28.03.1928
Efri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (1856)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Ingvar Pálmason:

* Jeg þarf ekki miklu að svara, því að það var ekki margt, sem kom fram í ræðu háttv. 3. landsk., sem hnekki þeirri niðurstöðu, sem jeg hefi komist að. Hv. þm. viðurkennir, að tilgáta mín, en það var náttúrlega tæpasti útreikningur, um að þessi lán mundu ekki geta orðið ódýrari en í 7% á ári, væri rjett. Og það gleður mig, að hv. þm. viðurkendi þetta, þótt hann vildi ekki ganga inn á þær forsendur, sem jeg hafði fyrir þessari niðurstöðu, sem skiftir minna máli, því að það er alls ekki hægt að skoða þetta sem útreikning, vegna þess að jeg hefi ekki gefið mjer þann tíma, sem til þurfti, til að athuga þetta atriði. En. jeg skal geta þess, að ef jeg hefði farið þann veg í málinu, þá hefðu sjálfsagt tölurnar orðið hærri en þær, sem jeg nefndi. Að álagningin, sem verður á þessum lánum í fjelagsdeildunum, mundi ekki nema einum af hundraði, það vissi jeg vel, því að það er tekið hjer fram í frv., að sú álagning á ekki að vera nema ½%. En hverjum fjelagsmanni er skylt að greiða tíu krónur í inngangseyri í fjelagið, og álagning er það samt sem áður, og verður að teljast afleiðing af lántökunni.

Svo gerði hv. 3. landsk. útreikning, þótt fljótlegur væri, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að hinir raunverulegu ársvextir yrðu ekki nema 3%; jeg verð, með allri virðingu fyrir útreikningi hv. þm., að draga þetta í efa, en það er ekki síður bygt á ágiskun minni heldur en útreikningi, því að jeg fæ ekki sjeð, hvernig það verður framkvæmt, að lán verði tekið þannig, eins og hv. þm. segir. Við skulum hugsa okkur, að jeg þurfi 3000 kr. til rekstursfjár fyrir árið. Það þarf jeg að vísu ekki alt árið, en þegar jeg hefi gengið í fjelagsskapinn, verð jeg að gefa upp þá fjárhæð, sem jeg þarf að nota, og það fje þarf að vera handbært, þegar á að nota það. Það leiðir af því, að einhverja vexti verður að greiða, þó að fjeð sje ekki notað. Þess vegna held jeg, að þessi útreikningur hv. 3. landsk. sje að miklu leyti út í loftið. Hitt vita allir, að þegar jeg tek víxil til eins mánaðar, þá borga jeg ekki 7% af upphæðinni nema þann tíma, sem víxillinn stendur, m. ö. o. mjer finst það vera viðurkent, að lánskjörin geti ekki með neinu móti orðið aðgengilegri heldur en þau eru alment nú.

Þá drap hv. þm. á það, að hann með útreikningi sínum hefði sýnt, að sparisjóðsfje landsmanna væri ekki hentugt til þessara útlána. Jeg skal náttúrlega ekki segja um það, en jeg veit, að býsna miklir kostir munu samt sem áður fylgja því, að nota sitt eigið fje, heldur en erlent, en út í það skal jeg ekki fara að sinni.

Þá sagði hv. þm., að betri lánskjör muldi tæplega hægt að útvega til rekstrarláns en þau, sem hjer er farið fram á; nema því aðeins, að um gjafir væri að ræða. Jeg bið mig undanþeginn því, að við höfum farið fram á nokkrar gjafir. (JÞ: Það var alls ekki meining mín).

Hv. þm. vildi ekki kannast við það, að fyrirkomulagið væri þunglamalegt. Þó játaði hann, samt sem áður, að milliliðirnir væri orðnir nokkuð margir, og þótt sæmilega gengi viðskiftin á milli sparisjóðanna og bankans, þá var samt svo að skilja, sem það gætu liðið mánuðir frá því að borgað væri við sparisjóðinn, þar til borgunin kæmist til bankans. Já, það er nú ekki betra með samgöngurnar hjá okkur, en að greiðslur geta af þeim sökum dregist í marga mánuði, og jeg er hræddur um, að einhver verði á meðan að borga vexti af láninu.

Þá taldi hv. þm. sjálfsagt, að afgreiða málið nú í þinginu, svo langt sem hægt væri að koma því, en þar erum við ekki sammála. Jeg tel ver farið að halda málinu áfram í þinginu, þangað til það strandar, heldur en að vísa því til stjórnarinnar, í þeirri von, að að því verði unnið á milli þinga. Ef málið dagar uppi, þá er það ver komið heldur en hjá stjórninni, því að þá er ekkert gert að því eftir þing. Það, sem sagt var um tafir á málinu, get jeg ekki beinlínis tekið til mín, eða að við höfum tafið það lengi. Það væri þá aðeins, ef dregist hefði hjá okkur að skila nál., og það stafar þá af því, að við höfum ekki fyr en fyrir nokkrum dögum verið spurðir um það, hvort við ætluðum ekki að skila nál., og kváðum við nei við því.

En jeg skal ekki karpa um þetta mál lengur. Það, sem veldur mismun í skoðunum á málinu, er misjöfn trú á því. Jeg geri ekki ráð fyrir, að jeg geti með nokkrum árangri boðað hv. 3. landsk. þá trú, sem jeg hefi, eða hann mjer sína trú, en jeg held, að okkur geti báðum komið saman um að gera það, sem heppilegast er í málinu. Jeg tel heppilegra að vísa því til stjórnarinnar, heldur en að láta það daga uppi, en hv. þm. virðist, því miður, líta öðruvísi á það.

*Ræðuhandr. óyfirfarið af þm.