03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Það er aðeins stutt aths. út af ummælum hæstv. fjmrh. (MK) um Holtaveginn.

Jeg skil vel, að þeir hv. þdm., sem ekki eru kunnugir austanfjalls eða aðstöðu vegamálanna þar, geti verið í vafa um rjettmæti brtt. okkar þingmanna Rangæinga um endurgreiðslu á nokkrum hluta af kostnaði við að endurbyggja Holtaveginn.

En eins og jeg hefi áður tekið fram, er Rangárvallasýsla miklu ver komin en Árnessýsla, einkum þó að því leyti, að Holtavegurinn hefir orðið að tiltölu margfalt dýrari en Flóavegurinn, sem stafar meðfram af því, að sækja verður ofaníburð langar leiðir að með ærnum kostnaði, og undirstaða vegarins er hin versta, foræðismýrar og flóar, en undir öllum Flóaveginum er hraun og ofaníburður svo að segja við hendina.

Auk þess er umferð bifreiða austur um Rangárvallasýslu orðin svo mikil og eykst með hverju árinu, en af þeim flýtur aftur gífurlegur viðhaldskostnaður á hverju ári á sýsluvegum Rangárvallasýslu, sem eru langir og viðhaldsfrekir, svo sem t. d. Fljótshlíðarvegurinn og Fjallabaksvegurinn, eða öðru nafni Landvegurinn.

Hjer er því um fylstu sanngirniskröfu að ræða, og þó að ekki hafi verið um þetta sótt af sýslunefndinni, þá hefir það ekkert að segja. Það geta allir líka getið sjer þess til, hvort sýslunefndin samþykki ekki slíkar kröfur, sem hjer er farið fram á.

Sannleikurinn er sá, að Rangárvallasýsla hefir ekki verið eins ágangsfrek í kröfum sínum gagnvart ríkissjóði eins og Árnessýsla. Við höfum reynt að standa í skilum um framlög til vegagerða, en það hefir Árnessýsla ekki gert. Hjer stendur því eins á að öðru leyti en því, að Rangárvallasýsla hefir að fullu staðið í skilum, en Árnessýsla ekki. Það er því prófsteinn í atkvgr. um þetta mál á hv. deild, hvort hún vill ganga inn á þá braut að verðlauna vanskil með forgangsfríðindum.

Jeg fyrir mitt leyti tek ekki tillöguna aftur og læt skeika að sköpuðu, hvernig um hana fer. Ef hún fellur nú, mun hún borin fram á næsta þingi. Og hún verður borin fram, þangað til hún sigrar — þangað til menn sjá og skilja, hverri rangsleitni er hjer verið að beita, sem jeg reyndar vona, að menn skilji þegar á þessu þingi.