30.01.1928
Efri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (1406)

48. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þó að ekki sje langt um liðið, síðan þessi lög, sem hjer um ræðir, voru sett, hefi jeg þó leyft mjer að koma fram með till. til breytingar á þeim. Það hefði ef til vill ekki verið ástæða til að koma fram með frv. í þessa átt, ef engin breyting hefði orðið á Alþingi. En nú eru gengnar kosningar síðan í fyrra, að gengið var frá þessum lögum, og sýnist því rjett að fá álit þessa nýkosna þings á þessu atriði lagnna. Jeg álít, að við eigum ekki að vera og getum ekki lengur verið svo langt á eftir nágrannaþjóðum vorum, eins og við höfum verið og erum enn í þessum efnum.

Fyrst er það 21 árs aldurinn, sem jeg vildi minnast á, og get jeg raunar verið um það fáorður, því að jeg hefi oft áður á þingi lýst því máli. En jeg vil nú að þessu sinni aðeins bera fram þá almennu ástæðu, að það eru svo margvísleg rjettindi, sem menn öðlast 21 árs gamlir, að það ætti ekki að sýnast ástæða til að halda fyrir þeim kosningarrjettinum einum, fremur en öðrum mannrjettindum.

Hitt er einnig mikilvægt, sem í mínu frv. felst, að fella niður það ákvæði gildandi laga, að menn missi við það kosningarrjett, ef þeir standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Og þó að það ákvæði sje nú í lögum, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir geti kveðið á um það, hvort rjettindamissi skuli varða, ef sjerstaklega stendur á, þá er það í rauninni lítil rjettarbót.

Nú er það svo, að þetta nær heldur ekki, eftir mínu frv., nema til kosninga í málefnum sveita og kaupstaða, en ekki til Alþingis, enda þyrfti til þess stjórnarskrárbreytingu. Mjög hefir það einnig ýtt undir mig, um flutning þessa frv., að síðan hin nýju fátækralög gengu í gildi, hefir virst svo sem sum ákvæði þeirra hafi ekki verið látin koma til framkvæmda. Hefi jeg orðið þess var hjer í Reykjavík, nú alveg nýlega, af fundagerðum fátækranefndar, þar sem mönnum hefir verið veittur fátækrastyrkur. Til dæmis var það svo um einn mann, sem varð fyrir slysi við vinnu og hefir verið óvinnufær síðan í fyrra og verður ef til vill aldrei vinnufær aftur, að hann varð að leita styrks, og hefði að sjálfsögðu sá styrkur átt að vera óafturkræfur, en það var þó ekki tekið fram við styrkveitinguna, að svo skyldi vera. Það, sem fyrir mjer vakir, er að fá alveg skilyrðislaust ákveðið, að þeir, sem neyðast til að þiggja slíkan styrk, skuli ekki sviftir neinum rjettindum.

Nú kunna einhverjir að segja sem svo, að hjer eigi ekki allir óskilið mál, og get jeg vel gengið inn á að svo sje. En það eru undantekningar, sem jeg vil ekki láta alla hina líða fyrir, sem af óviðráðanlegum ástæðum hafa lent í þeirri raun, að verða að leita á náðir hins opinbera um styrk. Hinsvegar eru einnig í lögum ákvæði, sem heimila það, að svifta þá menn fjárforræði, sem ekki hirða um að bjarga sjer sjálfir, en hafa öll skilyrði til þess að geta það.

Jeg mun svo, að svo stöddu, ekki fjölyrða meira um málið, en aðeins mælast til þess, að hv. deild leyfi því að ganga til 2. umr. og allshn.umr. lokinni.