12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög 1929

Bernharð Stefánsson:

Jeg flutti enga brtt., þegar fjárlögin voru til 2. umr., og ekki heldur við fyrri hluta þeirra nú. En við síðari hlutann hefi jeg leyft mjer að koma fram með tvær brtt. Þó er ekki nema önnur þeirra til hækkunar; það er XXV. brtt. á þskj. 435, um 1200 kr. styrk til Jóhanns Sveinssonar, til þess að stunda háskólanám í uppeldisfræði. Mjer vitanlega hefir enginn Íslendingur tekið háskólapróf í þessum fræðum. Það má vel vera, að einhverjir hafi stundað nám í fræðum þessum, en það hefir áreiðanlega enginn Íslendingur lokið prófi í þeim.

Jeg vænti þess fastlega, að öllum sje það ljóst, að full þörf sje á, að einhver ungur og efnilegur maður leggi stund á þessi fræði og ljúki prófi í þeim. Hjer á landi eru einmitt tvö embætti, sem sjerstaklega ættu að vera skipuð lærðum uppeldisfræðingum. Á jeg þar við fræðslumálastjóraembættið og kennaraembættið í uppeldisfræði við kennaraskólann. Það stendur nú að vísu svo á, að í fræðslumálastjóraembættinu er ungur maður, og er því að sjálfsögðu óþarfi að fara að sjá honum fyrir eftirmanni; en það stendur öðruvísi á um hitt embættið, sem jeg nefndi. Það skipar nú aldraður maður, sem sje skólastjórinn sjálfur, og má því búast við, að ekki líði á löngu, þangað til þörf verði fyrir færan mann í þessa stöðu.

Þá er á hitt að líta, hvort maður þessi muni vera hæfur til þess að fá styrk í þessu skyni. Þess er þá fyrst að geta, að hann byrjaði nám í kennaraskólanum hjer og lauk þaðan prófi með góðum vitnisburði. Var hann svo við barnakenslu og unglingakenslu um hríð, hvorttveggja með góðum árangri. En hugur hans hefir jafnan staðið til þess að afla sjer frekari þekkingar í uppeldisfræði, og til þess að búa sig ennþá betur undir það, braust hann í að lesa undir stúdentspróf og lauk því á síðastliðnu ári. Stundar hann nú nám við heimspekideild háskólans og býst við að ljúka þar prófi í vor.

Þegar piltur þessi byrjaði að lesa undir stúdentspróf, var hann kominn yfir 20 ára aldur; vildi hann því eðlilega eyða sem stytstum tíma í námið. Gekk hann því undir prófið eftir tiltölulega mjög stuttan námstíma, en var þá svo óheppinn að hafa verið lasinn um skeið, og var það altaf meðan á prófinu stóð. Þessi óhepni hans, að vera lasinn meðan á prófinu stóð, ofan á það, að hafa varið stuttum tíma til námsins, varð þess valdandi, að hann hlaut ekki nema III. einkunn við prófið. En eins og kunnugt er, eru stúdentar með svo lágri einkunn útilokaðir frá að fá hinn almenna stúdentastyrk. Sá hann sjer því ekki til neins að sækja um hann.

Jeg vona nú, að hv. deildarmenn sjeu vaxnir upp úr þeim gamla hleypidómi, að meta verðleika manna eftir prófum þeirra, því að reynslan er margbúin að sýna, að próf manna eru enginn mælikvarði fyrir manngildi þeirra, heldur líti þeir á hitt, að maður þessi hefir fengið mjög góðan undirbúning í þessum fræðum, þar sem hann hefir fyrst og fremst lokið kennaraprófi og auk þess fengist við kenslu um nokkurt skeið, og alstaðar með góðum árangri. Þá skal jeg taka það fram, að sá maður, sem best mun dómhæfur í þessum efnum, sem sje sjera Magnús Helgason skólastjóri, hefir gefið Jóhanni bestu meðmæli. Segir hann þar, að hann telji Jóhann Sveinsson sjerlega vel til þess fallinn að leggja þessi fræði fyrir sig. Meðmæli þessi liggja öllum þm. til sýnis í lestrarsal þingsins.

