31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Allshn. hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv. Eins og sjest á nál. meiri hl. á þskj. 482, leggjum við meirihlutamennirnir til, að frumvarpið verði samþykt óbreytt. Þó hefir einn okkar, hv. 2. þm. Rang., nokkra sjerstöðu og mun gera sjerstaklega grein fyrir því sjálfur. Minni hl. virðist, eftir nál. á þskj. 508 að dæma, vera sammála meiri hl. um, að friða beri þingstaðinn forna, en leggur þó til, að frv. verði felt. Gerir hann að sjálfsögðu grein fyrir þessari afstöðu sinni.

Jeg geri ráð fyrir, að í augum allra Íslendinga sjeu Þingvellir helgasti staður þessa lands, fyrst og fremst vegna þeirra minninga, sem við staðinn eru tengdar, en einnig vegna hinnar einkennilegu náttúrufegurðar. Geri jeg þó ráð fyrir, að þessi tilfinning til Þingvalla eigi eftir að glæðast enn meir en orðið er við hin væntanlegu hátíðahöld 1930. Meiri hl. lítur svo á, að það sje helg skylda þjóðarinnar að vernda þennan stað fyrir öllu því, sem spillir helgi hans eða fegurð. Um þetta atriði voru allir nefndarmenn sammála að því er snertir þingstaðinn sjálfan, þ. e. a. s. þann blett, sem er innan hinnar fornu þinghelgi. En frv. gerir auk þessa ráð fyrir að friða allstórt svæði utan þinghelginnar gömlu. Og um það er ágreiningurinn, hvort aðeins skuli friða þingstaðinn sjálfan eða alt það svæði, sem frv. gerir ráð fyrir. Aðalástæða meiri hl. til þess að vilja friða alt það svæði, sem frv. tiltekur, er sú, að með því móti yrði skógurinn í hrauninu friðaður. Við lítum svo á, að það mundi spilla stórum útliti staðarins, ef skógurinn í hrauninu eyðilegðist meir en orðið er. Þyrfti þvert á móti að gera ráðstafanir til, að hann gæti náð frekari þroska. Annað er það líka, að hugsa mætti sjer þau mannvirki gerð í nágrenni Þingvalla, sem ekki ættu heima á þeim stað. Heyrt hefi jeg, að komið hafi jafnvel til orða að taka Öxará til rafvirkjunar og setja upp rafmagnsstöð í Almannagjá. Geri jeg ráð fyrir, að minni hl. mundi fallast á að hindra það á slíkum stað. Þesskonar mannvirki, þó að góð kunni að vera í sjálfu sjer, eiga ekki við á þessum fornhelga stað. Sama er, þó að þau sjeu ekki í sjálfri þinghelginni, ef þau eru í þeirri nálægð, að þau blasa við frá Þingvöllum, því að þá eru þau til helgispjalla. Ef nokkur staður er hjer á landi, þar sem náttúran á að fá að vera í fullum friði og án þess að henni sje raskað af mönnum, þá eru það Þingvellir.

Um það hefir verið talað, og er jafnvel að því vikið í nál. minni hl., að ef þetta frv. næði samþykki þingsins, yrði Þingvallasveitin lögð í eyði. Jeg skal játa, að jeg er ekki sjerlega kunnugur staðháttum þar eystra og veit ekki, hve margir bæir teljast til Þingvallasveitar. En hitt veit jeg, að það svæði, sem frv. gerir ráð fyrir að friða, er auk prestssetursjarðarinnar, Þingvalla, ekki nema 3 jarðir, sem eru hjáleigur úr Þingvallalandi. Það er heldur ekki farið fram á að leggja þessa bæi í eyði, heldur aðeins að hindra, að sauðfje gangi í hinu friðaða landi. Það er einmitt líklegt, að býlin geti haldist eftir sem áður. Í greinargerð stjfrv. er vikið að því, að verndun staðarins mundi gefa ábúendum þessara jarða allarðvænlega atvinnu, sem fyllilega bætti þeim það upp, þó að þeir yrðu að leggja niður sauðfjárrækt. Er og ekki óhugsandi, að þeir gætu haft gróða af greiðasölu á sumrin, ef hugsað verður um Þingvelli eftirleiðis eins og vera ber. Um Vatnskot, sem mun vera rjett hjá vatninu, er líklegt, að þar mætti stunda arðvænlegan atvinnuveg, nefnil. veiði í vatninu. Sje jeg því ekki, að eins mikið sje í húfi og af er látið af sumum. Og þegar um þennan stað er að ræða, þingstaðinn forna, helgistað þjóðarinnar, þá er forsvaranlegt að gera þær ráðstafanir til friðunar, sem annarsstaðar á landinu væri ekki hægt að telja rjettmætar.

Það hefir verið talað um, að ekki væri hægt að girða, eða að minsta kosti mjög örðugt, á takmörkum þess svæðis, sem frv. gerir ráð fyrir að friða. Jeg er, því miður, svo ókunnugur þarna, að jeg get ekki sagt um þetta, en jeg sje ekki, að nokkursstaðar í frv. sje ákveðið beinlínis, hvar girðingin skuli liggja. Jeg tel sjálfsagt, þó frv. verði samþ., að þá verði girðingunni hagað eftir landslagi og staðháttum. Jeg skal játa, að til frekara öryggis væri ef til vill rjett að samþ. brtt. á þskj. 578,2.b, um að Þingvallanefnd kveði nánar á um takmörk hins friðaða svæðis. — Jeg skal taka það fram, að brtt. á þskj. 578 hefir nefndin ekki tekið fyrir á fundi, og er þetta því ekki sagt fyrir nefndarinnar hönd, heldur á eigin ábyrgð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta mál frekar að sinni.