27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (1490)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg vildi aðeins segja nokkur orð, út af ræðu hv. 3. landsk. Jeg vænti, að í orðum hans hafi ekki átt að felast nein ásökun til sjútvn. út af meðferð þessa máls af hennar hálfu. Jeg held, að telja megi þá úrlausn á málinu, sem nefndin stingur upp á, þá einu, sem hægt er að veita því, að svo stöddu. Það hafa nú komið fram nokkuð skiftar skoðanir í málinu og einnig innan nefndarinnar. Jeg fyrir mitt leyti vil styðja að framgangi málsins og tel, að slíkt mannvirki sem þetta muni áreiðanlega borga sig, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis. Mjer er fyllilega ljós þörfin á þessum hafnarbótum. Jeg held, að hvernig sem á málið er litið, þá hljóti menn að kannast við hana, og að það mundi verða til mikilla hagsbóta hjeraðinu öllu, ef úr henni væri bætt, bæði að því er útveg snertir og einnig eins og hv. flm. benti á, þá mundi þessi höfn verða til mikils hagræðis fyrir alla sýsluna, þó ekki væri nema sem biðhöfn fyrir strandferðaskipin. Mín afstaða til málsins byggist aðeins á því, að jeg tel það ekki nægilega undirbúið, með því að mikið veltur á, að tryggilega sje um alt búið, áður en byrjað er á framkvæmdum.