17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1425)

79. mál, yfirsetukvennalög

Einar Árnason:

Það var eitt atriði í ræðu hv. frsm., sem jeg vildi minnast á. — Að vísu vantaði hann víða röksemdir, fullyrðingum sínum til stuðnings, en jeg ætla ekki í þetta sinn að fara að krefja hann um þær. En jeg verð þó að athuga lítillega þá staðhæfingu hans, að langflestar yfirsetukonur hefðu æskt þess, að fá laun sín hækkuð. En sú krafa, sem um það hefir komið, er þannig til komin, að gengist var fyrir því hjeðan frá Reykjavík, að fá undirskriftir yfirsetukvenna út um land, án þess að þær hefðu hugsað til að gera neinar kröfur. Aldan er því runnin hjeðan úr Reykjavík. Ef til vill hefir ein yfirsetukona verið óánægð með launakjör sín, og pantað svo þessar undirskriftir utan af landi.