31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2139)

148. mál, milliþinganefnd í tolla- og skattalöggjöf

Jón Þorláksson:

Það hefir verið brotið upp á því áður hjer á Alþingi, að setja milliþinganefnd til þess að athuga tolla- og skattamál landsins, og lýsti jeg þá afstöðu minni til þess, á þann veg, að jeg teldi það ótímabært að setja slíka nefnd, meðan gengi og gildi íslenskra peninga væri ekki komið í fast horf. Jeg tel því nefndarskipun þessa ótímabæra enn, þar sem gildi peninga okkar er enn á reiki.

Auk þess kemur það altaf í ljós á hverju þingi, og ekki síst nú, að gerðar eru smábreytingar á tolla- og skattalöggjöfinni, eftir því sem þurfa þykir, og jeg býst við, að því yrði haldið áfram, þó að milliþinganefnd yrði sett til þess að athuga mál þessi í heild.

Jeg fæ því ekki annað sjeð en að slík nefndarskipun sem þessi sje með öllu tilgangslaus, og mun jeg því greiða atkvæði á móti till. þessari.