21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

3. mál, landsreikningar 1926

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. þarf jeg ekki miklu að svara. En jeg vil benda á, að þessar umræddu greiðslur til sveins Björnssonar fyrir árið 1925 og að nokkru leyti 1926 voru einkum vegna ullarmálsins sænska, sem hv. þdm. kannast við. Það er þessi mikla krafa frá Svíum, sem ekki mun útkljáð enn.

Um aukagreiðsluna til dýralæknisins í Reykjavík er það að segja, að hann taldi sjer ekki skylt að inna af hendi aukastörf án sjerstakrar greiðslu. Borgun þessi hefir verið int af hendi í mörg ár og ekki verið kvartað yfir henni fyr en í fyrra, en þá var þessi greiðsla int af hendi, því að hún er fyrir árið 1926. Jeg man með vissu, að bæturnar til Sveins Björnssonar vegna húsakaupa hans voru samþ. af þinginu. Með hvaða formi, man jeg ekki, en jeg hygg, að það hafi verið borið undir fjvn. og standi í 23. gr. fjárl. 1926 eða 1927. Jeg vildi með þessu gefa upplýsingar um þessi atriði, sem óskað hefir verið skýringar á.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að það hefði verið óþarfi fyrir okkur, hv. þm. Vestm. og mig, að svara nokkru til um greiðsluna til Vestmannaeyinga. Er þá óþarfi að gefa upplýsingar um það, sem átalið er og talið vítavert, þegar hægt er að sýna fram á, að ekkert var athugavert við það? Það var ekki aðeins, að það væri alveg forsvaranlegt, heldur alveg sjálfsagt. Menn ættu þó að minsta kosti að hafa rjett til að bera hönd fyrir höfuð sjer, þegar á þá er ráðist, ekki síst þegar það er gert að ósekju.

Það var samningur um að greiða Vestmannaeyingum þann halla, sem þeir yrðu fyrir af þessari för Þórs, og var það ekki nema eðlilegt, þegar ríkið átti að hafa tekjurnar, og það var ekki síður ástæða til þess, þegar tekjur ríkissjóðs af förinni urðu 60 þús. kr. Að tala um það, að stj. hafi ekki haft heimild til þessa, er bara barnaskapur, — því að til hvers er þá stj., ef hún á ekki að geta framkvæmt annað eins og þetta?

Viðvíkjandi berklavarnakostnaðinum skal jeg upplýsa það, að jeg ljet gefa út sjerstök eyðublöð undir reikninga bæði lækna og sjúkrahúsa. (HG: En þau hafa ekki verið notuð). Jú, þau hafa oftast verið notuð og oftast ekki greiddir reikningar nema því aðeins. En hitt er rjett, að stj. hafði linast á að heimta, að reikningarnir frá læknunum væru sundurliðaðir, vegna þess að það hefir sýnt sig, þegar þeir hafa verið endursendir og sundurliðun heimtuð, að þeir hafa verið hærri, þegar þeir hafa komið aftur, enda þótt læknar hafi haldið sig við þann taxta, sem þeim hefir verið settur.

Þessi kostnaður er vitanlega mjög mikill, og væri mikilsvert, ef hægt væri að draga úr honum, til dæmis með því að fá embættislæknana til að inna þetta af hendi fyrir lægra gjald. Til þess mætti vitanlega skuldbinda þá með lögum. — Þá var það viðgerðin á húsi Jóns heitins Magnússonar. Frá því máli hefi jeg skýrt alveg rjett og bent á, að ef hann hefði lifað, hefði útkoman orðið alt önnur. Jeg skil nú ekki í, að hv. þm. geti undrast, að erfitt sje að gera þessa reikninga upp eftir á, þegar sá maður, sem mestu rjeði um þetta, er dáinn. Annars liggur þetta nú, ásamt öðru, fyrir þinginu, og geta hv. þdm., ef þeim sýnist svo, borið fram brtt. um að láta endurgreiða þetta, ef þeir vilja og telja sanngjarnt.

