23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (1943)

130. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil aðeins stuttlega leiðrjetta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 2. landsk. Jeg held, að þessi hv. þm. hafi varla verið hjer við 2. umr. þessa máls, því þá hefði varla sá ókunnugleiki á málinu, sem kom fram hjá hv. þm., átt sjer stað. (IHB: Jú, jú!) Hjer er aðeins um það að ræða, að leggja Þingvelli niður sem prestssetur. Það er skoðun Þingvallanefndarinnar, að þarna eigi að koma með tímanum lítil en falleg kirkja. En þá kirkju verður eflaust vandi að gera, svo að hún geti orðið þjóðinni til sóma. Er því betra að bíða árinu lengur með byggingu hennar og tryggja það, að hún verði svo úr garði gerð, að menn geti orðið ánægðir með hana til frambúðar. Einn af listamönnum okkar, Ásgrímur Jónsson, hefir komið fram með frumlega hugmynd um byggingu hennar; hann vill nota hraungrjótið, svo að hún geti orðið sem best í stíl við staðinn. Það er engin deila um kirkju á þessum stað. Það eru allir sammála um, að þarna skuli ávalt vera kirkja. Þarna á líka að vera þjónandi prestur, og mjer finst ástæðulaus sú „kritik“ á sjera Hálfdáni á Mosfelli, sem komið hefir fram hjá hv. 2. landsk. Jeg held, að hann sje eins góður og ýmsir aðrir. (IHB: Hefi ekki nefnt hann á nafn!) En það var tilskilið í lögunum um stofnun Mosfellsprestakalls, að sá prestur, sem tæki við á Mosfelli, væri skyldur að taka við Þingvallakirkju, ef þess yrði óskað. Hv. 2. landsk. fanst óhæfa, að sú skipun væri gerð á þessu, að presturinn á Mosfelli tæki við þessum söfnuði. Þetta verður því að minsta kosti óbein „kritik“ á sjera Hálfdán. En hv. þm. mintist ekki á ýmislegt annað, sem fram hefir farið á Þingvöllum og sem er óhæfa. Hv. þm. talaði ekki um, að kirkjan, sem staðið hefir í skjóli prestsins á Þingvöllum og annara, sem eiga að sjá umt hana, er svo ljeleg orðin, að presturinn segir, að hún geti fokið hvaða dag sem vera vill, ef hvessir að mun. Presturinn hefir að vísu reynt að treysta hana til bráðabirgða, en hún er orðin svo fúin og ónýt, að ekki er hægt að gera örugglega við hana. En þetta er ekki nema eitt dæmi af því, hvernig tönn eyðileggingarinnar hefir verið leyft að ganga um fegurstu staði Þingvalla undanfarin ár. Þessu vill hv. 2. landsk. sjáanlega að sje haldið áfram þar. Og sje það gert, þá er ekki langt þangað til Þingvellir verða skóglausir og að litlu metnir. Hvers vegna var neðri fossinn eyðilagður og vegurinn lagður niður í gegnum gjána? Hvers vegna var Valhöll sett á þennan stað? Hvers vegna var konungsskálinn settur þarna? Og hvers vegna leyft að hylja skúrinn í Fögrubrekku? Svo mætti lengi telja. — Allt var þetta gert undir handleiðslu þeirra manna, sem hv. 2. landsk. tekur öðrum fremur tillit til. Hvers vegna er nú verið að hindra það, að Almannagjá verði óvirt enn meira, bara til þess að þóknast prestinum á Þingvöllum? Það er af því, að nú hefir verið tekið í taumana á frekari eyðileggingu. — Í skjóli prests og ýmsra annara hefir alt verið illa gert við Þingvelli hingað til. Allir vita að þar var mikill skógur áður, sem nú er nærri eyðilagður. Þeir sem, eins og hv. 2. landsk., hafa ekki gert neitt til þess að vernda Þingvelli, ættu helst ekki að hafa leyfi til að tala um þessi mál og vanda um við þá, er vilja friða Þingvelli. Ekki lagði þessi hv. þm. okkur hv. þm. Rang. á þingi 1923 það lið, sem dygði; þá svæfði hennar flokkur þetta mál. Eftir alla þá brigðmæli, sem þetta mál hefir orðið fyrir síðan á þinginu 1919, er það furðu djarft, að þessi hv. þm. skuli leyfa sjer að bera það fram, að þeir, sem nú beita sjer fyrir friðun Þingvalla, sjeu að rýra helgi þeirra. Það hefði að minsta kosti verið æskilegt, að hv. þm. hefði kynt sjer málið, svo að ræða hans hefði ekki orðið blaður, bygt á tómri vanþekkingu. (IHB: Blaður! Er blaður þinglegt orð? Vill ekki hæstv. forseti taka í strenginn!) Ræða hv. þm. var ekkert annað en blaður vanþekkingarinnar.