16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (2157)

147. mál, berklavarnalög

Hannes Jónsson*):

Eins og till. er orðuð og eins og henni var fylgt úr hlaði, þá er hjer ekki um annað að ræða en tilfærslu kostnaðar. Það á að færa kostaðinn frá ríkissjóði og til einstaklinganna. Þetta getur verið varhugavert. Við því má búast, að menn leiti síður læknis, ef þeir þurfa sjálfir að borga læknishjálpina. En það væri mikið böl, ef sjúklingar með smitunarhættu leituðu sjer ekki bótar meina sinna.

Eftir gildandi lögum er mjög erfitt um það að segja, hvort einstaklingurinn telst fær um að greiða kostnaðinn, eða ekki. Eins og lögin voru framkvæmd á síðasta ári, hefir verið dregið úr kostnaði ríkissjóðs og mönnum gert erfiðara fyrir með að fá styrk. En í sambandi við þetta dettur mjer í hug, að hægt væri að draga úr kostnaðinum, bæði hjá ríkinu og einstaklingum, því það er vitanlegt, að lækniskostnaðurinn sjálfur er mjög mikill. Þeir, sem til þekkja, telja, að læknar flestir hafi eins miklar tekjur af berklasjúklingum og föstum launum þeirra nemur.

Þetta er sjáanlega alrangt fyrirkomulag, eða læknarnir sjálfir skáka í skálkaskjóli laganna og fara öðruvísi að en til er ætlast. Þessu hygg jeg að stjórnarvöldin gætu kipt töluvert í lag. Ef tillagan á að skoðast sem árás á þetta, er hún góð að því leyti. En berklavörnunum er áreiðanlega ekkert gott gert með því að taka berklakostnaðinn af hinu opinbera og leggja hann á einstaklingana.

Það er margt, sem hugsa þarf um í sambandi við berklavarnirnar. En höfuðatriðið er það, að koma húsakynnum landsmanna í gott horf, svo að sýkingin verði ekki eins almenn. Hin eina rjetta leið er sú, að byggja upp sveitir landsins. Það er áreiðanlegt, að flestir berklasjúklingarnir eru úr þeim sveitum, þar sem verst eru húsakynni. Ef þessar sveitir væru bygðar vel upp, fullyrði jeg, að veikin rjenar mikið. Það má ekki lengur viðgangast, að mikill hluti þjóðarinnar hýrist í kofum, sem ekki eru nokkru kvikindi boðlegir, síst menskum mönnum.

Í þessu máli sem öðrum á að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Náttúrlega getur verið ágreiningur um þær leiðir, er fara ber til þess. Mjer virðist, að fyrst í stað verði að styrkja sjúklingana og kosta læknishjálp þeirra, svo sem gert hefir verið. En höfuðatriðið, sem við verðum að beina öllum kröftum að í framtíðinni, er að bæta húsakynnin.

(* Ræðuhndr. óyfirlesið.)