11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2247)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Flm. (Jón Þorláksson):

Jeg vil leyfa mjer að rifja upp í fáum orðum tildrög þessa máls, sem hjer er til umr.

Á Alþingi 1927 voru samþ. tvenn lög um varðskip ríkisins, hvorttveggja stjfrv. Þau öðluðust konungsfestingu 31. maí 1927.

Fyrri lögin, nr. 41, um varðskip ríkisins og sýslunarmenn á þeim, kveða á um stöðu þeirra manna í þjóðfjelaginu, er hafa á hendi stjórn á löggæsluskipum ríkisins, svo og skipshafnar á þeim skipum. Meðal annars eru þar ákvæði um það, að allir starfsmenn á þessum skipum skuli vera sýslunarmenn ríkisins, skipaðir af ráðuneytinu eða af skipherra í umboði þess. Að öðru leyti gilda um þá svipuð ákvæði þeim, sem gilda um aðra fasta starfsmenn ríkisins.

Lög þessi gengu í gildi sama dag og þau öðluðust staðfestingu konungs, eða, sem áður er sagt, 31. maí 1927.

Hin lögin, nr. 51, um laun skipherra og skipverja á varðskipum ríkisins, tiltaka launakjör þeirra skipverja, er ráðuneytið skyldi skipa samkvæmt fyrnefndum lögum. Auk þess eru þar ákvæði um það, hvernig ákveða skyldi laun annara manna á skipunum, sem ekki eru fastir sýslunarmenn.

Þessi lög, sem einnig öðluðust, sem fyr segir, konungsstaðfestingu 31. maí, gengu í gildi 1. júlí sama ár samkvæmt ákvæði í lögunum sjálfum.

Af því að launalögin gengu ekki í gildi fyr en 1. júlí, var ekki unt að framkvæma skipunina samkvæmt hinum lögunum fyr en þannig, að hún gilti frá þeim tíma. Þegar eftir 1. júlí var gefin út fyrirskipun frá fjármálaráðuneytinu, að greiða skyldi skipverjum á varðskipunum laun eftir launalögunum, frá þeim tíma, er þau gengu í gildi, og halda eftir af launum þeirra iðgjaldi í lífeyrissjóð embættismanna, svo sem tiltekið er í lögunum.

En skipin voru að starfi við eftirlit með landhelginni og komu lítt til Reykjavíkur. Varð því aðdragandi nokkur að því að fá að vita um nöfn og starfsaldur þeirra skipverja, er áttu að fá veitingu fyrir stöðum sínum. Þó var því lokið fyrir stjórnarskiftin og búið að ganga frá skipunarbrjefunum í stjórnarráðinu að öllu leyti öðru en því, að eftir var að undirskrifa það eintak, sem átti að afgreiða til skipverjanna sjálfra. Ennfremur höfðu verið gerðar ráðstafanir til þess að birta þessar skipanir á venjulegan hátt í Lögbirtingablaðinu.

En þetta snerist í annað horf en til var stefnt.

Það var upplýst á þinginu, að sá dómsmálaráðherra, sem við tók, þegar hjer er komið sögunni, og átti að undirskrifa skipunarbrjefin, vildi ekki gera það. Hann ljet afturkalla auglýsingu þá, sem birtast átti í Lögbirtingablaðinu, og það er upplýst, að til þess að sú afturköllun færi fram hafi hann látið brenna eitt númer af blaðinu fullprentað, þar sem tilkynningin um skipunina hafði verið sett. Síðan var afturkölluð áðurnefnd fyrirskipun frá fjármálaráðuneytinu um að greiða skipverjum laun samkv. ákvæðum launalaga fyrir varðskip ríkisins.

En í öðrum atriðum hafa þessi lög einnig verið brotin síðan um stjórnarskiftin. Þar á meðal ákvæði laga nr. 41, um að ekki skuli lögskrá skipverja á varðskipum ríkisins. Þar sem lögin kveða á um stöðu skipverja og gera þá að föstum sýslunarmönnum ríkisins, var svo til tekið, að ekki skyldi lögskrá þá. En hæstv. dómsmrh. (JJ) hefir ekki kært sig um að framfylgja þessu ákvæði, heldur látið lögskrá þá áfram, og lögskráðir eru þeir enn í dag og því undir ákvæðum siglingalaganna, en ekki laga nr. 41, 31. maí 1927, sem veita þeim rjett til lífeyris fyrir sig og ekkjur sínar samkv. lögum frá 1921 um lífeyrissjóð embættismanna.

Svo sem til árjettingar því, að núverandi stjórn vildi ekki hlíta ákvæðum gildandi laga um laun skipherra á varðskipunum, ritaði hæstv. dómsmrh. (JJ) 8. des. f. á. skipstjórunum á varðskipunum „Óðni“ og „Þór“ samhljóða brjef, sem jeg hefi endurrit af og skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp. Þar segir svo:

„Eftir stjórnarskiftin síðustu var yður, herra skipstjóri, tilkynt munnlega, að laun þau, sem þjer hingað til hafið haft sem skipstjóri á varðsskipinu, væni að áliti stjórnarinnar í ósamræmi við laun starfsmanna ríkisins yfirleitt. Jafnframt var tekið fram, að launin myndu þó haldast óbreytt til áramóta, en þá verða færð til samræmis við laun virðulegustu starfsmanna í þjónustu landsins.

