03.02.1928
Neðri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (1565)

58. mál, dýralæknar

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Eins og jeg tók lauslega fram, þegar hæstv. atvmrh. lagði fram stjfrv. um dýralækna, hefir það frv., sem jeg flyt nú, verið í undirbúningi síðan í sumar. Hafa ýmsir merkir menn unnið að því, og má nefna Sigurð búnaðarmálastjóra og dýralæknana. Einkum hefir Jón Pálsson dýralæknir á Austurlandi lagt við það mikla alúð. Dálitlar breytingar hefi jeg gert á frv., síðan það var sent til þingmanna flestra. T. d. er sú, að laun dýralæknanna eru nú áætluð 500 kr. lægri, og er þar farið eftir núgildandi launalögum.

Jeg get verið hæstv. atvmrh. þakklátur fyrir frv. sitt, þótt við sjeum sitt á hvorri skoðun um tölu dýralæknanna. Fyrir okkur báðum vakir vafalaust það sama, að koma skipulagi á þetta atriði. Það ætti eigi að spilla fyrir þessu frv., að jeg flyt það sem utanflokkamaður. Skal jeg nota tækifærið til þess að taka það fram, að jeg hefi eigi gengið í Framsóknarflokkinn, þótt jeg sje í kosningasambandi við hann.

Jeg vona, að hv. þm. geti verið sammála um það, að hjer sje um framtíðarskipulag að ræða. Það getur varla komið til mála, að þjóðin fari að stíga spor aftur á bak, með því að fækka dýralæknum. Reynsla annara þjóða hefir sýnt, að með auknum framförum í landbúnaði verður að fjölga dýralæknum. Þó að gert sje ráð fyrir 7 dýralæknum í frv., ætlast jeg eigi til, að þeir verði þegar í stað svo margir. Nú eru heldur ekki til í landinu nema 4 menn, sem numið hafa dýralækningar, og mjer er eigi kunnugt um, að nokkur leggi stund á þær nú sem stendur.

Hæstv. forsrh. tók það fram, að dýralæknir þyrfti að vera á Suðurlandi. Er og einsætt, að svo er. Nú er nýstofnað mjólkurbú í Flóanum og annað á uppsiglingu í Rangárvallasýslu. Verður því brýn nauðsyn á að hafa þar eftirlit með kúm og heilsufari þeirra. Þegar útflutningur á frystu kjöti færist í vöxt á Suðurlandi, þarf og á dýralækni að halda, til þess að annast stimplun þess.

Þótt allítarleg greinargerð fylgi frv., vil jeg nú fara nokkru nánar út í einstök atriði málsins.

Nú sem stendur er eytt afarmiklu fje til útrýmingar á berklaveiki. Það er því einkennilegt, að eigi skuli lögð meiri stund en er á það, að koma í veg fyrir berkla í kúm. Í nálægum löndum hefir það komið fram við rannsókn, að heilsufar kúnna er mjög alvarlegt. Í Danmörku er talið, að 40% af öllum kúm sjeu berklaveikar. Danir treystast eigi til að skera niður allar sjúkar kýr, en láta sjer nægja að gerilsneyða mjólkina. En Ameríkumenn drepa allar berklaveikar kýr, og er nú tala þeirra komin niður í 1½%. — Annað atriði, sem sterklega mælir með fjölgun dýralækna, eru hinar fyrirhuguðu búfjártryggingar. Stjórnin flytur nú frv. um þær. En jeg get varla hugsað mjer, að þær geti orðið í stórum stíl, ef dýralæknar eru eigi fleiri en nú. Dýralæknir verður t. d. að skera úr því, hvort nauðsynlegt sje að drepa sjúkan grip.

Gerum ráð fyrir, að pest komi upp í búfje. Tveir dýralæknar mundu þá lítið fá að gert. Hvernig færi t. d., ef klaufnaveiki kæmi upp austur í Hornafirði, og dýralæknirinn í Rvík kæmist eigi þaðan fyrir önnum? Þá yrði að leita til dýralæknisins á Akureyri. Hætt er við, að veikin væri búin að gera usla, áður en hann kæmi á vettvang.

Jeg vil undirstrika það, að hlutverk dýralæknanna á ekki eingöngu að vera það, að lækna, heldur eigi síður að koma í veg fyrir sjúkdóma.

Hæstv. stjórn hefir sýnt áhuga á því, að láta rannsaka alidýrasjúkdóma. En jeg fæ ekki betur sjeð, en að það sje nauðsynlegt að hafa marga dýralækna til þess að safna skýrslum og upplýsingum utan af landi og senda til rannsóknarstofunnar. Það hefir verið beðið um álit forstjórans í Veterinær Fysikatet í Khöfn, og hann hefir látið eindregið í ljósi þá skoðun, að fækkun dýralækna, frá því sem nú er, muni mjög draga úr gagnsemi slíkrar stofnunar, enda standa henni fyrir þrifum, hve fáir þeir eru fyrir.