Eins og á stóð, gat enginn vitað fyrir, að forsætisráðherraskifti yrðu svo fljótt sem raun varð á, og að þess vegna þyrfti að taka ráðherrabústaðinn til afnota svo fljótt.

Þá var hv. þm. að tala um dúka, sem sendir hefðu verið til Ísafjarðar. Jeg veit ekki betur en að þeir hafi verið seldir og verð þeirra dregið frá kostnaðinum yfirleitt.

Það var gott, að hv. þm. uppgötvaði, að reikningar landhelgisjóðs hefðu þó verið gerðir, en mig undrar, ef hann heldur, að hægt sje að hylja greiðslur úr landhelgisjóði, þar sem reikningar hans eru lagðir fyrir endurskoðendur árlega. Slíkt er einber barnaskapur, að láta sjer detta slíkt í hug. Þó að það geti verið álitamál, þá get jeg ekki sjeð, hvaða sjóði stæði nær en landhelgisjóði að bera kostnað, sem stofnað er til vegna þess manns, sem hefir yfirumsjón með strandvörnum Dana hjer við land.

Þá þótti hv. þm. hart, að skrifstofustjórum í stjórnarráðinu væri borgað fyrir að hafa á hendi fjárhald opinberra sjóða. Þessir sjóðir, sem hjer er um að ræða, eru nokkuð stórir, t. d. kirkjujarðasjóðurinn og fiskiveiðasjóðurinn, annar um 600 þús. kr. og hinn nálægt 1 milj. kr., og fylgir því eigi lítil ábyrgð að hafa stjórn þeirra á hendi. Jeg veit líka til, að tap hefir átt sjer stað hjá einum þessara sjóða, sem vafalaust stafaði af mistalningu eða einhverri slíkri vangá, og varð reikningshaldari að bæta það úr eigin vasa. Auk þess veit jeg, að það er ómögulegt að koma þessu fyrir á ódýrari hátt en þennan.

Að því er setudómarastörfin snertir, get jeg ekki sjeð, að neitt sje verra að greiða fyrir þau starfsmönnum stjórnarráðsins, þegar þeir vinna að þeim utan skrifstofutíma. Laun þessara manna, sem eru um 2000 kr. á ári með dýrtíðaruppbót, eru svo lág, að það er ómögulegt að fá dugandi lögfræðinga til að gegna þessum störfum, nema þeir eigi von á einhverju öðru meiru.

Um tímakaup kennara er það að segja, að það var farið fram á það á þingi að fjölga skyldutímum þeirra, en það var felt, og jeg býst við, að það hafi meðfram verið af því, að það hafi verið talið ósanngjarnt að leyfa þessum mönnum ekki að afla sjer aukatekna til uppbótar á hin lágu laun þeirra.

Loks að því er snertir borðfje konungs fanst hv. þm., að jeg ætti að koma með brtt., en ekki hann. Það er nú svo, að jeg læt það alveg laust og óbundið, hvort hæstv. stj. vill greiða þetta eins og áður hefir verið gert, en ef hv. þm. vill tryggja sjer, að það verði ekki gert, ætti hann að koma með till. um það. Jeg er líka alveg viss um, að ekki verður breytt til um þetta án þess að bein fyrirmæli komi um það frá þinginu. Jeg held líka, að hægt væri að breyta með fjárl. lögunum um konungsmötu, til dæmis að kveða svo á, að þessi upphæð skyldi greiðast með dýrtíðaruppbót eða gengisviðauka. Jeg tel að minsta kosti líklegt, að stj. fari ekki að breyta til í þessu efni, nema fram komi bein skipun þingsins um þetta; annars svarar stj. því auðvitað sjálf. Fyrir síðastl. ár var þetta greitt, eins og vant er, samkv. þeirri samþykt, sem gerð var á landsreikningnum í fyrra, og á þá samþykt má líta sem ákvörðun þingsins um þetta. Jeg held því, að ef hv. þm. vill fá þessu breytt, ætti hann að flytja till. um það.