16.04.1928
Sameinað þing: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (2356)

109. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þessi till. á þskj. 204 er býsna smávaxin, ef litið er á orðafjölda og fyrirferð, en mikið er undir því komið, hversu Alþingi afgreiðir hana.

Mál þetta er eitt þeirra stærstu, sem nú liggja fyrir Alþingi, og harma jeg, að ekki hefir fyr unnist tími til að taka það á dagskrá.

Með augl. 11. ág. 1922 var það tilkynt, að frá 10. febr. 1923 tæki ríkisstjórnin að sjer einkasölu á steinolíu, sem til landsins flyttist. 28. des. 1922 var ákveðið með reglugerð nánara fyrirkomulag og rekstur á einkasölunni, og 10. febr. árið eftir var hún síðan upp tekin, eins og til stóð. Fá mál hafa fengið eins langan og að ýmsu leyti ítarlegan undirbúning og einmitt þetta mál, því að þá voru liðin full 10 ár frá því, að fyrst var samþykt heimild fyrir utanríkisstjórnina til að taka einkasölu á steinolíu í sínar hendur.

Á Alþingi 1912 flutti Hannes Hafstein frv. til l. um steinolíuverslun. Var þar gert ráð fyrir því, að stjórnin semdi við eitthvert sjerstakt fjelag um að taka að sjer steinolíuverslunina. Alþingi leist ekki á að fara þessa leið, en þrír þingmenn, sem nú eru allir látnir, báru fram annað frv., sem náði samþykki. Þetta frv. heimilaði stjórninni að taka í sínar hendur einkasölu á steinolíu. Einn hv. þm., sem sæti átti þá á þingi, kom með þriðju uppástungu um fyrirkomulag þessa máls, þar sem hann stakk upp á því, að í stað ríkisstjórnarinnar tæki Landsbankinn að sjer einkasöluna. Það var núverandi hv. 1. þm. G.-K. (BK). Það er bersýnilegt, að þó að mönnum þá kæmi ekki saman um, hverja úrlausn skyldi gera á þessu máli, þá hefir það verið nokkuð eindregin skoðun Alþingis, að nauðsyn væri á að koma steinolíuversluninni í annað og betra horf en hún þá var í. Sjest það einna glegst á orðum þeim, sem Jón Ólafsson ritstjóri ljet fylgja frv. þeirra þremenninganna. Steinolíuverslunin var þá rekin af danska anganum af Standard Oil. Um þetta fjelag fer þessi þm. orðum, sem forsetar nú orðið — síðan þeir fóru að gerast svo stjórnsamir og verða lausari hönd til bjöllunnar — mundu vart telja þinghæf. Ætla jeg ekki að leggja í þá hættu að verða víttur fyrir slíkan upplestur, svo að jeg sleppi þeim. En dálitla klausu verð jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp, um viðskifti þessa fjelags við landsmenn:

„Það hefir gert samninga við flestalla íslenska kaupmenn, þá, er skuldbinda kaupmennina til að kaupa ekki steinolíuna af neinum öðrum en fjelaginu. Fyrst mun það hafa byrjað á árlöngum samningi; svo fór það að gera samninga til fimm ára, og síðan mun það hafa farið að smálengja samningatímann, og er mælt, að síðustu samningarnir bindi kaupmenn við fjelagið í 40 ár“.

Jeg tek sjerstaklega þessa klausu upp af því, að sama sagan endurtekur sig altaf. Fjelagið liggur enn á því lúalagi að binda viðskiftamennina með samningum um mjög langan tíma.

Eins og jeg áðan sagði, voru heimildarlögin samþ. 1922. En stjórnin neytir ekki laganna, og fer svo fram til ársins 1917. Þá ber þáv. ráðh., Björn Kristjánsson, fram nýtt frv. um einka sölu á steinolíu. Það var í nokkru frábrugðið lögunum frá 1912, en aðalatriðin þau sömu, að stjórninni væri heimilað að taka í sínar hendur einkasölu á steinolíu. Nokkur atriði voru sett inn í, og ýms atriði, sem áður stóðu, fyllri gerð. Frv. þessu var vísað til allshn., og af núv. þingmönnum áttu þar sæti hv. 1. þm. Skagf. (MG) og hv. þm. Barð. (HK). Nál. þeirra er á þskj. 68, og þar komast þeir svo að orði, að sjáanlegt sje, að það sje mjög mikill einhugi manna, að nauðsynlegt sje að gera þessa ráðstöfun; þeir mæld því með því, að frv. verði samþ. með litlum breytingum. Í umræðunum um málið kemur margt fram, sem fróðlegt er að athuga í sambandi við seinni tíma. Í grg. stjórnarinnar fyrir frv. er komist svo að orði, að gera megi ráð fyrir, að ef stjórnin á annað borð tekur Steinolíuverslunina í sínar hendur, muni verslunin eigi bráðlega verða lögð niður aftur. Það er talið sjálfsagt, að Landsverslunin þurfi að hafa heimild til að byggja eða kaupa hús og fasteignir og láta gera ýms önnur mannvirki. „Alt hlýtur þetta að kosta mikið fje, og ekki gerlegt að ráðast í það, nema gert sje ráð fyrir, að einkasalan haldi áfram um langan tíma“, segir í greinargerðinni.

Þegar á þessu ári, 1917, virðist þingmönnum það ljóst, að hentugasta aðferðin og hagkvæmasta á allan hátt sje að byggja olíugeyma. Um það kemst þáverandi ráðh. svo að orði (með leyfi hæstv. forseta):

„Ennfremur geri jeg ráð fyrir því, að ekki verði komist hjá að setja upp olíugeyma hjer á landi, að minsta kosti einn, því að altaf þarf að vera til varaforði, t. d. einn skipsfarmur“.

Það er því bersýnilegt, a.ð mönnum hefir þá þegar verið ljóst, að miklu hagkvæmara væri, peningalega sjeð, að flytja olíuna inn í „tankaskipum“ og hafa hjer geyma, þó að annað hafi orðið uppi á teningnum, þegar verslunin loks var tekin upp.