Í áframhaldi af þessu samtali er yður hjer með tilkynt, að frá byrjun janúar næstkomandi verða laun yðar ákveðin jöfn launum skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og aldursuppbót reiknuð frá þeim tíma, er þjer hófuð skipstjórn í þjónustu Björgunarfjel. Vestmannaeyja.

Núverandi landsstjórn lítur svo á, að starfi skipstjóranna á varðskipunum fylgi engin risna, og að það sje beinlínis skaðlegt fyrir starf skipstjóranna sem löggæslumanna landsins, að þeir bindi með risnu kunningsskaparbönd, sem fremur geta veikt en styrkt aðstöðu þeirra við starf sitt í þjónustu landsins.

Jónas Jónsson

/Sigfús M. Johnsen“.

Jeg skal að svo stöddu víkja aðeins að þeim kafla brjefsins, er fjallar um launin. Með brjefinu ákveður hæstv. ráðh. (JJ) af fullveldi sínu; að laun skipherra á varðskipum ríkisins skuli frá áramótum vera söm og laun skrifstofustjóranna í stjórnarráðinu. En á sama tíma eru í lögum skýr og skýlaus ákvæði um það, að launin skuli vera önnur. Þetta er svo bert lagabrot sem frekast getur orðið.

Það er kunnugt, að eftir að hæstv. dómsmrh. hefir þannig sumpart beinlínis brotið lögin sjálfur og sumpart gert starfsbróður sínum, hæstv. fjmrh. (MK), ómögulegt að framfylgja þeim, þá hefir hæstv. stjórn lagt fyrir þetta þing frv. til laga um nýja skipun á þessu, sem m. a. fer fram á að nema úr gildi þau tvenn lög, sem brotin hafa verið og hafa gilt til þessa.

Nú hefði mátt ætla, að Alþingi væri svo á verði um vald sitt, að það hefði vísað þessari tilraun til einræðis á bug með því áð fella frv. og krefjast þess, að gildandi, löggjöf væri framfylgt og hlýtt. En það hefir komið á daginn, að Alþingi vildi ekki kjósa þá leið. Og er það var orðið bert, leyfðum við okkur, flutningsmenn, að bera fram þessa till. á þskj. 544, sem nú er til umr. Hún fer fram á það eitt, að Alþingi álykti að víta brot dómsmrh. á þeirri löggjöf, er þingið í fyrra setti um varðskip ríkisins.

Ástæðan til þess, að við berum fram þessa till., er ekki sú, að við viljum með henni óska eftir stjórnarskiftum eða að hæstv. dómsmrh. (JJ) víki úr sæti; flokkum er, sem kunnugt er, ekki svo háttað hjer í þinginu, að það sje tímabært enn þá. En ástæðan er sú, að við teljum óhjákvæmilegt, að Alþingi láti að gefnu tilefni þá skoðun sína í ljós á einhvern þinglegan hátt, að það vilji ekki una því, að vald þingsins sje virt að vettugi og ráðherra brjóti og vanræki að uppfylla lög, sem samþykt hafa verið á Alþingi og öðlast staðfestingu konungs og komin eru í gildi. Við álítum vald Alþingis í hættu, ef það sjálft heldur ekki vörð um það. Viljum við með till. gefa Alþingi tækifæri til þess að láta í ljós, að það vilji halda vörð um vald sitt og leggja áherslu á það, að annað eins og þetta, sem í till. er átalið, endurtaki sig ekki. Ef Alþingi lætur það óátalið, má búast við framhaldi í sömu átt.

Nútíminn hefir sjeð í ýmsum löndum talsverða tilhneiging til einræðis. Og einræðið er svo langt komið í framkvæmd í sumum löndum Norðurálfu, að völd löggjafarþinganna eru úr sögunni. Þessi stefna fær byr af þeirri skoðun, sem er orðin talsvert almenn, að þingunum takist ekki eins vel og ákjósanlegt væri að halda virðingu sinni og framkvæma ætlunarverk sitt. En jeg hygg, að hjer á landi sjeu flestir sammála um það, að þó að setja megi sitthvað út á þingið, þá sje enn ekki fundin nein sú tilhögun, sem gæti komið í staðinn fyrir þingræðið. En þó er ekki við því að búast, að sú skipun haldist, nema Alþingi gæti rjettar síns og haldi vörð um vald sitt og virðingu. En það er síst til þess að auka virðingu alþjóðar fyrir Alþingi, að láta það liðast, að ráðherra taki vald þess í sínar hendur.

Jeg ætla ekki að svo stöddu að tala um fleiri hliðar á þessu máli en þetta aðalatriði.

Jeg óska þess, að samkomulag verði meðal alþingismanna um að gera það, sem þinginu er skylt að gera, til þess að halda vörð um skiftingu valdsins, sem ákveðin er í núverandi stjórnarskrá og um stjórnskipulag landsins.