11.04.1928
Neðri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

34. mál, varðskip landsins

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. dómsmrh. lýsti yfir því, að hann mundi setja sig á móti öllum brtt. við frv., svo að jeg sje ekki ástæðu til að ræða þær frekar. Þó finst mjer frv. svo úr garði gert, að eigi væri vanþörf á að breyta því nokkuð, og undrar mig, að hæstv. ráðh. skuli vilja setja sig upp á móti brtt. 724,2, við 5. gr., þar sem segir, að orðin „en greiða skal þeim umsamið kaup eins og um uppsögn væri að ræða“ falli burt. Það er alveg eins og verið sje að gefa skipverjum, sem ætla sjer að fara af skipunum, undir fótinn um að haga sjer illa, svo þeir verði reknir og eignist þannig kröfu á þriggja mánaða kaupi. Það ætti þó að mega breyta þessu þannig, að skipverjar fengju ekki greitt kaup, ef þeir væru reknir fyrir fullar sakir, en nú stendur í 5. gr., að skipverjum skuli greitt umsamið kaup eins og um uppsögn væri að ræða. Jeg geri þó ráð fyrir, að það sje til einskis að ræða um þetta frekar við hæstv. ráðh. Jeg vil benda hæstv. ráðherra á það, í sambandi við 6 ára ákvæðið í frv., að ef það væri ekki, hefðu þessir embættismenn engan rjett til biðlauna, þótt þeim væri sagt upp stöðunni. Sje hinsvegar búið að ráða þessa starfsmenn til 6 ára, verður ekki hjá því komist að greiða þeim full laun þennan tíma, en annars þekkist slíkt ákvæði sem þetta ekki í neinum öðrum lögum.

Samanburður hæstv. ráðh. á launum skrifstofustjóra stjórnarráðsins og skipstjóranna er mjög villandi, sökum þess að skrifstofustjórarnir vinna mikla aukavinnu utan embættis, og hafa altaf gert. Starf skipstjóranna er þannig vaxið, að þeir geta á engan hátt aflað sjer aukatekna utan embættis. Þá sagði hæstv. ráðh., að laun skipstjóranna á Eimskipafjelagsskipunum hefðu lækkað. Það er alveg rjett, en samt eru laun skipstjóranna á Eimskipafjelagsskipunum og strandferðaskipi ríkissjóðs miklu hærri en hjer er gert ráð fyrir. Þegar skipstjórar varðskipanna voru ráðnir til þessa starfa, voru þeir teknir frá einkafjelagi og þeim lofað því, þótt það loforð væri að vísu munnlegt, að þeir skyldu fyrst um sinn njóta sömu launakjara. Þá hefi jeg fyrir satt, að laun skipstjóranna sjeu lægri en sumra annara starfsmanna á varðskipunum. Það kann að vera, að þetta sje ranghermi, og vænti jeg þess þá, að hæstv. ráðh. leiðrjetti það, ef svo er.

Jeg er ekki í neinum vafa um það, að hægt muni að komast að samkomulagi við þessa menn, skipstjórana, um einhverja lækkun á launum þeirra. Jeg vona, að þingið samþ. launakjör skipstjóranna óbreytt, enda væri annað brigður á því loforði, sem þessum mönnum hefir verið gefið, ekki einungis af stj., heldur einnig af þinginu, því að á þinginu í fyrra mælti enginn þessu í mót. Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að frv. þetta væri flutt sem sparnaðarfrv., en nú hefir hann sjálfur upplýst, að launin hafi hækkað, svo að ekki sje lengur um sparnað að ræða, heldur þvert á móti, því að nú eru gjöldin orðin talsvert hærri en eftir gildandi lögum. Eftir þær breytingar, sem Ed. gerði á frv., þá virðist það nokkuð farið að fjarlægjast takmarkið, svo framarlega sem aðaltilgangur frv. var sparnaður, enda tók hæstv. ráðh. það fram með nokkurri gremju, að launin hefðu hækkað í Ed. til mikilla muna.

Hæstv. ráðherra sagði, að risnufje sendiherrans hefði verið ákveðið af Íhaldsflokknum. Nú hefir það verið ákveðið af honum sjálfum, og jafnhátt, svo að jeg hygg, að þetta geti ekki orðið honum biturt vopn í höndum. Annars vil jeg benda hæstv. ráðherra á það, að í frv., er hann sjálfur flytur hjer á þingi, hefir hann lagt það til, að laun þeirra manna, sem þeim stöðum gegna, er það frv. ræðir um, verði ekki lækkuð meðan þessir menn sitja í embættunum, sem nú eru þar. Eins og menn vita, hafa bankastjórar Landsbankans mjög há laun, en í frv. því, sem hjer liggur fyrir um Landsbanka Íslands, segir svo, að laun þeirra skuli haldast óbreytt meðan þeir menn gegni stöðunum, sem nú sitja í þeim. Ef það þykir sanngjarnt, að laun bankastjóra Landsbankans, sem viðurkend eru að vera mjög há, haldist óbreytt, hvers vegna má þá ekki sama regla gilda um skipstjóra varðskipanna? Mjer þætti gaman að vita, hvers vegna er gert upp á milli þessara starfsmanna ríkisins. Það er a. m. k. ekki hægt að segja, að skipstjórar varðskipanna hafi staðið ver í stöðum sínum en bankastjórarnir, og þá hlýtur það að vekja undrun manna, að gert er upp á milli þessara embættismanna. Þeirri spurningu vil jeg beina til hæstv. ráðh., hver sje ástæðan fyrir slíkum mismun, því jeg fæ ekki betur sjeð en að hin sama regla ætti að gilda um þessa starfsmenn ríkisins, ekki síst þegar þess er gætt, hve starf skipstjóranna er oft að ýmsu leyti hættulegt. Þeim er oft skipað að fara út í verstu veður og þess krafist, að þeir leggi alt í sölurnar, hvernig sem á stendur. Vænti jeg þess, að hæstv. ráðh. svari þessari spurningu, þó að ekki líti út fyrir það, því að nú flýtir hann sjer burtu, er hann er beðinn að skýra rangindi sín.