Af framansögðu vænti jeg, að öllum hv. þdm. sje það ljóst, að það, sem hjer er farið fram á, er ekkert annað en það, að þessi maður njóti jafnrjettis við aðra stúdenta að því er stúdentastyrkinn snertir, þó að hann vegna óhappa næði ekki þeirri einkunn, sem er skilyrði fyrir hinum venjulega stúdentastyrk.

Þá hefi jeg leyft mjer að flytja aðra brtt. á þskj. 435, ásamt háttv. 1. þm. Skagf. (MG). Hún er undir tölul. LXXXIII og fer fram á að veita 40000 kr. lán úr viðlagasjóði til þess að koma upp tunnuverksmiðju á Siglufirði, er fje er fyrir hendi, gegn þeim tryggingum, sem stjórnin tekur gildar. Jeg flutti svipaða tillögu á síðasta þingi, nema hvað þá var farið fram á hærri upphæð, og auk þess átti það að vera til þess að endurbæta tunnuverksmiðju á Akureyri.

Jeg get því látið mjer nægja nú að vísa til þeirra ástæðna, sem jeg færði þá fram með því máli.

Það er vitanlegt, að það er eitt hið mesta böl þjóðarinnar, hve arðberandi vinna stendur hjer stuttan tíma úr árinu. Þess vegna er það mikið nauðsynjamál, ef hægt yrði að koma því svo fyrir, að fólk það, sem áður hefir aðeins haft vinnu yfir sumarið, gæti líka fengið vinnu yfir veturinn. Slík iðjugrein sem þessi væri einmitt vel til þess fallin að vera atvinnuvegur á vetrum fyrir það fólk, sem stundar síldarvinnu á sumrin.

Í öðru lagi er á það að líta, hve mikill sparnaður það væri fyrir þjóðina í heild sinni að þurfa ekki að borga út úr landinu öll þau vinnulaun, sem greidd eru fyrir tunnusmíði, og jeg færði einmitt rök fyrir því í fyrra, að væru allar síldartunnur, sem notaðar eru hjer, smíðaðar hjer heima, myndi sparast í vinnulaunum fyrir þjóðina um 700 þús. kr. Jeg vænti því, að menn sjái, að hjer er hið mesta nauðsynjamál á ferðinni, og jafnframt, að það hlýtur að vera áhættulaust að veita stjórninni þessa heimild, sem hjer er farið fram á, því að hún á að meta tryggingarnar, og jeg veit, að hún lætur ekki lánið nema þær sjeu nægilega góðar.

Till. mín í fyrra um þetta efni fjekk sæmilegar undirtektir; hún fjell að vísu hjer í Nd. með 1 atkvæðis mun, en þar sem nú er farið fram á miklu lægri upphæð, vænti jeg, að till. verði samþykt.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, get jeg ekki látið hjá líða að tjá hv. fjvn. þakkir fyrir till. nr. 89 á þskj. 435, a-lið, þar sem farið er fram á að veita stjórninni heimild til þess að taka ábyrgð á alt að 250 þús. kr. láni til hafnarbryggju á Siglufirði. Eins og hv. frsm. (BÁ) tók fram, er hjer ekki um neina nýja kvöð að ræða á hendur ríkissjóði, heldur er þetta aðeins tilfærsla. Annars hefi jeg engu við það að bæta, sem hv. frsm. tók fram; hann skýrði málið vel og rjettilega. En jeg vil aðeins bæta því við, að sumir kaupstaðir aðrir hafa fengið háa styrki til þessara hluta, og er ekki langt á að minnast, er Ísafjarðarkaupstaður fjekk 60 þús. kr. styrk í þessu skyni. En hjer er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur aðeins lánsheimild. Jeg býst því ekki við, að um mótstöðu gegn till. þessari geti orðið að ræða.

Þá vil jeg ennfremur þakka háttv. fjvn. fyrir b-lið þessarar sömu till., að heimila stjórninni að kaupa jörðina Bakkasel með Gili í Öxnadal, ef viðunandi samningar nást við núverandi eigendur. Er þetta gert til þess að tryggja það, að haldið verði þarna uppi sæmilegum gistingastað fyrir ferðamenn. Sem nákunnugur maður á þessum slóðum get jeg upplýst það, að alt, sem hv. frsm. sagði um þetta mál, var nákvæmlega rjett, og jeg hefi engu við það að bæta, heldur vil jeg tjá honum og nefndinni þakkir fyrir tillöguna.