09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

24. mál, hegningarlög

Sigurður Eggerz:

Jeg þarf ekki að láta mörg orð fylgja þessum brtt. mínum á þskj. 424 og vil þá byrja með að þakka háttv. allshn. fyrir hennar góðu undirtektir og hinn rjetta skilning, sem hún hefir lagt í þetta mál. Dauðahegning er yfirleitt algerlega móti þeirri rjettarmeðvitund, sem ríkir meðal allra menningarþjóða, enda óvíða í lögum þeirra. Í Noregi er hún afnumin 1902, í Svíþjóð 1901 og nú er verið að afnema hana úr lögum í Danmörku. Sama á sjer stað í Finnlandi, og gæti jeg haldið áfram að telja upp röð af löndum, sem hafa numið dauðahegning úr lögum sínum, en tel óþarft að tefja tímann með því og læt mjer nægja að nefna aðeins þær þjóðirnar, sem næstar okkur standa. Og þar sem endurskoðun hegningarlaganna hlýtur að taka nokkurn tíma, þykir mjer hlýða að afmá þennan blett á löggjöf okkar nú þegar.

Að því er 3. brtt. snertir, sem er um landráð, þykir mjer ekki sjerstök ástæða til að tala um hana, en læt þess aðeins getið, að hegningin er mjög nálægt till. þeim, sem komu fram við endurskoðun hinna dönsku hegningarlaga. Orðin „ævarandi hlutleysi“ tók jeg upp úr sambandslögunum.

Að öðru leyti eru brtt. mínar bornar fram til samræmis vegna breyttrar aðstöðu milli þjóðanna, sem skapast hefir við það, að við urðum fullvalda ríki. Jeg þykist þess fullviss, að þetta muni vera talað út úr hug allra, og sje því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt. mínar, er verði skoðaðar sem sjálfsagðar. Aðalbreytingin er, að fyrir „danskt ríki“ komi: íslenskt ríki.