18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (1683)

104. mál, greiðsla verkkaups

Hákon Kristófersson:

Jeg vil taka undir það með hv. flm., að nefnd eigi að athuga það, sem fram hefir verið fært hjer í hv. deild við þessa umr. um frv. En jeg er alveg sammála hv. þm. N.-Ísf. um það, að 2. gr. þessa frv. sje alveg ótæk. Og komi frv. í þá nefnd, sem jeg á sæti í, þá mun jeg leggja til, að hún verði feld úr því. Það er ekki rjett, að það sje svo alstaðar, að formenn eða útgerðarmenn verði að annast um heimili þeirra sjómanna, sem hjá þeim eru. Jeg veit mörg dæmi til þess, að svo er ekki, nema þá að mjög litlu leyti. Annars verð jeg yfirleitt að segja það, að jeg held, að við mættum hlíta þeim lögum, sem síðasta þing setti um þessi efni, og ekki sje brýn nauðsyn á nýrri löggjöf svo stuttum tíma eftir að hin fyrri gekk í gildi. Jeg get ekki verið sammála þeim góðu mönnum, sem halda því fram, að löggjöfin eigi að grípa fram fyrir hendurnar á mönnum, um að gera samninga, svo sem þeim líkar og er hagkvæmt. Það getur vel verið, að löggjöfin geri eitthvað gott með því, en jeg held, að það ætti að vera meginregla, að þegar gott samkomulag fæst manna á milli, þá sje það ekki eyðilagt með lagabókstaf.

Jeg vil eindregið, eins og hv. þm. Vestm., undanþiggja sveitabændur frá þeirri greiðslu, sem þetta frv. fer fram á, því að það er alkunna, að hjá þeim hagar á allan hátt öðruvísi til en hjá mönnum við sjávarsíðuna, og það væri ekki ófyrirsynju, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, athugaði, hvort ekki mætti færa þetta til betri samrýmingar, ef frv. á að ná fram að ganga. Jeg fyrir mitt leyti álít annars ekki þörf á þessu frv. nú, og miða jeg það álit mitt fyrst og fremst við þarfir manna í þessu efni í því hjeraði, sem jeg og hv. flm. þekkjum best til.