04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Við 2. umr. þessa máls kom til tals, að nauðsynlegt væri, að að minsta kosti sum ákvæði frv. gengju í gildi nú þegar, í stað þess, sem í frv. stendur, að lögin gangi í gildi 1930. Fyrir því hefir nú meiri hl. allshn. leyft sjer að koma með brtt. og bætt við ákvæði um stundarsakir, þar sem lagt er til, að 5.–8. gr. frv. gangi í gildi nú þegar. En aftur á móti hefir nefndin ekki talið þörf á, að hin önnur ákvæði frv., t. d. friðun Þingvalla o. fl., komi til framkvæmda fyr en 1930. Þá vill meiri hl. allshn. ennfremur gera aðra brtt. á frv. Er hún ásamt hinni á þskj. 686, við 8. gr. frv., þar sem talað er um sekt og fangelsi, þannig að á eftir orðunum „alt að 1000 kr.“, komi: „eða alt að“. Það var af ógáti, að þessi orð voru ekki sett í frv. í upphafi.

Nú hafa komið fram brtt. á þskj. 693, frá hv. 2. þm. Árn., og er efni þeirra svipað og í till. meiri hl. 6. brtt. hans er við 8. gr. og fer í sömu átt og nefndarinnar. Þar sem þessi till. er framkomin, þá leggur meiri hl. allshn. ekki áherslu á, að sín till. verði fremur samþykt en þessi. Þó má benda á það, að ákvæði 5. gr., um kosningu Þingvallanefndar, og 6. gr., um reglugerð, er sú nefnd semur og veiti heimild til að ákveða gestagjöld, er verja megi upp í kostnað við friðunina, er nauðsynlegt, að gangi í gildi strax, svo nefndinni gefist kostur á og tími til að undirbúa friðunina. Hygg jeg því fult svo rjett að samþ. brtt. meiri hl. allshn., ákvæðin um stundarsakir, eins og till. á þskj. 693.