24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

141. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg ætlaði ekki að blanda mjer inn í deilur um þetta mál. En eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. fjmrh. verð jeg að taka til máls. — Það lítur svo út, eftir orðum hæstv. ráðh., að þetta frv., sem gerir ráð fyrir því að auka veðdeildarfje um 10 milj. kr., eigi að vera sem nokkurskonar pappírslög fyrir Reykjavík, en fjeð eigi eingöngu að lána til sveita. Nú er það svo, að skýrsla hefir verið gefin um það, hvernig þau lán, er veitt hafa verið úr veðdeildinni, hafa skiftst. Sýnir hún að vísu það, að langmestur hlutinn hefir verið lánaður til sjávarsíðunnar. En bankastjórnin hefir verið spurð að því, hvernig á því stæði, og hún hefir svarað því þannig, að bændur hafi fengið öll umbeðin lán og hafi haft forgangsrjett að lánunum, þannig að þeir þurftu ekki að bíða neitt eftir þeim, þar sem sjávarmenn aftur á móti voru látnir bíða, þar til röðin kæmi að þeim. — Þetta, að svona lítið hefir verið veitt bændum af lánum þessum, stafar af því, að eftirspurnin frá þeirra hálfu hefir ekki verið meiri en þetta. Hinsvegar er það svo, að lán þau, er veitt hafa verið út á hús hjer í Reykjavík, eftir þeim reglum, er veðdeild eru settar og bankastjórnin hefir framfylgt, eru svo lág, að fylsta trygging er fyrir greiðslu þeirra. Hjer og annarsstaðar hefir ekki verið lánað meira út á húsin en sem svarar 25–30% af gangverði þeirra. Það verður því mikið afturkast, ef þau seljast ekki fyrir meira en ¼ hluta þess. Það fer þá að verða spurning um afkomu landsins í heild, ef afturkippurinn verður svo mikill hjer í Reykjavík, að húsin standi ekki í einum fjórða hluta af núverandi verðmæti sínu. Þá er hætt við, að ríkissjóður hafi úr litlu fje að spila til bygginga nýrra vega, strandferða og annara framkvæmda. Því er ekki hægt að neita, að ríkissjóður fær mest af gjöldum sínum frá Reykjavík. Útgerðarmenn og kaupmenn, sem hafa miklar tekjur, leggja allmikið Frsm. Og þá er ekki síður drjúgt, sem hjeðan drýpur frá allri alþýðu manna, sem hún greiðir í allskonar tollum og sköttum. Ef alt það fje hætti að renna gegnum ríkissjóðinn, þá hefði ríkið lítið fje til framkvæmda. Þar sem ræða hæstv. fjmrh. virtist bera vott um, að hann vildi stöðva lán til Reykjavíkur af þeirri ástæðu, að bærinn mætti ekki aukast meira, þá er rjett að minnast á það, hvort eftirspurn undanfarandi ára hefir verið eðlileg eða ekki. — Síðan lögin um nýja flokka bankavaxtabrjefa frá 1926 komu til framkvæmda, hafa verið veittar 8 miljónir, en eftir eru þá 2 miljónir, sem þegar er búið að sækja um og verða veittar á næstu mánuðum. En þeir, sem þurftu að byggja, voru orðnir svo langsveltir, að strikið, sem komst á 1926, er alveg óeðlilegt. Má því búast við, að þetta fari að jafnast úr þessu og eftirspurnin fari að verða eðlileg. En að stöðva þessi lán nú mundi hafa þau áhrif, að bankavaxtabrjefin fjellu, til mikils óhagræðis fyrir lántakendur. Þegar svo þessi lán væru opnuð aftur, kæmi nýr straumur. Og hræðsla manna við, að þessi lán yrðu enn stöðvuð, mundi mjög herða á þeim að nota þau. Það er því áreiðanlega rjettara að halda þessum lánum hiklaust áfram. Þá er hitt atriðið, hvort rjett sje að afnema þessi lán til þess að stöðva vöxt Reykjavíkur: Jeg held nú, að það hafi ekki mikil áhrif á innflutning fólks, hvort bygð eru fleiri eða færri hús á ári hverju. Þar kemur annað til greina. Á Eyrarbakka t. d. standa húsin tóm, og þó flytur fólk ekki þangað. Það eru aðrar orsakir, sem liggja til grundvallar fyrir því. Meðan fólkið telur betra um afkomu hjer í bæ en annarsstaðar, þá flykkist það hingað. — Það kemur þá til álita, hvort leyfa eigi mönnum húsaskjól, þar sem þeir vilja helst vera, eða að minsta kosti þess sje ekki varnað, að menn byggi sjálfir yfir sig heilnæma bústaði. Hæstv. stjórn gæti ráðið því með stöðvun veðdeildarlána til Reykjavíkur, að menn lægju í kös í óheilnæmum íbúðum, en hún gæti ekki stöðvað innflutninginn með því. Þá gat hæstv. fjmrh. um það, að byggingar hjer yrðu dýrari en þær þyrftu að vera, vegna dýrra byggingarmeistara og verkstjóra. En jeg hygg, að ekki sje hægt að taka byggingar úti um land til fyrirmyndar í þessu efni, enda hvaðan ætti þeim að koma kunnáttan? Hjer eru byggingar og verkstjórn áreiðanlega í besta lagi hjer á landi, og svarar áreiðanlega best kostnaði að láta þá hafa umsjón með byggingum, sem sjerþekkingu hafa, þó að það kosti meira. Annað mál er það, hvort ekki þyrfti að vera betra skipulag á byggingum hjer en nú er. En nú hefir skipulagsnefnd verið starfandi undanfarið. Ætti starf hennar að tryggja það, að betur yrði gengið frá þessu í framtíðinni. Í sveitum er ekki um neitt slíkt að ræða. Það þarf að tryggja það, að vel sje frá öllu slíku gengið hjer sem annarsstaðar, en það verður heldur ekki gert með stöðvun veðdeildarlána, sem hæstv. fjmrh. virðist helst telja allra meina bót.