16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2159)

147. mál, berklavarnalög

2159Haraldur Guðmundsson:

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áður, að jeg sje enga ástæðu til að samþykkja þessa tillögu, eftir þær breytingar, er gerðar voru á berklavarnalögunum í fyrra. Í lögunum í fyrra, nr. 42, 31. maí, segir svo í 1. gr, með leyfi hæstv. forseta:

„14. gr. skal orða svo: Berklaveikur sjúklingur getur fengið ókeypis vist eða styrk til vistar í heilsuhælum, sjúkrahúsum eða sumarhælum barna, ef hann eða sá, sem framfærsluskyldan hvílir á, er svo efnum búinn, að ætla má, að hann mundi líða mikið tjón á efnahag sínum eða jafnvel verða öreigi, ætti hann að standa straum af kostnaði þeim, er af slíkri vist leiðir. Til þessa kostnaðar telst einnig lyf og læknishjálp. . . .“.

Það er ekki talað um, að sjúklingurinn bíði tjón á efriahag sínum, eins og hv. flm. (JörB) sagði, heldur talað um, að hann bíði mikið tjón eða jafnvel verði öreigi. Þetta á að sanna með því, að „hreppsnefnd eða sveitarstjórn dvalarsveitar sjúklingsins sendi stjórnarráðinu skýrslu um efnahag hans. Skal hjeraðslæknir staðfesta skýrslu þessa eftir bestu vitund og jafnfram~ votta, að vist utan heimilis sje nauðsynleg“. Vegna styrks til efnaðra manna sje jeg því enga ástæðu til að skora á stjórnina að framkvæma endurskoðun á berklavarnalögunum. Hún hefir fult vald til að taka í taumana samkv. núgildandi lögum og fyrirbyggja, að óverðugir njóti styrks. Það er ómögulegt að draga úr kostnaðinum án þess að varnirnar minki, nema á þeim lið, sem hv. þm. V.-Húnv. (HJ) nefndi. En til þess þarf enga lagabreytingu. Stjórnarráðið getur ákveðið hámark daggjalds sjúklinga, ef ástæða

þykir til, og getur sett reglur um sundurliðun þeirra reikninga, er ríkissjóður greiðir. Að öllum gögnum fengnum á stjórnarráðið að úrskurða, hvort sjúklingurinn sje styrkhæfur og að hve miklu leyti. Stjórnarráðið getur þannig haft bæði tögl og hagldir, ef það notar sjer heimild gildandi laga. Það er máske rjett, að það hafi ekki verið gert, en með röggsemi mætti áreiðanlega bæta úr því, án þess að breyta lögunum í nokkru. En það teldi jeg illa farið, ef svo yrði dregið úr berklavörnunum, að þær yrðu lakari en nú eru þær, enda þótt óverulegur sparnaður á ríkisfje fengist.