Í umræðunum kemur það líka fram, að það er sjerstaklega tvent, sem vakir fyrir flytjendum málsins. Annað er það, að tryggja landsmönnum olíuna með rjettlátu verði, en hitt er að sjá um, að altaf sjeu nægar birgðir af olíu til í landinu. En á hvorutveggja hefir orðið geysilegur misbrestur á undanförnum árum. Danska steinolíufjelagið hafði öll þessi ár haft langmest af steinolíuversluninni í sínum höndum. Umstarfsemi þess fjelags segir núverandi hæstv. forseti Nd. (BSv) á þinginu 1917 m. a. þessi orð:

„Fjelagið setur mönnum afarkosti, skuldbindur menn með skriflegum skuldbindingum til þess að versla ekki annarsstaðar, án þess þó að setja nokkra tryggingu fyrir því að geta haft næga steinolíu, bregst meira að segja algerlega að birgja landið að olíu, þegar allra verst gegnir; fjelagið lætur sjer nægja að auglýsa, að það eigi von á skipum þá og þegar og varar menn við að kaupa olíu annarsstaðar, en oft hafa þessi skip alls ekki komið, og jafnvel sannast, að sumar slíkar auglýsingar voru blekkingar einar, til þess að aftra framkvæmdum annara um útvegun vörunnar“.

Þannig komst þessi hv. þm. að orði 1917 um það fjelag, sem þá um fimm ára skeið hafði verið svo að segja eitt um hituna, þrátt fyrir það, þótt stjórnin hefði allan þann tíma vald til að taka steinolíuverslunina sínar hendur.

Frv., sem stjórnin lagði fyrir þingið 1917, nær góðu samþykki, en stjórnin notar ekki heimildina. Þó sættu landsmenn stöðugt mjög svo þungum búsifjum af hendi steinolíufjelagsins. Árið 1920, þegar yfirfærsluörðugleikarnir eru sem mestir, gengur fjelagið svo langt, að það neitar að flytja inn olíu, nema því aðeins, að greitt sje úr yfirfærsluörðugleikunum. Einn af forráðamönnum fjelagsins átti þá tal við Pjetur Jónsson ráðherra, í stjórnarráðinu, og þegar líður á samtalið, segir hann: „Við flytjum inn olíuna, en við ráðum verðinu“. Það vildi vera einrátt með öllu um það, hvern hagnað það tæki á olíunni. Stjórnin vildi ekki sætta sig við þessi kjör, og varð það til þess, að Fiskifjelaginu var hjálpað til að útvega farm af steinolíu. Það sýndi sig, þegar Fiskifjelagið fekk sinn farm, að það voru engin vandræði fyrir steinolíufjelagið að ná í olíu, og verðið lækkaði að stórum mun. H. Í. S. setti óðara verðið niður, þegar farmur Fiskifjelagsins kom.

Jeg held, að þessi atburður hafi valdið því öðru fremur, að loks 1922 afrjeð stjórnin að taka að sjer einkasölu á steinolíu. Jeg hefi verið undrandi yfir því, að tvisvar sinnum á tíu árum skuli hafa verið samþ. heimild fyrir stjórnina til einkasölu, en öll þau ár hafa allar stjórnir látið undir höfuð leggjast að nota þessa heimild, og öll þessi ár hefir sama fjelagið rakað saman stórfje af ofgoldinni steinolíu, sem landsmenn hafa orðið að kaupa. Jeg er ekki svo talnafróður maður, að jeg treysti mjer til að áætla, hversu mikill gróði fjelagsins hefir orðið á okkur Íslendingum þessi 10 ár, en jeg tel engan vafa á, að hann skifti allmörgum miljónum króna.

Jeg get sagt það sem mína skoðun, að ástæðan til þess, að ríkisstjórnin notaði sjer ekki einkasöluheimildina fyr en seint og síðar meir, getur ekki hafa verið önnur en sú, að áhrif þessa útlenda auðfjelags voru svo rík í landinu, — þessa fjelags, sem rúði landsmenn eftir bestu getu, — að það hindraði, að einkasalan yrði tekin upp.

Landsverslunin, sem var sett upp 10. febr. 1923, gerði strax mikilsverða umbót á versluninni frá því, sem áður var; þá var hætt að flytja olíuna í trjetunnum, nema að litlu leyti, en farið að flytja í stáltunnum. Það var geysilegur sparnaður, því að trjetunnur voru oft hriplekar, og rýrnaði olían oft um 15–16% og stundum enn meira. Forstjóri Landsverslunar sá, að olíuversluninni yrði ekki komið í fullkomlega viðunanlegt horf með því að flytja olíuna til landsins og geyma í tunnum. Hann sá, að hinn besti búhnykkur væri sá að byggja olíugeyma, hæfilega stóra fyrir olíuverslun landsmanna. Hann fekk því ekki ráðið, að svo yrði gert, enda tók Íhaldsflokkurinn við völdum árið eftir að einkasalan var upp tekin, og nokkur hluti hans a. m. k. var andvígur öllum einkasölum ríkisins. Jeg tel, að það hafi verið hið mesta glapræði að láta undir höfuð leggjast að byggja olíugeyma. Og það er trúa mín, að ef það hefði verið gert, væri olíuverslunin hjer ekki komin í það horf, sem hún nú er í.

Þegar svo einkasalan er tveggja vetra gömul, gerast nokkrir þingmenn til þess á þinginu 1925 að bera fram þáltill. í Sþ. um að leggja hana niður, en skylda jafnframt ríkisstjórnina til að halda áfram olíuversluninni í frjálsri samkepni. — Jeg kem síðar að því, hversu mikið samræmi er í síðari hluta till. og þeim forsendum, sem fram voru bornar fyrir till. í heild. Eiginlega var bara ein aðalástæða færð fram til stuðnings þessari till., nefnilega að olían hjá Landsverslun væri dýrari en hún myndi verða í frjálsri samkepni. Þessu til sönnunar voru lesnar upp margar tölur og reikningar, sem allir sönnuðu sitt hvað. Aðalflm. till. reiknaði t. d. út, að Landsverslun seldi olíutunnuna um 15 kr. dýrara en ástæða væri til og hægt væri að fá hana fyrir í frjálsri verslun. Hinu neitaði enginn, sem var annað aðalatriðið, þegar lögin um einkasölu voru samþ., að Landsverslun hafði alla tíma sjeð landsmönnum fyrir nægum birgðum. Aðalmótbáran var því sú, að Landsverslun gæti ekki selt með jafnlágu verði og hægt væri að fá olíuna í frjálsri samkepni, þ. e. væri alls ekki samkepnisfær. Að þessu athuguðu virðist næsta undarlegt, að flutningsmenn skyldu leggja til, að hún hjeldi áfram að versla með olíuna í frjálsri samkepni. Að þeirra áliti gerði það ekkert gagn, en hlaut að baka ríkissjóði tap. Auk þessa var sú ástæða borin fram, að fjármagn það, sem bundið var í versluninni, væri ríkissjóði nauðsynlegt að fá inn, til þess að borga með skuldir, og einstakir menn gætu eins vel lagt fram fje til verslunarrekstrarins. Þáv. fjmrh. (JÞ) hjelt þessu fastast fram, en hafði þó fyrir fimm árum haldið því fram, að Landsverslunin yrði stærsta þrotabú landsins. Nú vildi hann láta þetta „þrotabú“ borga skuldir ríkissjóðs. svona var samkvæmnin. Var mikið deilt um málið á þinginu 1925, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, taka nokkrar setningar úr þeim umræðum.

