11.04.1928
Sameinað þing: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2252)

145. mál, brot dómsmálaráðherra á varðskipalögum

Flm. (Jón Þorláksson):

Hæstv. dómsmrh. (JJ) hefir fyr verið kendur við stóriðju en nú, og get jeg ekki annað en hugsað til iðju nokkurrar, er jeg rifja upp fyrir mjer hina löngu ræðu hans. Það er sú iðja, sem kölluð var hjer á þingi fyrir mörgum árum ullariðja. Var hún í því fólgin að nota mörg orð, en komast lítið að því efni, er lá fyrir. Í þessari iðju hefir nú hæstv. dómsmrh. tekið öðrum fram. Það hefir nú verið svarað flestum þeim atriðum úr ræðu hans, sem þetta mál snerta nokkuð að ráði, svo jeg þarf í raun og veru ekki að vera margorður. Sá eini af flokksbræðrum hæstv. dómsmrh., sem tekið hefir til máls, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem er flm. þeirrar dagskrár, sem hjer er fram komin, varð til þess að víta framkomu hæstv. dómsmrh. við þessa umr., og þótti mjer það mjög tilhlýðilegt, að hv. flm. skyldi. einmitt verða til þess að benda á þetta. En af því jeg veit, að hv. þm. eru vanir nætursetum, og kl. er ekki orðin nema 11, þá ætla jeg að víkja fyrst að nokkrum þeim atriðum í ræðu hæstv. dómsmrh., er ekki komu við það efni, er fyrir lá, áður en jeg fer í þann farveg frumræðu minnar, er snerti þessa till., sem hjer er til umr.

Hæstv. dómsmrh. byrjaði á því að segja sögu, og hefði mátt búast við því af honum, þar sem hann hefir samið kenslubækur í sögu, að honum tækist frásögnin vel. En sá ljóður varð á frásögninni, eins og stundum hefir komið fyrir áður, að hann vandaði sig ekki nógu vel í því að feta braut sannleikans. Hann byrjaði á því að tala um þá andúð, sem komið hefði í ljós hjá þeim flokki, er jeg stóð næst þá, gegn Björgunarfjelagi Vestmannaeyja. Það var nú svo þá, að jeg kom lítið við opinber mál, en samt vissi jeg um það, að Vestmannaeyingar leituðu út fyrir sitt hjerað eftir styrk til þessa fjelags. Jeg sá einu sinni af tilviljun gjafalista til fjelagsins hjer í Reykjavík, og jeg get fullvissað hæstv. dómsmrh. um það, að á honum var lítið um nöfn annara en þeirra, er tilheyrðu þeim flokki, er jeg nánast tilheyrði þá. Og heldur yrði jeg að álíta það athugaverða sagnaritun hjá hæstv. dómsmrh., ef það stæði í næstu Íslandssögu hans, að sjerstök andúð hefði komið úr hópi þessara manna gegn þessu máli þeirra Vestmannaeyinga. Þá sagði hann næst, að sjerstök mótstaða hefði verið gegn því að taka „Þór“ til landhelgisgæslunnar. Jeg veit ekki til þess, að nokkur önnur mótstaða hafi þar átt sjer stað en eðli leg tilhneiging til þess að standa á móti auknum fjárframlögum, af hálfu þeirra manna, er halda vilja spart á fje ríkissjóðs. Annars hefði það í sjálfu sjer ekki verið ótrúlegt, þó þm. hefðu haft litla trú á skipi, sem var alveg óreynt. Eftir því sem hæstv. dómsmrh. komst síðar að orði mátti skilja á honum, að hann teldi „Þór“ ófæran til þess að gegna strandvörnum. Hann hefir þó verið endurbættur mikið, og var það gert í tíð Íhaldsstjórnarinnar T. d. fekk hann þá vopn, en það hafði hann ekki haft áður. Jeg held, að hæstv. dómsmrh. takist ekki að auka lítillæti hjá mjer eða flokksmönnum mínum með því að draga sögu Björgunarfjel. Vestmannaeyinga hjer inn í umræðurnar. Við Íhaldsmenn getum verið upp með okkur af afskiftum okkar af því máli.

