28.03.1928
Efri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Þetta mál var borið fram tímanlega á þingi og hefir verið hjá fjhn. síðan. Nú er kominn 28. mars, og samt vill svo óvenjulega til, að þetta mál kemur til 2. umr. án þess öll nefndin hafi skilað áliti um það. Það eru að vísu komin fram tvö nál. á þskj. 512 og 590 frá Íhaldsmönnum í nefndinni og Alþýðuflokksmanninum, sitt frá hvorum, en tveir nefndarmenn, Framsóknarmennirnir, hafa ekki skilað neinu áliti. Þetta er óvenjulegt á þingi, þótt það sje kanske ekki einsdæmi, að nefndarmenn stærsta stjórnmálaflokksins vilji ekki sinna máli, þótt ærinn tími hafi verið til. Þetta er því eftirtektarverðara, sem jeg lít svo á, að þetta mál sje þess eðlis, að það hafi átt skilið að fá umsögn og athugun frá öllum hliðum.

Fyrir hönd Íhaldsmanna í nefndinni vil jeg gera grein fyrir brtt. þeim, sem við flytjum við frv. og prentaðar eru með nál. okkar á þskj. 512.

Nefndin leitaði umsagnar bankastjórnar Landsbankans og eftirlitsmannsins með bönkum og sparisjóðum um þetta mál. Landsbankastjórnin ljet í ljós þá skoðun sína, að það sje ósamrýmanlegt ákvæðum landsbankalaganna, að sparisjóðsdeild bankans hafi á hendi þá útlánastarfsemi, sem 1. gr. frv. talar um og gert er ráð fyrir öðrum þræði að geti komið til mála að fela sparisjóðsdeildinni. Við álítum það skoðunarmál, hvort það sje rjett, að slík starfsemi sje ósamrýmanleg þeirri starfsemi sparisjóðsdeildarinnar, sem landsbankalögin gera ráð fyrir, og jeg fyrir mitt leyti álít, að svo sje ekki. Það stendur sem sje það ákvæði um hana í landsbankalögunum, að að því leyti sem ekki sje ákveðið í þeim lögum, gildi hin almenna löggjöf um sparisjóði í landinu. En sparisjóðslögin heimila sparisjóðum slíka starfsemi, ef öll stjórn sjóðsins samþykkir. Þrátt fyrir það getum við fallist á að fella burtu úr 1. gr., að sparisjóðsdeild bankans geti komið til greina um þessa lánastarfsemi, af því að við teljum eðlilegast að seðlabankinn annist hana. Hinsvegar hafa bankastjórar Landsbankans mælst undan, að slík starfsemi verði lögð á herðar seðlabankanum. En við höfum ekki getað fallist á, að þær ástæður, er þeir færa fyrir því, sjeu rjettar. Við skiljum það vel, að frá sjónarmiði seðlabankastjórnar geti það altaf verið álitamál, hvort rjett sje yfir höfuð að auka lánastarfsemi í landinu. En bankastjórarnir hafa ekki fært neitt fram gegn því, að þessi lánastofnun verði sett á stofn utan við Landsbankann, og virðist því sem þeir hafi ekkert á móti því, að þessi starfsemi sje upp tekin. En það færa þeir fram gegn því, að seðlabankinn hafi hana á hendi, að hann muni með því móti hafa lakari tök á gjaldeyri landsins en ella, með því að bankinn hafi talsvert erlent lánsfje í veltu fyrir og geti ekki áhættulaust aukið það. Þessu erum við ósamdóma. Ef byrja á slíka nýja útlánastarfsemi, þá er fortakslaust hentugra að fjárútvegun til þeirrar nýju starfsemi sje í höndum seðlabankastjórnarinnar, til þess að hún hafi sömu aðstöðu til þessarar lánastarfsemi eins og annara lánveitinga yfir höfuð, þ. e. geti haft hemil á, að ekki komi ofvöxtur í útlánin, því að það gæti orðið hættulegt fyrir gildi gjaldeyrisins. Við erum þeirrar skoðunar, að með því að ganga ríkt eftir tryggingum fyrir lánunum, þá sje það í fullu samræmi við verkefni seðlabankans að starfsemin njóti fjár síns frá honum, en ekki öðrum stofnunum, sem seðlabankinn getur ekki haft hemil á, á þeim tímum, er seðlabankastjórnin teldi þörf vegna gjaldeyrisins að draga að einhverju leyti saman seglin.