Eins og jeg sagði áðan, var seinni hluti till. í þá átt, að ríkisstjórnin skyldi samt sem áður versla með steinolíu í frjálsri samkepni. En einn er sá maður á þingi, sem gerir eindregið ráð fyrir, að þessi hluti till. sje ekki nema formsatriði; það var þáv. hæstv. fjmrh., núv. hv. 3 landsk. (JÞ). Hann gerir ráð fyrir, að steinolíuverslun ríkissjóðs muni draga saman seglin og sennilega alveg hætta.

Í B-deild Alþt. 1925, D, 133. dálki stendur þessi klausa eftir hæstv. þáv. fjmrh.:

„Þótt þess vegna steinolíuversluninni kunni að verða haldið áfram að einhverju leyti fyrst um sinn, af þeim ástæðum, sem till. gerir ráð fyrir, þá hlýtur það að minsta kosti að verða í miklu smærri stíl en núverandi einkasala er rekin í.“

Hann gerir sýnilega ráð fyrir, að það verði ekki verulega mikið af því. En fáir taka undir þetta með honum þá. Aðalflm. till., Sigurjón Jónsson, tekur svo til orða: „Meining okkar er sú, að landsverslunin haldi áfram fyrst um sinn að því leyti, sem þörf gerist.“ Og það kemur víðar fram í ræðum hans, að hann telur þörf á því, að landsverslunin haldi áfram, meðan nokkur uggur sje í landsmönnum um það, að erlendir auðhringar leggi undir sig verslunina. Flutningsmenn telja það ekki tilgang sinn að greiða götu erlendra auðfjelaga til þess að ná í verslunina. Sigurjón segir ennfremur: „Ef olíuverslunin ekki kemst í sæmilegt horf án þess að Landsverslun hafi hönd í bagga, þá verður hún að sjálfsögðu látin halda áfram, ef til vill tekin upp einkasala aftur“.

Hæstv. núv. forseti Nd. (BSv) bendir á hættuna af erlendum auðfj lögum; hann segir svo:

„En mjer virðist það óskynsamlegt að taka verslunina alveg úr höndum ríkisins. Mætti þá fara svo, að erlent fjelag gerðist hjer ofjarl að nýju“.

Enginn gerist þá til að andmæla því, að sjálfsagt sje að hafa þennan varnagla, annar en þáv. fjmrh. (JÞ) í þeim ummælum, sem jeg áðan drap á. Jeg hirði ekki að rekja þessar umræður lengur, en málalokin eru öllum kunn; þáltill. var samþ. og einkasalan afnumin eftir tæpra þriggja ára starf, í ársbyrjun 1926. Þar með eru þverbrotnar allar þær forsendur, sem í upphafi voru látnar fylgja, þegar lögin 1917 voru samþ. Það var beinlínis gert ráð fyrir, að olíuverslunin fengi að starfa í friði um langt tímabil, en þetta er að engu haft.

Síðan einkasalan var afnumin í ársbyrjun 1926, hefir svo Landsverslun fram til síðustu áramóta haldið svo að segja allri steinolíuverslun í landinu eða 80–90%. Þarf ekki annað að tilfæra: til að ósanna fullyrðingar flutningsmanna till. um það, að Landsverslun væri ekki samkepnisfær í olíuversluninni. Þar með eru hrakin þau höfuðrök, sem áttu að gilda fyrir þáltill. 1925. En á síðastliðnu ári hafa þau tíðindi gerst, að tvö fjelög hafa bygt hjer steinolíugeyma; flytja þau olíuna inn í geymaskipum og selja út úr geymunum. Nú er það bert, að það er ómögulegt fyrir Landsverslun að keppa við þessi fjelög með því að reka verslun með olíu í tunnum. Var því um tvent að gera fyrir Landsverslun: annaðhvort að leggja niður rófuna og hætta, sem hún hefir gert, eða ráðast í að byggja sjer geyma og taka upp samkepni við þessi fjelög með svipuðum tækjum og þau hafa, en það hefði auðvitað verið stórkostleg fjárhagsleg áhætta nú, þegar hún hefði ekki getað fengið nema einhvern hluta af versluninni og tvennar geymslustöðvar eru upp komnar.

Meðalinnflutningur til landsins á ári mun vera um 42–45 þús. tunnur af olíu, eða eitthvað á 7. þús. smálesta. Aðalkaupendur olíunnar eru vjelbátaútgerðarmenn, og undir olíuverðinu er afkoma útgerðarinnar að ákaflega miklu leyti komin.

Niðurstaðan er því sú, að þrátt fyrir öll loforðin 1925 um, að Landsverslun skyldi halda áfram til tryggingar því, að erlend auðfjelög tækju ekki verslunina að öllu í sínar hendur, og fengju þar með aðstöðu til að skamta sjer spæni úr öskum landsmanna, þá er hún nú hætt með öllu, og vjelbátaútvegurinn upp á náð og miskunn útlendra auðfjelaga kominn algerlega.

Nú hefir mjer dottið í hug að minnast nokkrum orðum á það, hvernig olíuversluninni er háttað í heiminum nú.

Ekki þarf að fjölyrða um það, að olían er einhver allra þýðingarmesta vörutegund, sem nú er notuð í heiminum. Ekki er kept meira um yfirráð nokkurrar vöru en hennar. Þetta er mjög eðlilegt, því að hvert, sem litið er, er olían nauðsynleg, — til samgangna, til allskonar vjela á landi og sjó, hvorki flugvjelar nje kafbáta er hægt að hugsa sjer án olíu; styrjaldir, eins og þær nú eru reknar, krefjast olíu til flestra framkvæmda; friðsamleg störf litlu síður. Fróðir menn álíta, að í raun og veru sjeu flest af þeim stóru málum, sem um er deilt í heimspólitíkinni, meira eða minna við olíuna tengd.