Leiðinlegt þótti mjer að heyra það, er hæstv. dómsmrh. ljet í ljós óánægju sína yfir því, að ríkið, um leið og það keypti „Þór“, skyldi gangast undir það að líta eftir og vernda veiðarfæri Vestmannaeyinga á vertíðinni þar. Hefi jeg aldrei heyrt áður, að slíkt væri óþörf starfsemi, og þykist jeg vita, að öllum hv. þm. sje kunnugt um það, hversu mikils virði sú gæsla er, auk þeirrar björgunarstarfsemi, er „Þór“ hefir þar líka. Vona jeg, að eins og þetta er í fyrsta skifti, sem slíkt er talið eftir hjer, þá verði það og í það síðasta.

Þá fór hæstv. dómsmrh. loks að gera tilraun til þess að færa ástæður fyrir lögbroti sínu. Nefndi hann aðallega 2 ástæður, er hann hefir áður getið um í blaði sínu. Sagði hann, að það væru aðallega 2 atriði í lögunum, sem hann væri óánægður með. Annað er það, að starfsmenn á varðskipunum sjeu ráðnir á sama hátt og aðrir starfsmenn ríkisins, því þá geti þeir haldið þessum stöðum sínum svo lengi sem þá lystir. Með þessa skoðun, að þessi tilhögun sje óheppileg, mun hann standa einn uppi, þó hann njóti nú liðsinnis flokksmanna sinna til þess að komast hjá þeim skellum, er hann verðskuldar sökum glappaskota sinna. Hitt atriðið var það, að laun yfirmannanna væru óhæfilega há. Þetta er ekki rjett. Skv. lögunum frá í fyrra eru launin ekkert of há. Hitt er sanni nær, að laun stýrimannanna sjeu of lág í samanburði við laun annara yfirmanna á skipunum. En það mun stafa af því, að nokkrar breytingar voru gerðar á frv. eins og það lá fyrir á þinginu í fyrra, og orsökuðu þær þetta ósamræmi. Og eina breytingin, sem rjettmætt var að gera á lögunum frá í fyrra, var sú, að hækka laun yfirstýrimannanna. Það er því alls ekki hægt að telja laun skipstjóranna óhæfilega há eins og þau eru ákveðin í lögunum frá í fyrra. Annað er það, hvernig litið er á þær kröfur, að þeir haldi þeim launum, er þeir höfðu hjá Björgunarfjelagi Vestmannaeyja. Þetta var þá önnur ástæða hæstv. dómsmrh. til þess að fremja þetta lögbrot. En jeg verð nú að segja það, að jeg get ekki álitið, að 1000 kr. á mánuði sjeu of mikil borgun fyrir svo ábyrgðarmikið starf, þó hægt væri ef til vill að fá menn til að gegna þessum starfa fyrir minni laun.

Seinna tók hæstv. dómsmrh. að kvarta yfir ýmsu, er ekki kom þessu máli við. Mintist hann þar á söguburð um starfsmannafjölgun í stjórnarráðinu og sagði það mjög ýktar sögur, er um það gengju. Jeg veit ekkert um starfsmannafjölgun í stjórnarráðinu og hefi ekkert um það heyrt, en hitt veit jeg, að þennan stutta tíma, sem hæstv. dómsmrh. hefir setið að völdum, hefir hann bætt við 15 nýjum starfsmönnum. Þar af eru 3 í stjórnarráðinu, en 12 eru hin nýja ríkislögregla, sem hann kallar tollverði. Ef hjer er ekki rjett með farið, má hann sjálfum sjer um kenna, því svo ör sem hann hefir verið á það að gefa út opinberar tilkynningar um það, sem gerðist í stjórnarráðinu, hefir hann þó gleymt að tilkynna þetta. Þessir tollþjónar hafa sumir verið sendir út á land, en aðrir fengnir lögreglustjóranum hjer í Reykjavík til aðstoðar.