Við höfum til öryggis, ef nokkur hætta skyldi vera, gert brtt. um nýtt viðbótarákvæði í 3. gr., að krefjast megi frekari trygginga, svo sem framsals á tryggingum þeim, er fjelagsmenn setja rekstrarlánafjelaginu fyrir lánum sínum samkvæmt 4. gr. Þó að við gerum þessa einu uppástungu, er ekki svo að skilja, að það sje nokkurt aðalatriði fyrir okkur, hvort fjeð verður útvegað á þennan hátt eða annan. Aðalatriðið er auðvitað, að fjeð fáist.

Ef til væri einhver önnur peningastofnun en Landsbankinn, sem gæti tekið þessa starfsemi að sjer, þá er ekkert við það að athuga frá sjónarmiði frv. eða þeirra, er að því standa. Tilgangi lagasetningarinnar má vitanlega ná eins á þann hátt. Þetta er sagt hæstv. stjórn til leiðbeiningar, ef svo færi, að þetta mál yrði ekki útrætt og útkljáð á þessu þingi og hún vildi sinna því eitthvað milli þinga, þá teljum við, að hvaða önnur trygg peningastofnun sem er, gæti með eins góðum árangri tekið að sjer það verkefni, að útvega það reikningslán erlendis, er við teljum að starfsemin verði að grundvallast á.

Það hefir verið um það rætt, hvort ekki væri mögulegt að auka við ræktunarsjóðinn nýrri starfsemi, þannig, að hann gæti tekið að sjer bankastörf önnur fyrir landbúnaðinn heldur en þau, sem honum eru falin eftir núgildandi löggjöf. Að vissu leyti væri það ekki nema eðlilegt framhald á góðri byrjun, og jeg vil taka það fram, ef brotið væri upp á slíkri aukningu á starfsemi ræktunarsjóðsins, þá gæti það komið til athugunar, hvort það verkefni, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., gæti hentað þeirri stefnu eftir því nýja skipulagi, er þá yrði sett. En eins og nú er, virðist langeðlilegast að binda starfsemina við Landsbanka Íslands.

Þá leitaði nefndin einnig umsagnar eftirlitsmannsins með bönkum og sparisjóðum, að því er snertir ákvæði frv. um þátttöku sparisjóðanna í þessari lánastarfsemi. Eftirlitsmaðurinn hafði ýmislegt á móti þeirri tilhögun, er frv. felur í sjer. Mótbárur hans eru taldar upp í nál. 1. minni hl. á þskj. 512, og höfum við jafnframt gert grein fyrir afstöðu okkar til hverrar einstakrar mótbáru.

Fyrsta mótbáran er sú almenna, að slík starfsemi sje utan við starfsvið sparisjóðanna. Það er sameiginlegt yfir höfuð við öll nýmæli, að þau eru utan við þá tilhögun, sem áður hefir tíðkast. Þó er það svo, að stærri sparisjóðir í kaupstöðum gera nú allmikið að því, að veita lán, hliðstæð þeim, er hjer um ræðir. Þau eru þá venjulega veitt til stutts tíma, gegn víxiltryggingum eða öðrum tryggingum. Og það er gert ráð fyrir því í sparisjóðslögunum, að sparisjóðirnir geti tekið lán beinlínis í þessu skyni. Ástæðurnar til þess liggja í augum uppi, því að án slíkrar lántöku hafa sparisjóðir ekki yfir því fjármagni að ráða, sem fullnægi þeim þörfum, sem fyrir eru. Lántökur eru sparisjóðum heimilar að lögum, ef samþykki sparisjóðsstjórnar — þeirra allra, er hana skipa — kemur til. Það skiftir meiru, að vel sje af stað farið, en starfsemin fái svo mikinn vöxt þegar á fyrsta ári. Við teljum, að þetta ákvæði, að allir stjórnendur skuli samþykkja lántökuna, sje nægileg trygging fyrir því, að sparisjóðirnir muni ekki hleypa sjer út í neina ljettúð í þessu efni og ekki ráðast í meira en þeir treystast til.