Þrjú fjelög ráða mestum hluta af olíuversluninni og framleiðslunni í heiminum, tvö stærst, en það þriðja þó býsna risavaxið. Annað stærsta fjelagið er Standard Oil. Þar er Rockefeller aðalmaðurinn. Bak við það fjelag stendur sameinað ameríska auðvaldið alt; undirfjelög þess eru mörg víðsvegar um allan heim, en lúta öll sömu yfirstjórn. Standard Oil er langstærst olíufjelaganna og ræður yfir meira fjármagni en nokkurt annað fjelag, sem um er vitað. Hið næststærsta er tiltölulega ungt, en hefir vaxið mjög ört og er talið farið að nálgast Standard Oil. Það er samsteypa úr ensku og hollensku fjelagi og undirfjelögum þeirra og heitir nú fullu nafni Royal Dutch Shell Company. Fjármagn sitt fær það aðallega frá Englandi og Niðurlöndum og reyndar um Mið- og Vestur-Evrópu alla. Segja fjármálamenn, að á bak við þetta olíufjelag standi breska auðvaldið alt og venslamenn þess. Form. þess er Hollendingur, hefir fengið aðalstign í Englandi og er þar í afarmiklum metum.

Þessi tvö stærstu fjelög eiga oft í höggi hvort við annað, og þegar á rekast hagsmunir Vestur- og Norðurálfu, þá eru það þessi fjelög venjulega, sem ota hvort sínum tota. Hversu miklu þau ráða um stjórnmál og aðgerðir ríkisstjórnanna, annað vestan en hitt austan hafs, er látið fara dult; en fróðir menn álíta, að bak við stjórnmálatjöldin ráði einmitt forráðamenn þessara fjelaga býsna miklu, jafnvel mestu.

Þriðja fjelagið er Anglo Persian. Í því á breska ríkið 50% af hlutafjenu, og milli þess og Shellfjelagsins hefir verið náin samvinna, en hvernig henni hefir verið háttað, vita menn ekki til fulls.

Shellfjelagið hefir tvö undirfjelög aðallega: Anglo Saxon, sem er aðalsölufjelagið, og annað, sem heitir hollensku nafni, sem jeg kann ekki að bera rjett fram; það sjer um framleiðsluna, ræður yfir lindunum, hreinsunarstöðvunum og öðru, sem þar að lýtur. Undirfjelag undir Anglo Saxon er svo aftur fjelag það, sem reist hefir tankana við Skerjafjörð, Asiatic Petroleum Co. Ltd.

Um öll þessi fjelög er það að segja, að þau hafa rakað saman auði, svo undrum sætir. Þess eru t. d. dæmi, að undirfjelög Standard Oil hafa þrítugfaldað hlutafjeð á einu ári og síðan greitt hluthöfum 10–25% í arð af þessu þrítugfalda hlutafje næsta ár. Svo mikill gróði er að vísu sjaldgæfur, en yfirleitt græða öll þessi fjelög afskaplega.

Það segir sig nú sjálft, að á ýmsu hefir oltið um samkomulag á milli þessara fjelaga, en þó hefir það verið svo, að í samkepninni á milli þeirra hefir eitt meðal sjaldan verið notað og nú naumast talið sæmilegt að nota það lengur í samkepni olíufjelaganna. Það er að lækka verðið. Allar aðrar bardagaáðferðir teljast sæmilegar, aðeins ekki þessi. Það er á sinn hátt líkast samþyktum, sem hernaðarþjóðirnar hafa gert sín í milli um ýmsar hernaðar-aðferðir, sem ekki eru leyfilegar, eins og t. d. eiturgas og kafbáta. Verðlækkun setja olíufjelögin á sama bekk. Annars hefir það verið svo, að samkepnin á milli fjelaganna hefir ekki verið svo mjög um verslunina sjálfa, heldur um það að tryggja sjer yfirráð yfir olíulindunum.

Loks má nefna fjórða olíufjelagið. Það er rússneski ríkishringurinn. Rússar ráða yfir mjög auðugum og verðmætum olíulindum, og þaðan hefir hringur þessi olíu. En hann er sá eini, sem heldur uppi samkepni við olíuhringana þrjá, sem jeg áður nefndi, sá eini, sem leyfir sjer að keppa við þá með því að hækka verð olíunnar. Sala hans hefir aukist mjög á síðari árum, enda þótt hún sje enn þá minni en hinna risafjelaganna. Á milli Rússastjórnar og Shellfjelagsins hefir verið allmikill hrútur í seinni tíð, og var ágreiningsatriðið upphaflega það, að eftir byltinguna tóku Rússar eignarnámi eignir Shellfjelagsins í Rússlandi án þess að greiða nokkrar bætur fyrir.

Nú nýlega hafa Rússar veitt Standard Oil sjerleyfi til að hagnýta sjer ýmsar þeirra linda, sem Shell áður átti í Rússlandi, og hefir það ekki orðið til að bæta um milli fjelaganna og enn síður milli Rússa og Shellfjelagsins, enda telja nú margir, að áhrifamenn þess standi á bak við andróðurinn gegn Rússum í Englandi.

Svona lítur þá út um steinolíuverslunina í heiminum, og er því ekki úr vegi að athuga, hvernig henni er háttað hjer heima. Er það þá fyrst, að hingað hafa öll þessi fjelög, sem jeg nú hefi nefnt, teygt anga sína, nema rússneski hringurinn. Hjer eru undirfjelög frá Shell og Anglo Persian, og loks er hjer umboðsmaður fyrir Standard Oil.

Það hefir nú fleirum en mjer fundist ástæða til að athuga afstöðu þessara fjelaga hjer, því að þann 19. jan. s. l. felur stjórnarráðið lögfræðingi einum hjer í bæ:

Í fyrsta lagi að rannsaka heimildir þriggja erl. fjelaga, þ. e. Shell, B. P. og Standard Oil til að eiga eignir og reka verslun á Íslandi, í öðru lagi að athuga dótturfjelög þau, er hringar þessir kunna að hafa stofnað hjer á landi undir íslenskum nöfnum, og í þriðja og síðasta lagi að rannsaka fjármagn þessara fjelaga og alt, sem bendir til þess, að fyrirtækin væru sniðin eftir þörfum erlendra þjóða, sem fyrir tilverknað þessara fjelaga eða aðstandenda þeirra kynnu að fá of mikil völd yfir atvinnulífi þjóðarinnar, jafnvel svo, að hættulegt væri fyrir sjálfstæði landsins.