Þá taldi hæstv. ráðh. nokkuð sjer til afsökunar, er hann kallaði fordæmi í þessu máli. Það er þetta, sem gengur eins og rauður þráður bæði í gegnum þessar umr. hjá hæstv. dómsmrh. og í gegnum dagskrá þá, er flokksmenn hans hafa brugðið upp fyrir hann eins og hlífiskildi. Þeir segja, að hjer sje ekki um lögbrot að ræða, heldur aðeins frestun, og mun jeg koma að því síðar.

En um þessi fordæmi vildi jeg segja fá orð, því flest, sem hæstv. dómsmrh. sagði um þau, var algerlega rangt.

Hann byrjaði með því að segja, að Hannes Hafstein hefði brotið lög með því, að hann útvegaði ekki konungsstaðfestingu á lögum, sem Alþingi hafði samþ. sagði hann, að þetta væri einsdæmi. En þetta síðasta lýsir best fáfræði hæstv. ráðh., því flestir vita, að þetta var mjög algengt 30 fyrstu löggjafarár vor, og var alls ekki litið á það sem lögbrot. Enda gerir stjskr. beinlínis ráð fyrir, að þetta geti komið fyrir, því í 22. gr. hennar stendur svo:

„Nú hefir konungur eigi staðfest lagafrumvarp, sem Alþingi hefir samþykt, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman, og er þá frumvarpið niður fallið“.

Á þessu sjest, að stjskr. gerir beint ráð fyrir, að þetta geti komið fyrir, svo það er fjarstæða að tala um þetta sem lögbrot.

Þá mintist og hæstv. ráðh. á ríkisveðbankann, og komst hann þar næst því að finna fordæmi, því þau lög komust aldrei til framkvæmda. En það, að lögin um ríkisveðbankann komu ekki til framkvæmda, stafaði af því, að það var ekki á valdi stjórnarinnar að framkvæma þau. Til þess að það væri hægt þurfti að útvega stærri fjárupphæð en hægt var. Sú ástæða var því stjórninni næg til þess að framkvæma þau ekki. Getuleysið orsakaði þar framkvæmdaleysið, og er engan hægt að átelja fyrir það. Hvað búnaðarlánadeildina frá 1924 snertir, er það að segja, að þar fór hæstv. ráðh. með rangt mál, er hann sagði, að jeg hefði neitað að stofna hana. Það gerði jeg aldrei. En sú missögn var tekin upp í blað núverandi stjórnar, að jeg hefði gert það. Þessu til leiðrjettingar var gefin út opinber tilkynning frá fjármálaráðuneytinu þá þegar, og kom hún í allflestum blöðum, nema í blöðum hæstv. ráðh. Og grunar mig, að margir, sem ekki lesa önnur blöð, standi enn þá í þeirri meiningu, að jeg hafi virkilega neitað að koma henni á fót. En síðar komu þó þessi lög til framkvæmda, eins og upplýst er og hæstv. ráðh. gat um.

Þá gat hæstv. dómsmrh. þess, að fyrv. dómsmrh. (MG) hefði brotið lög með því að veita nokkrum skipstjórum undanþágu frá ákvæðunum um það, hversu stóru skipi þeir mættu stýra, og að hann hefði gefið þeim leyfi til þess að stýra stærra skipi en lögin heimiluðu. Hv. 1. þm. Skagf. hefir nú bent á, að samskonar leyfi mætti finna í stjórnarráðinu frá tíð fyrri stjórna. Enda hefir verið litið svo á, sem þetta sje heimilað í 25. gr. stjskr., sem gerir ráð fyrir þessu. Hún hljóðar svo:

„Konungur veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það stjórnarvöldum í hendur, leyfi og undanþágur frá lögum, samkvæmt reglum, sem farið hefir verið eftir hingað til“.

