14.02.1928
Efri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (1409)

48. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Frv. þetta felur í sjer þær breytingar, að kosninga- og kjörgengisaldur færist niður í 21 ár, og svo hitt, að það skuli eigi varða missi kosningarrjettar, þó að menn standi í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk.

Jeg finn nú ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um ástæðurnar með og móti þessu máli. Því hefir lítt eða ekki verið hreyft fyr en á síðari árum og mjög einhliða á því, haldið. En jeg vil þó benda á það, að það er í raun og veru engin ástæða, þó að maður hafi náð lögaldri, orðið 21 árs, og þar með fengið fjárforræði sjálfs sin, til þess að sjálfsagt sje að fela honum fjárforræði annara.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um málið. Jeg ræð deildinni til að fella frv., en jeg sje, að umr. hafa hjer lítið að þýða, því að jeg veit, að ef það er eitt af lífsskilyrðum stjórnarinnar, að þetta mál nái fram að ganga, þá gengur það fram. En sje ekki svo, þá munu menn greiða atkv. eins og þeir eru vanir.