Það, sem jeg hjer segi um fjelög þessi, fyrirkomulag þeirra og fjármagn, er bygt á skýrslu þessa manns til stjórnarráðsins, dags. 21. febr. s. l. Er þá fyrst að nefna Standard Oil. Angi af því fjelagi er steinolíufjelagið D. D. P. A. og angi þess hjer á Íslandi, Hið íslenska steinolíuhlutafjelag, H. Í. S. Fasteignir á D. D. P. A. hjer engar, en umboðsmaður þess hefir fengið á leigu skúra og lóðir, sem H. Í. S. á, og selur þar olíu í umboðssölu fyrir fjelagið.

Umboðsmaður þessa fjelags hjer er J. Zimsen kaupm. Hann rekur verslunina með þeim hætti, að hann fær lánaða smátanka h j á D. D. P. A., sem hann síðan lánar kaupmönnum, sem hann selur olíu. Einnig lánar D. D. P. A. honum olíuflutningabifreið. Við þetta er auðvitað ekkert að athuga. En hitt er einkennilegra, að Zimsen hefir tekið upp það lag, sem steinolíufjelagið hafði áður, að skuldbinda menn með samningum til 5 ára til að versla við fjelagið; jafnframt skuldbindur hann þessa viðskiftamenn sína til þess að selja ekki olíu til þeirra, sem eru í sambandi við hin fjelögin eða versla við þau, og til að kaupa hvergi olíu nema hjá þessu fjelagi, D. D. P. A. Jeg vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp sýnishorn, kafla úr einum slíkum samningi. Hann gildir til 5 ára, er, dags. 11. ág. 1927, og hljóðar þannig:

„Hjer með staðfesti jeg að hafa frá því í dag og til . . . keypt af Jes Zimsen . . . alla þá hreinsuðu steinolíu, sem jeg þarfnast, fyrir það verð og með þeim skilmálum, sem seljandi setur á steinolíutegundum þess fjelags hjer á staðnum þann dag, er steinolían er afhent, og að öðru leyti samkv. hins vegar rituðum söluskilmálum.

Varan afhendist eftir hendinni, og má jeg hvorki að öllu nje nokkru leyti beint eða óbeint selja hana eða afhenda fjelögum, firmum eða einstaklingum, sem selja vörur í samkepni við Steinolíu D. D. P. A.“.

Kaupendurnir verða samkv. þessu að skuldbinda sig til að kaupa olíuna fyrir ákveðið verð, þ. e. sæta því verði, sem fjelagið setur á hana á hverjum tíma, og þeir verða ennfremur að skuldbinda sig til að selja olíuna ekki vissum mönnum og fjelögum, hvorki beint eða óbeint, og getur það sjálfsagt orðið erfitt stundum að greina sauði frá höfrum. Víti liggja við, ef út af er brugðið. Þar um segir svo í samningnum:

„Haldi jeg samning þennan ekki í öllum atriðum, þar með er meðal annars meint, að jeg eingöngu kaupi alla þá hreinsuðu steinolíu, er jeg þarfnast, hjá seljanda, þá skuldbind jeg mig til, án þess að samningur þessi að nokkru leyti gangi úr gildi, ef seljandi krefst þess, að gefa skilagrein fyrir, hve mikið jeg hefi keypt hjá öðrum en seljanda og greiða seljanda í sekt 5 aura á hvern steinolíulítra, sem jeg hefi keypt hjá öðrum firmum, fjelögum eða einstaklingum, sem selja vörur í samkepni við D. D. P. A. . . . Slíka sekt ber mjer að greiða samstundis“.

Svo mörg eru þau orð. Ef D. D. P. A. einhvern tíma þóknast að heimta hærra verð fyrir olíuna en hin fjelögin taka, og kaupandinn af þeim ástæðum eða öðrum kaupir heldur þar, á hann að greiða D. D. P. A. 5 aura sekt af hverjum lítra. Og þessi samningur á að gilda um 5 ár, til 11. ág. 1932.

Það er bert, að hjer er verið að taka upp sama lag og áður, meðan D. D. P. A. hafði hjer fullkomna einokun.

Þá kem jeg að British Petroleum, sem er undirfjelag fyrir Anglo Persian og Landsverslun hafði samning við um kaup á olíu. B. P. spurðist fyrir um það 1925, hvort hægt myndi að fá leyfi til þess að byggja hjer olíutanka og taka land á leigu, og fekk játandi svar frá þáv. ríkisstjórn. Síðastl. vor gerði það svo leigusamning við bæjarstjórn Reykjavíkur um land undir geymana, og í haust bygði það 4 geyma í því landi, sem samtals taka um 2200 tonn af olíu. Þar sem fjelagið er útlent, hefir það ekki leyfi til þess að reka hjer verslun eða hafa umráð yfir meiri fasteignum en leyfið og leigusamningurinn tiltekur. Var því stofnað íslenskt fjelag til að annast olíusöluna hjer fyrir það. Þetta fjelag nefnist H. f. Olíuverslun Íslands, og í því eru meðal annara núv. hæstv. fjmrh., Magnús Kristjánsson, og hv. 2. þm. Reykv., Hjeðinn Valdimarsson, auk ýmsra annara. Hlutafje þessa fjelags er aðeins 50 þús. kr. eða um 2 þús. kr. meira en H. Í. S. nú hefir. Geymana fær það að láni hjá B. P.