Jeg held því, að þó 1. þm. Skagf. (MG) hafi veitt slíkt leyfi skv. venjum, sem farið hefir verið eftir fram að hans stjórnartíð, þá sje ekki hægt að átelja hann fyrir lögbrot, heldur hafi það verið bein afleiðing af því valdi, sem 25. gr. stjskr. fær konungi í hendur eða þeim, sem hann felur það.

Því held jeg, að jeg hafi lokið við þau fordæmi, sem hæstv. dómsmrh. var að reyna að nefna sjer til afsökunar, og sýnt fram á, að þau eru lítill sáraplástur fyrir hann.

Kem jeg þá að Ítalíuferð minni, er hann endaði ræðu sína á. Get jeg verið fáorður um það, en vil þó minna hann á það, sem hann virðist fáfróður um, en flestum öðrum er vel kunnugt, að á Ítalíu er fleira merkilegt en Mussolini einn og því hægt að gera sjer margt annað til erindis þangað en að skoða hann. En annars var jeg ekki einn um það ferðalag, því hæstv. forseti Sþ. (MT) var þar einnig á ferð um sama leyti og í sömu erindagerðum.

Loks bar hæstv. ráðh. fram þá átyllu sjer til málsbóta, og auk hans hjelt 1. þm. S.-M. (SvÓ) því sama fram, að fyrv. dómsmrh. (MG) hefði frestað framkvæmd laganna. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir nú gert grein fyrir þessu og fært sönnur á, að þessi staðhæfing er röng, því lögin voru að fullu komin til framkvæmda. Því þó mennirnir hefðu að vísu ekki fengið veitingarbrjefið, þá voru þeir settir orðnir, og var þegar byrjað að greiða þeim laun skv. þeim lögum. Og þó nokkur misbrestur kunni að hafa orðið á greiðslunni til þeirra, þá stafaði það af því, að skipin voru fyrir norðan, en skipverjar höfðu ekki sett hjer umboðsmenn fyrir sig til þess að taka á móti laununum. Frá 1. júlí voru launin ekki borguð út nema eftir launalögunum, sem þá gengu í gildi. Það er fyrst, þegar núverandi hæstv. dómsmrh (JJ) kemur til skjalanna, að gerð er breyting á þessu, og var þá tekin sú ákvörðun, að fara eftir því, sem fyrv. stjórn hafði látið gilda fyrri hluta ársins. Það stóð svo á fyrri hluta ársins, að þá var bara annað skipið í eigu ríkissjóðs og þar af leiðandi bara önnur skipshöfnin á launum hjá ríkinu. Henni var greitt eftir tilteknum reglum, sem samkomulag hafði orðið um árinu áður, þegar útgerð þess skips hófst. Um hitt skipið var engu slíku til að dreifa. Enda hefir hæstv. ráðh. ekki þá átyllu um það skip, að fyrv. stjórn hafi haft nokkrar reglur að fara eftir, áður en lögin gengu í gildi. Það er því ekki annað en seinni tíma uppfynding, að fyrv. stjórn hafi frestað framkvæmd laganna. Að því leyti, sem þetta stendur í dagskrártillögu hv. 1. þm. N.-M. (SvÓ), fer hún með ósannindi.

