12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, fjárlög 1929

Lárus Helgason:

Jeg á hjer tvær brtt. á þskj. 435. Hin fyrri er undir XXXVI. lið, um 2500 kr. styrk til húsmæðrafræðslu í Vík í Mýrdal. Það stendur svo á, að í mörg undanfarin ár hefir verið starfandi kvenfjelag í Vík í Mýrdal og látið mikið eftir sig liggja. Það hefir 5–6 síðastl. ár gengist fyrir handavinnunámsskeiðum þar í þorpinu. Hafa þau staðið yfir í 6 mánuði, en verið tvískift þannig, að hvort þeirra hefir staðið yfir í 3 mánuði, og hafa verið á því 16 námsmeyjar. Fleiri hafa ekki komist að vegna húsnæðisleysis. Nú stendur svo á, að fjelag þetta getur að líkindum fengið gott húsrúm með sæmilegum kjörum; hefir það því hugsað sjer að bæta við námsskeiðin húsmæðrafræðslu, og til þess að það geti orðið, er fjelaginu bráðnauðsynlegt að fá þennan styrk, sem hjer er farið fram á.

Það hlýtur nú öllum að vera skiljanlegt, að þar, sem jafnafskekt er og þarna, er það bráðnauðsynlegt að þurfa ekki að senda unglingana langt í burtu til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir nauðsynlega þurfa til undirbúnings undir lífið. Það meðal annars er til þess að draga þá frá sveitunum. Hjer er því verið að stíga spor í þá átt að halda fólkinu sem mest kyrru í sveitunum.

Eins og jeg tók fram áðan, hafa námsskeið þessi verið vel sótt, en sökum húsnæðisskorts hefir ekki verið hægt að hafa þar fleiri nemendur í einu en 16. Jeg vænti því, að hv. deildarmenn greiði till. þessari atkv.

Hin till. mín er á sama þskj., undir LXII. lið. Hún fer fram á að veita Álftveringum 1500 kr. styrk til þess að verja engjar í sveitinni fyrir spjöllum af jökulánni skálm. Það hagar svo til þarna, að kvísl þessi rennur norðaustan við Álftaver, og það er langt síðan farið var að hlaða garða meðfram henni, til þess að verja engjar manna fyrir spjöllum hennar vegna. En svo þegar Katla gaus síðast, hljóp svo mikill vöxtur í kvísl þessa, að hún eyðilagði garðana á stórum köflum og flutti möl og sand á engjar þessara manna. Hafa þeir því bygt garða þessa að nokkru leyti upp aftur og reynt að halda kvíslinni í skefjum, en það hefir orðið þeim svo kostnaðarsamt, að þeir standa í töluverðum skuldum vegna verksins, og þess vegna er farið fram á að fá þennan litla styrk, til þess að ljetta undir með þeim.

Jeg vænti nú, að hv. deildarmenn líti með sanngirni á þetta mál og taki jafnframt tillit til þess, að menn þessir urðu fyrir miklum fjárhagslegum áföllum af Kötlugosinu 1918, svo miklum áföllum, að efnahagur þeirra hefir hvergi nærri rjett sig við ennþá. Jeg þykist nú hafa skýrt þessar till. mínar svo, enda þótt í stórum dráttum sje, að hv. deildarmnn hafi getað áttað sig á þeim, svo að þeir geti greitt atkv. um þær.