Þá kem jeg að Shellfjelaginu. Undirfjelag þess, Anglo Saxon Petroleum Co., sótti um leyfi til að mega byggja tanka við Skerjafjörð 16. mars 1927 og fekk leyfið strax viku síðar, En svo skeður það undarlega, að það notar ekki leyfið. Heldur kaupa 4 innlendir menn landið og leigja það síðan fjelaginu, sem svo nú í haust hefir bygt þar hús, bryggju og geyma, sem rúma um 8000 smálestir. Þetta fjelag er erlent og má því ekki frekar en B. P. versla hjer með olíuna. Til þess er svo stofnað olíusölufjelag, H. f. Olíusalan, með 108 þús. kr. hlutafje. Tilgangur þess er sá, að selja olíu fyrir Shellfjelagið. Við H. f. Olíusöluna er það að athuga, að hún hefir rekið olíusölu síðan um áramót án þess að fá verslunarleyfi, að minsta kosti var leyfið ófengið í febrúarlok. Annars virðist fyrirkomulagið til þessa hafa verið hið sama hjá Shell og B. P. Íslensk fjelög hafa olíuna í umboðssölu fyrir þau bæði enn þá. En það, sem einkennilegast og athugaverðast er við fyrirkomulag Shellfjelagsins, er sá milliliður, sem það hefir búið til, eða er að búa til, milli sín og Olíuverslunarinnar, og mun jeg nú víkja að því dálítið nánar.

Á bls. 16 í skýrslunni til stjórnarráðsins um þessi fjelög segir svo: „Mjer er skýrt svo frá af Hallgrími Tuliniusi stórkaupmanni, að það hafi þegar verið sett að skilyrði fyrir því, að þetta útlenda steinolíufjelag setti hjer upp olíugeyma og legði fje fram til fyrnefndra mannvirkja, að íslenskt hlutafjelag yrði stofnað, sem keypti olíugeymana og önnur mannvirki hins útlenda fjelags hjer á landi“.

Með öðrum orðum, Shellfjelagið hefir sett það sem skilyrði fyrir því, að það legði fram þessar 3½–4 milj. til mannvirkjanna við Skerjafjörð og annarsstaðar á landinu og til olíuverslunarinnar, að stofnað væri íslenskt fjelag, sem teldist eiga þau. Það er augljóst, að fjelaginu hefir ekki þótt sinn hagur nægilega trygður, nema það fengi hjer sama rjett og íslenskt fjelag, og að það hefir því sett þetta skilyrði. Það er heldur ekki lengi verið að því að verða við þessum kröfum; nógir Íslendingar bjóðast til að uppfylla þetta skilyrði, því að 14. jan. s. l. er stofnað hlutafjelag, skrásett í Hafnarfirði, sem nefnist H. f. Shell á Íslandi. Hlutafje þess er talið 500 þús., og fullur helmingur þess, eða 252 þús., er talið innleyst. Fjelagið hefir því sama rjett hjer á landi sem innlent væri, enda var sú krafa erlenda auðfjelagsins. Þetta íslenska fjelag á svo að kaupa tankana við Skerjafjörð og tanka þá, sem fjelagið hefir bygt og byggir úti um land, og ennfremur tankaskipið.

Í tilkynningunni til bæjarfógetans í Hafnarfirði segir, að alt hlutafje sje innborgað.

Samkvæmt stofnsamningnum eru það þeir Björgúlfur Ólafsson læknir, Magnús Guðmundsson hæstarj.málfl.maður. Hallgrímur Benediktsson stórkaupm., Hallgr. Tulinius stórkaupmaður og Gísli J. Johnsen konsúll, sem stofna fjelagið. Hinn fyrstnefndi lofar að leggja fram 244 þús. kr., en hinir fjórir sínar 2000 krónurnar hver. Á stofnfundinum hefir firmað Anglo Saxon Petroleum Co. og A. S. Dekenham í London umboðsmenn til staðar. Hafa þau forgangsrjett til að skrifa sig á fyrir hinum hluta hlutafjárins og lofa að leggja fram samtals 248 þús. kr.

Þessi er hinn íslenski angi Shellfjelagsins, sem samkvæmt kröfu þess var gróðursettur hjer. Verður ekki annað sagt en að auðfjelaginu hafi gengið sæmilega að fá liðsmenn hjer.

Þetta fjelag, Shell á Íslandi, á svo að kaupa af erlenda Shell alt þess hafurtask hjer. Um verðmæti eignanna segir svo í skýrslunni: „Herra Hallgrímur Tulinius skýrði mjer svo frá, að mannvirki fjelagsins hjer á landi, þar með talið fyrnefnt tankaskip, mundu kosta um 2 milj. kr. og að fjelagið mundi hafa hjer á hverjum tíma 1–1½ milj. kr. í olíu og stáltunnum.“

Þegar svo lögfræðingurinn fer að rannsaka, hvort alt hlutafjeð muni vera innborgað, eins og segir í tilkynningunni, þá snýr hann sjer fyrst til Hallgr. Tuliniusar og fær þær upplýsingar, að fjeð sje í raun og veru ekki innborgað. Síðan hittir hann stærsta hluthafann, Björgúlf Ólafsson, sem góðfúslega gaf þær upplýsingar, „að hann hefði ekki innborgað það fje enn þá, sem hann ætlaði að leggja í fjelagið, og að hann mundi fá þá peninga, sem hann legði fram, lánaða hjá Anglo Saxon Petroleum Co. Hann kvaðst mundu gefa út skuldabrjef til fjelagsins og tryggja því greiðslu skuldarinnar með veði (sennilega handveði) í þeim hlutabrjefum, sem hann fengi í H. f. Shell á Íslandi.“

Fje það, 244 þús. kr., sem stærsti hluthafinn telst eiga í íslenska fjelaginu, er því í raun og veru lagt fram af enska fjelaginu, í viðbót við þær 248 þús. kr., sem það sjálft telst eiga af hlutafjenu.

Á öðrum stað segir lögfræðingurinn, að það sje háttur slíkra fjelaga að greiða þóknun til stofnenda, venjulega í hlutabrjefum, og hann telur sennilegt, að hinir hluthafarnir hafi engan eyri lagt fram, heldur sjeu 8000 krónurnar ómakslaun til þeirra, 2000 krónur til hvers. Hann segist ekki hafa athugað, hvort enska fjelagið og Englendingurinn hafi borgað inn sinn hlut, en telur það ólíklegt; því að sennilega gangi sá hluti hlutafjárins til greiðslu upp í andvirði stöðvarinnar, sem Shell á Íslandi ætlar að kaupa af enska fjelaginu.

Niðurstaða lögfræðingsins verður því sú, að þrátt fyrir tilkynninguna til bæjarfógetans í Hafnarfirði um það, að alt hlutafjeð sje innborgað, þá muni langmestur hluti þess, eða 492 þús. kr., vera óinnborgað. Þessi tilkynning. stjórnar fjelagsins er því með öllu röng og ósönn.