Í öðru lagi hefir eftirlitsmaðurinn bent á, að sparisjóðunum sje ekki ætlað að meta tryggingar, sem fjelagsmenn eiga að setja fjelagsstjórn sinni samkvæmt 4. gr. e. í frv.

Okkur fanst þessi mótbára á rökum bygð og berum því fram brtt. við 3. gr., sem á að ráða bót á þessu. 3. gr. gerir ráð fyrir, að fjelagsmenn ábyrgist lánið einn fyrir alla og allir fyrir einn. En nú viljum við bæta við, að stjórn peningastofnunarinnar geti krafist frekari tryggingar, þar á meðal framtals á tryggingum þeim, er fjelagsmenn setja rekstrarlánafjelaginu. — Hitt er í sjálfri sparisjóðslöggjöfinni, sem við förum ekki fram á að hagga, að sparisjóðsstjórnin hefir rjett til þess að meta þær tryggingar, sem henni eru settar, og getur neitað láni, ef trygging fyrir því er ekki nógu góð.

Þá telur eftirlitsmaðurinn, að nokkur áhætta hljóti að fylgja slíkri útlánastarfsemi og ekki eftir miklu að sækjast fyrir þær peningastofnanir, sem eiga að hafa hana með höndum, þar sem skilja megi 8. gr. svo, að þær njóti ekki neins hagnaðar, því að þar er aðeins talað um, að þær skuli fá starfrækslukostnað sinn vegna þessara viðskifta endurgoldinn. Okkur þykir sanngjarnt að taka tillit til áhættunnar, þótt við viljum búa svo um hnútana, að hún verði sem minst, og flytjum í því skyni brtt. við greinina, er feli í sjer, að sparisjóðirnir geti fengið hæfilegan afgang, ef tekst að stýra starfseminni svo, að ekki verði töp á. Það álít jeg þeir geti gert. Við höfum að minsta kosti reynt að ganga svo frá ákvæðum lagasetningarinnar, að þetta ætti ekki að þurfa að verða nein áhættulán.

Loks bendir fyrnefndur eftirlitsmaður banka og sparisjóða á þá hættu, að í slík lánafjelög veljist saman hinir efnaðri menn hvers hjeraðs, en hinir efnaminni verði þá að mynda fjelagsskap út af fyrir sig, og muni þá veitast erfitt að setja nægar tryggingar fyrir lánum sjer til handa. — Eftir því sem við þekkjum til, mun það ekki alment í fjelagslífi í bygðarlögum landsins, að slíkur klofningur eigi sjer stað. Og jeg geri ekki ráð fyrir, að það mundi verða fremur á þessu sviði en öðrum. Það má ganga út frá því sem gefnu, að ekki myndist nema eitt fjelag á sama svæði, nema þar sem atvinnuvegir væru mjög sundurleitir og gerðu það eðlilegt og æskilegt, að t. d. sveitabændur mynduðu eitt fjelag og sjávarbændur annað.

Skal jeg svo ekki frekar ræða þessar mótbárur, meðan ekki gefst sjerstakt tilefni til þess.

Við háttv. 1. þm. G.-K. leggjum til, að frv. verði samþykt með þessum tiltölulega fáu og smáu breytingum, sem jeg hefi nú gert grein fyrir. Ef okkur verður bent á fleira, sem stendur til bóta, erum við fúsir til að líta á slíkt með sanngirni til samkomulags þar um.