíkar bókmentir kallar stjórnarritstjórinn óvenjulegar „að stílkrafti og andagift“. Þetta kemur auðvitað ekki beinlínis við því máli, sem hjer um ræðir, en það sýnir, að það er víðar en í fjármálunum einum, sem siðleysið œtlar að breiðast út fyrir tilverknað íhaldsins.

Það óttalegasta í þessu máli held jeg þó að sje það, að yfirbankastjórinn er nú þegar búinn að ráðstafa miklum hluta af þessu láni þannig, að það hlýtur að verða fast í atvinnuvegunum. Því stendur mönnum stuggur af öllu framferði þessa ráðh. (JÞ) og óttast, að eftir hans dag fari eins hjer á landi eins og fór á Frakklandi eftir daga Lúðvíks XV. Þá kom syndaflóðið.