10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

hv. frsm. samgmn. (JAJ) kvartaði yfir því, að lítið lægi fyrir af reikningum og skýrslum flóabátanna. En jeg get frætt hv. þm. á því, að reikningar bátanna eru ætíð heimtaðir af þeim, þegar samið er við þá, því þó þeim sje ætlaður ákveðinn styrkur, þá er venjulega farið eftir því, hvað þeir þurfa mikið til þess að geta haldið uppi ferðum. Þannig hefir það t. d. verið með Borgarnesbátinn o. fl. Það er vitanlegt, að fjelag það, sem heldur úti Borgarnesbátnum, er mjög illa stætt, og hefir því styrkurinn til þess ætíð verið miðaður við það, að fjelagið gæti haldið áfram. Og hafi eitthvað átt að draga úr þeirri upphæð, þá hefir viðkvæðið verið: Ef við fáum þetta ekki, verðum við að hætta að halda uppi ferðum. Á þennan hátt er stóllinn oft settur fyrir dyrnar, þegar um óhjákvæmilegar ferðir er að ræða. Þá er það einnig Djúpbáturinn, sem altaf hefir verið illa stæður. Af honum hafa altaf verið heimtaðir reikningar hans. Skaftfellingur hefir stundum sýnt sína reikninga oft á ári, en það hefir stafað af því, að hann hefir verið svo illa stæður, að hann hefir þurft að fá fyrirframgreiðslur. Aðferðin við Hornafjarðarbátinn hefir verið sú, að sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu hefir verið afhent fjeð, og hefir hún svo ráðstafað því, og fæ jeg ekki sjeð, að önnur aðferð sje þar betri. Hvað Rangárvallasýsluferðirnar frá útlöndum snertir, þá hefir þar verið um að ræða hreinan „akkorðs“-samning við Eimskipafjelag Íslands. En eftir því sem Eimskipafjelagið hefir tjáð mjer, hefir það tapað talsvert miklu á þessum ferðum. Um Hvalfjarðarbátinn hafa venjulega verið gerðir samningar um ákveðinn ferðafjölda fyrir hinn ákveðna styrk, en reikninga hefir ekki verið krafist, af því að ekki hefir þótt ástæða til þess. Við Eyjafjarðarbátinn hefir líka verið gerður „akkorðs“samningur, og hefir aðferðin verið sú, að eigendur hans sendu áætlun sína til stjórnarráðsins og tækju svo þær ferðir, sem stjórnin óskaði eftir, inn í áætlun sína. Annars er ekkert á móti því, að heimtað verði, að hann sýni reikninga sína. Að hann á að fá hærri styrk núna en áætlað var í fjárl. í fyrra, stafar af því, að þegar fjárl. voru til meðferðar í fyrra, var ekki kunnugt um annað en að hann hjeldi áfram þeim styrk, er hann hafði úr póstsjóði.

Jeg vona nú, að hv. frsm. samgmn. sjái af þessu, sem jeg hefi sagt, að það er ekki rjett, að lítið liggi fyrir af reikningum flóabátanna.

Jeg get tekið undir með hv. l. þm. N.-M. (HStef), er hann sagði, að þetta væri í raun og veru alt strandferðir og því væri sá styrkur, er bátarnir fengju í þessu skyni, rjettast settur undir þann lið fjárl., sem ætlaður er til strandferða. En vitanlega skiftir það ekki máli, hvort póstflutningar þeir, er bátarnir annast, eru greiddir beint úr póstsjóði eða ekki. En ef það er gert við einn, þá er sjálfsagt að gera það við alla.

Um Ísafjarðarbátinn er það að segja, að honum hefir undanfarið ekki verið ætlað fje af þeirri upphæð, sem varið er til póstflutninga. Það var að vísu svo allra fyrst, en svo var því breytt. Það er því ekki nema í samræmi við þetta, að hækka hefir orðið styrkinn til Eyjafjarðarbátsins, þar sem af honum var tekinn sá styrkur, er hann hafði til póstflutninga.

Jeg vil benda á, eins og jeg mun hafa gert áður hjer á þingi, að það er ekki rjett að birta í opinberu nál., hvað ætlast er til, að hver einstakur bátur fái. Þetta gerir stjórninni miklu erfiðara fyrir, er hún semur við hina einstöku báta. Hlutaðeigendur segja þá: Þetta vildi samgmn., að við fengjum. Og þó það sje óþarflega hátt, vilja þeir fá það fyrir því, en sje það of lágt, segja þeir: Við getum ekki rekið bátinn með svo litlum styrk; við verðum að fá hann hærri. — Þetta alt gerir aðstöðu stjórnarinnar mjög örðuga, og því held jeg, að miklu rjettara væri, að samgmn. gæfi ekki út neitt nál. um þetta, en sendi stjórninni tillögur sínar. Jeg hefi áður bent á þessa leið og vonast til, að menn sjái, að hún er sú heppilegasta í þessum efnum.

Annars verður þessi liður altaf áætlunarliður, og gerir ekki mikið til, hvort þar munar 1 eða 2 þús. Bátana verður að styrkja, svo þeir geti haldið ferðum uppi, því án þeirra verður alls ekki komist af. Og það er alveg ástæðulaust af nefndinni að vera að klípa af einstökum bátum 500 kr. eða svo, því það verður hvort sem er altaf samningsatriði við stjórnina. Að síðustu vona jeg, að samningar takist með Eyjafjarðarbátinn og við hann verður að hækka. Og ef hv. þm. vilja fara í gegnum umr. um það mál frá í fyrra, þá munu þeir sjá, að honum hefir verið ætlaður lægri styrkur en hægt er að komast af með. En það stafaði af þeirri ástæðu, sem jeg hefi áður nefnt.