Ennfremur fær lögfræðingurinn þær upplýsingar, áð þessu íslenska fjelagi, með ½ milj. kr. höfuðstóli, sem stofnað er til þess að kaupa eignir Asiatic P., verði ekki skotaskuld úr að kaupa eignirnar, því að það gefi bara út veðskuldabrjef með veði í fasteignum og öðrum eignum fyrir kaupverðinu, eins og áður er sagt.

Jeg vil biðja hv. þm. að athuga, hvernig þetta mál er vaxið. Það er stofnð íslenskt fjelag, sem að nafninu til hefir ½ milj. kr. höfuðstól. Breska fjelagið leggur ekki minna fram en 492 þús., sem hlutafje og lán, en sennilega hefir það lagt fram alla upphæðina, ½ miljón, ef með er talin sennileg þóknun til stofnendanna. Þetta íslenska fjelag kaupir síðan eignir fyrir 3½–4 milj. kr. af breska fjelaginu, gefur út skuldabrjef með veði í eignunum til tryggingar greiðslunni, en greiðir annaðhvort mjög lítið eða ekkert, og ef nokkuð er greitt, tekur seljandi það hjá sjálfum sjer.

Er hægt að finna öllu ósvífnara dæmi leppmensku en þetta?

Með öðrum orðum: Þessar 8 þúsundir, sem þessir 4 föðurlandsvinir ef til vill hafa lagt fram, en sennilega þó fengið frá erlenda Shell í ómakslaun, er alt íslenska fjeð í fjelaginu, sem kaupir eignir fyrir 3½–4 milj. kr.

Hver heilvita maður sjer, að hjer er um það eitt að ræða, að fá íslenskt nafn. Íslenskir menn lána nöfn sín enska fjelaginu, svo að það geti fengið sama rjett og væri það íslenskt.

Þá kem jeg að þriðja atriðinu, sem lögfræðingnum var falið að rannsaka, hvort fjármagn og fyrirkomulag auðfjelaga þessara væri miðað við hentugleika og þarfir hinnar íslensku þjóðar, eða hvort eitthvað annað muni vaka fyrir fjelögunum með því að festa hjer margar milj. kr. í stórfeldum mannvirkjum og verslunarrekstri.

Því er ekki hægt að leyna, að fjöldi manna um land alt horfir með uggi og ótta til auðfjelaga þessara og spyr sjálfa sig, hvort framkvæmdir þeirra geti verið gerðar aðeins til þess að sjá okkur Íslendingum fyrir nægri og ódýrri olíu. Í þessu sambandi er lítið um D. D. P. A. að segja. Það fjelag á hjer engar fasteignir, nje heldur hefir það fengið leyfi til þess að leigja slíkar eignir. Umboðsmaður þess selur hjer olíuna samkvæmt sínu eigin verslunarleyfi. Íslenska fjelagið, H. Í. S., er svo lítið, — hlutafje þess er aðeins 48 þús. kr. —, að engin ástæða er til að óttast áhrif þess að svo vöxnu máli.

Um British Petroleum Company er það að segja að rjettindi þess eru veitt um ákveðið árabil og bundin við ákveðna stærð, sem er það hófleg, að rjett virðist vera við hæfi landsmanna. Ef það vill færa út kvíarnar, verður það að sækja til stjórnar eða þings. Samkvæmt upplýsingum, sem lögfræðingurinn hefir fengið um rekstur þessa fjelags getur það með geymum sínum, sem taka 2200 tonn, sjeð öllum landsmönnum fyrir nægilegri olíu. Forstöðumennirnir segja, að munurinn á því að fá olíu í skipi með þeirri stærð og stærra skipi, t. d. 6000 tonn, sje ekki svo mikill, að það borgi sig að liggja með olíuna því lengur hjer heima. Fjelagið hefir 1 milj. kr. í veltunni, að því er lögfræðingurinn segir, ½ milj. í fasteignum, geymum etc. við höfnina, og aðra ½ milj. í olíu, stáltunnum og slíku, auk útistandandi skulda, ef um lánsverslun er að ræða. Maður hlýtur því að komast að þeirri niðurstöðu, að ekki sje unt að álykta af fjármagni fjelagsins, að það hafi nokkuð annað fyrir augum en að reka verslun við landsmenn á sem hagkvæmastan og bestan hátt, enda er fjelaginu óhægt um vik að gera nokkuð meira, því að leyfi þess nær ekki lengra en þetta. Sama er að segja um breska Shellfjelagið. En þetta gildir ekki um H. f. Shell á Íslandi. Það má ótakmarkað kaupa upp eignir hjer. Stærsti hluthafi þess er nýbúinn að kaupa eitthvert stærsta höfuðból á Íslandi, Bessastaði, og það er ekkert því til fyrirstöðu, að fjelagið geti keypt alt Álftanes, ef það vill. Aftur á móti segir lögfræðingurinn, að hann sje ekki sá maður, að hann geti dæmt um það, hvort fyrirtæki eins og Shellfjelagið sje sniðið við vöxt og þarfir íslensku þjóðarinnar, þannig, að það sje stofnað með það eitt fyrir augum, að selja landsmönnum steinolíu við ódýru verði. Þegar fjelagið er tekið til starfa, getur það geymt um 10 þús. Smálestir af olíu, en það er nærfelt tveggja ára eyðsla allra landsmanna. Nú keppir það við tvö fjelög um söluna. Hugsum okkur — rúmt reiknað — að það hafi helminginn af sölunni. Ef það fyllir geyma sína úti um land alt, á það nóg af olíu um þriggja ára bil. Það verður að teljast torskilin forsjálni, ekki síst þegar þess er gætt, að fjelagið er íslenskt fjelag, og getur hvenær sem er bætt við sig.

Þá virðist þetta tankaskip, eftir því sem lögfræðingurinn segir, vera svo dýrt í rekstri, að flutningur á olíu með því sje dýrari en þó að hún væri flutt í tunnum eftir venjulegum taxta strandferðaskipa. Lögfræðingnum telst svo til, að allur kostnaður við að flytja olíuna með strandferðaskipum sje um 7 kr. á tunnu. En tankaskipið eitt kostar 250,000 kr. Auk mannahalds og rekstrarkostnaðar þarf það, að greiða vexti og afborganir af kaupverðinu. Það er auðvitað undir íslenskum fána og íslenskum lögum, eins og aðrar eignir fjelagsins, svo að því leyti er enginn munur á því og trollurum hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) og annara mætra manna.