Það tel jeg merkilegt atriði, sem þetta frv. mitt gerir ráð fyrir, að sameina önnur störf dýralæknastarfseminni. Tvímælalaust getur þetta komið til greina hvað snertir ráðunautsstörfin. Dýralæknar ættu að vera betur „kvalificeraðir“ til þeirra starfa en þeir, sem hingað til hafa gegnt þeim. Þeir hafa meiri og betri þekking heldur en búfræðingar yfirleitt, og hafa numið sín fræði á vísindalegan hátt. Auk þess er ekkert á móti því, að dýralæknar hefði á hendi kenslu við búnaðarskólana, eða jafnvel alþýðuskóla í sveitum. Er þá gert ráð fyrir, að þeir sje búsettir í sveit, enda komast þeir með því í nánari kynni við bændur og hafa meiri íhlutun um mál þeirra. Eins og hæstv. atvmrh. benti á, er eðlilegast, að dýralæknar sitji í stærstu landbúnaðarhjeruðunum. Það má að vísu segja um Reykjavík, að hún kemst ekki af án dýralæknis, en aðrir kaupstaðir hafa enga eða mjög litla þörf í þá átt. Það er því furðulegra, að í tveim stærstu landbúnaðarhjeruðunum skuli enginn dýralæknir vera búsettur. Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til háttv. landbn., ef hún fellst ekki á að fjölga dýralæknunum, svo sem hjer er farið fram á, hvort ekki sje þá rjett að breyta til um bústaði þeirra, sem fyrir eru, þannig, að einn sitja í Borgarfirði og annar á Suðurlandsundirlendinu. Til þess ber brýn nauðsyn, og svo mikið er víst, að austanfjalls hafa komið fram raddir um slíkt.

Jeg skal benda á enn nýtt starf, sem dýralæknar hafa fengið, og vaxandi menning með kröfum sínum um vöruvöndun og heilbrigðisráðstafanir gerir æ umfangsmeira. Þetta starf er eftirlit með matvælum, hvort heldur send eru á erlendan markað eða seld heima fyrir. Þetta höfum vjer og tekið upp að nokkru, svo sem t. d. um skoðun á útfluttu kjöti, en þó er langt frá, að það sje enn með tískusniði. Annarsstaðar er það talið starf dýralækna að hafa eftirlit með mjólk, sem seld er til neyslu í borgum og bæjum. Hjer í Reykjavík mun heilbrigðisfulltrúi hafa þetta eftirlit á hendi. Með fjölgun dýralækna ætti þeim að verða hægra um vik að geta kent og leiðbeint þeim mönnum, sem sjerstaklega eru hneigðir fyrir lækningar, svo að þeir geti orðið að liði, ef á liggur. Æskilegast væri, að maður væri í hverjum hreppi, sem þekti helstu sjúkdóma búpenings og ráðleggingar við þeim. Eins og flestir vita, er enn blandað allskonar hindurvitnum inn í lækningaaðferðir alþýðufólks sumstaðar. T. d. það, að lækna hest með því að klippa galdrastaf á lend honum, sem jeg veit dæmi til. Dýralæknarnir eiga að koma læknisþekkingunni út til fólksins.

Þá er eitt atriði enn, sem jeg vil leggja mikla áherslu á, og það er mannúðarhlið þessa máls. Jeg drap lauslega á þá hlið við 1. umr. um frv. hæstv. stjórnar um fækkun dýralækna, svo að jeg get gengið út frá því, að menn viti við hvað jeg á. Frá mínu sjónarmiði er það stórt atriði, og jeg veit, að Dýraverndunarfjelag Íslands mun senda erindi hingað til Alþingis, þar sem mótmælt er fækkun dýralækna, með þeim forsendum, sem jeg áður hefi drepið á.

Það var sagt hjer í þessari háttv. deild, við 1. umr. stjfrv. um dýralækna, að með því væri reiddur hnefi að bændum landsins. Jeg álít, að því fari fjarri, að það sje viljandi gert. Jeg þykist vita, að aðalatriðið, sem fyrir hæstv. atvmrh. hafi vakað, hafi verið það, að koma á breyttu og bættu skipulagi, þótt við sjeum hinsvegar ekki sammála, með hverjum hætti það megi best verða.

Að svo mæltu vil jeg biðja háttv. deild að vísa þessu frv. til 2. umr. og landbn.