Jeg skal nú víkja að sjálfu málinu, sem sje þeim lagabrotum, sem farið er fram á að víta. Hæstv. dómsmrh. hefir reynt að bæta sinn málstað með því að halda því fram, að hjer sje ekki um lagabrot að ræða, heldur aðeins frestun á framkvæmd laga. Þetta er því miður ekki rjett. Hjer er um miklu alvarlegra mál að ræða en það, að framkvæmd laga hafi verið skotið á frest. Það, sem sker úr því, er tvent. Í fyrsta lagi skráning skipverjanna og í öðru lagi neitunin á því að fara eftir ákvæðum gildandi launalaga. Þegar stjórnarskiftin urðu, voru engir skipverjar lögskráðir og áttu ekki að vera það eftir lögum, en hæstv. ráðh. hefir látið fara fram lögskráningu og þar með gefið mönnunum aðra rjettarstöðu en þeir eiga að hafa. Það er beint og skýlaust lagabrot. Um það verður ekki deilt. Hæstv. ráðh. hefir framkvæmt athöfn, sem lögin mæla fyrir að ekki skuli framkvæmd. Og hæstv. ráðh. hefir ekki gert það af vangá, heldur vitandi vits, beinlínis til þess að troða lögin undir fótum. Um hitt atriðið er sama máli að gegna. Það er ekki hægt að halda því fram með nokkrum rjetti, að sú málsgr. í brjefi hæstv. ráðh. 8. des., sem um það fjallar, geti skoðast sem frestun á framkvæmd laganna. Þar er ákveðið, að laun skipstjóra skuli vera önnur en þau, sem lögin herma. Hæstv. ráðh. hefði með nokkrum rjetti getað talað um frestun, á meðan hann ljet sitja við það sem var, en það er skýlaust lagabrot að ákveða, að þetta skuli vera öðruvísi en í lögunum stendur.

Jeg skil það vel, að þegar þingflokkur hæstv. ráðh., sjáandi brot hans hrein fyrir augum sjer, fer þó inn á þá braut, að láta eins og hjer sje aðeins um frestun að ræða, er það í góðum tilgangi gert. Þingflokkur hæstv. ráðh. vill ekki taka á sig ábyrgðina á lögbroti hans. Hann vill hliðra sjer hjá að greiða atkvæði um þáltill. okkar og bregða með því skildi fyrir hæstv. ráðh. En flokksmenn hæstv. ráðh. sýna, með því að víkja aðalatriði þessa máls frá sjer, að þeir vilja ekki með atkvgr. sinni gefa til kynna, að það eigi að haldast uppi, að ráðh. geti brotið lögin, ef honum persónulega mislíkar eitthvað í þeim. Jeg er hræddur um, að þessi hlífð sje ekki rjettmæt, af því að jeg óttast, að hún styrki hæstv. ráðh. í þeirri skoðun, sem alveg ótvírætt kom fram í ræðu hans, um það, hvenær hann eigi að halda lögin og hvenær ekki. Hann sagði á þá leið, að eina tryggingin, sem Íhaldsmenn hefðu getað fengið fyrir því, að lögin yrðu framkvæmd, væri sú, að þeir væru búnir að fullkomna framkvæmdina sjálfir. Þetta setur hæstv. ráðh. fram sem almenna reglu og slær með því föstu, að rjett sje og eðlilegt, að hver einstök stjórn komi fram því, sem hún vill að gildi. Slíka skoðun er nauðsynlegt að uppræta. Jeg hugsa, að flokksmenn hæstv. ráðh. sjeu mjer sammála um, að þessi skoðun hæstv. ráðh. megi ekki þrífast. Jeg held, að ekki sje rjett að fara þá leið, sem velvild þeirra og flokksfylgi við ráðherra sinn vísar þeim á, að vísa á bug atkvgr. um sjálft lögbrotið og láta eins og engin lög hafi verið brotin.

Jeg þarf ekki að endurtaka það, sem hv. þm. Vestm. (JJós) tók svo skörulega fram, að hjer veltur á því, hvort sú skoðun á að fá að festa rætur, að ráðherra megi setja lög landsins og vilja þingsins til hliðar, ef honum sýnist. Jeg álít, að vegna valds og virðingar Alþingis verði að gera þá kröfu til allra ráðherra, að þeir gæti þess fyrst og fremst að brjóta ekki landslög. Í þeim tilgangi er tillaga okkar borin fram.