Þetta, sem jeg hefi nú sagt, skal jeg láta nægja um fjelagið sjálft. En að lokum vildi jeg mega fara nokkrum orðum um ástandið í versluninni. Því var haldið fram af flm. þál. 1925, að frjáls samkepni yrði um verð á olíu, þegar einkasalan hætti. Nú eru 3 fjelög um verslunina. 2 þeirra selja olíuna við nákvæmlega sama verði, og jeg ætla, að hið þriðja, sem flytur olíuna inn í tunnum, geri það líka. Um samkepni um verð á olíunni er því ekki að ræða. Þá er að athuga það, hvort olíuverslunin sje fjárhagslega rekin á okkur hagfeldari hátt en áður var. Eins og jeg hefi tekið fram, hefir hið íslenska Shellfjelag 3½ milj. kr. í veltunni, í fasteignum, áhöldum og olíu. British Petroleum Co. hefir á aðra milj. kr. í veltunni, í fasteignum, áhöldum og olíu, og Standard Oil, eða D. D. P. A., hefir sennilega nokkur hundruð þús. kr. í veltunni. Auk þessa bætast við útistandandi skuldir. Það veltufje, sem bundið er í steinolíusölu hjer á landi, virðist því að minsta kosti vera 5 milj. kr., auk þess, sem bundið verður í útlánum. Setjum svo, að salan aukist svo mikið, að seljist 50 þús. tn. á ári. Þá þarf að hafa í veltunni 100 kr. á hverja tunnu. Það er gífurlegur kostnaður. Vextirnir eingöngu nema 5–7 kr. á hverja tunnu. Því verður heldur ekki neitað, að aðstaða fjelaganna til þess að græða á olíunni er góð. Þau geta ráðið verðinu, sett það svo hátt sem þeim sýnist, alt hvað olían ekki verður dýrari en með því að flytja hana inn í tunnum í smáslöttum. En hverjir borga brúsann? Það gera þeir, sem kaupa olíuna, fyrst og fremst smábátaútgerðarmenn um land alt. Þetta er miðað við það, að starfræksla fjelaganna sje eingöngu í þeim tilgangi, að selja landsmönnum olíu. En mjer stendur stuggur af þessu geysilega fjármagni, sem engin tök eru á að setja skorður. Þegar jeg minnist þess, að fyrstu heimildarlögin um einkasölu voru samþykt 1912 og að 10 ára okur D. D. P. A. þurfti til þess, að stjórnin neytti þeirra laga, og að fjelagið, sem þá var um að ræða og með áhrifum sínum gat tafið málið svo lengi, var smátt í samanburði við risana nú, er ekki ugglaust um, að áhrif þessara fjelaga verði rík í þjóðmálum okkar. Ein hættan er afstaða okkar og sambönd við önnur ríki. Það er ekki til neins að stinga hausnum undir væng, til þess að sjá ekki. Við verðum að gera okkur ljóst, að í útlöndum er litið tortrygnisaugum á það, sem hjer er að gerast. Samkomulagið milli breska og ameríska auðvaldsins er ekki sem best, og enginn veit, hvenær kann að kastast í kekki með þeim. Það þýðir ekkert að leyna því, að erlend stórblöð hafa sett þetta í samband hvað við annað. Ef til ófriðar kæmi, sem er ekki ólíklegt, og hjer norður í höfum eru á sveimi kafbátar og flugvjelar, þá gæti jeg hugsað, að freistingin væri sterk fyrir þau að skreppa hingað inn eftir olíu, án þess að hirða um hlutleysi okkar. Stærri þjóðir en við og máttugri hafa orðið að þola slíkt. En þá er málum okkar, sjálfstæði og jafnvel lífi stefnt í voða.

Jeg kemst ekki hjá því að drepa á nokkur andmæli, sem komið hafa fram gegn því, að ríkisstjórnin noti lagaheimildina frá 1917. Því hefir verið haldið fram, að breska stjórnin mundi ekki þola það bótalaust, að verðmæti, sem breskir þegnar hafa fest hjer á landi, væri gert ónýtt með því að banna öllum öðrum en ríkinu að versla með steinolíu. Jeg hygg, að þetta þurfi ekki að óttast. Þeim mönnum, sem hafa lagt fje í þetta, er vel kunnugt um áhættuna og það, að heimildarlögin frá 1917 eru í gildi. Þeim er líka kunnugt um, að nýjar kosningar fóru fram á síðastl. sumri, og að ekki er ólíklegt, að álit Alþingis á þessu máli sje nú annað en áður var. Jeg hefi átt tal við tvo menn úr H. f. Shell á Íslandi og spurt þá að þessu, en þeir álíta, að engra bóta yrði krafist, enda hafa Bretar engu að tapa nú, eftir að Shellfjelagið á Íslandi hefir keypt af þeim. Nú eru það fjelagsmenn þess fjelags, sem fyrir skakkaföllunum verða. Ef hins vegar er nokkur fótur fyrir því, að eitthvað annað sje falið hjer á bak við en látið hefir verið uppi, þá hlýtur það að koma í ljós ef stjórnin notar heimildarlögin frá 1917. Ef tilgangur fjelagsins er bara sá að versla með steinolíu við landsmenn, getur ekki komið til nokkurra mála að heimta bætur. Jeg veit ekki betur, þegar einkasala á steinolíu var tekin upp á Spáni, en að engar bætur hafi verið greiddar fjelögum þar fyrir þá tugi eða hundruð miljóna, sem þeim urðu verðlausar. Spánverjar kaupa nú steinolíu eftir því sem verkast vill, hjá hinum og öðrum fjelögum. Þeir hafa til dæmis keypt mikið hjá ríkishringnum rússneska.

Andatrúarmenn margir trúa því, að andi framliðinna fari í líkami viljalítilla smámenna og ráði gerðum þeirra. Að til dæmis framliðnir fylliraftar, sem leiðist að fá ekkert í staupinu hinumegin, fari í skrokkinn á einhverju andlegu smámenni hjer á jörðunni og láti hann fara á túr, til þess að geta þannig svalað fýsnum sínum. Þessum stóra skrokki við Skerjafjörð má líkja við slíkt smámenni, sem hvaða ófriðarandi sem vill getur farið í og notað til hverskonar hermdarverka. Jeg álít því, að allra hluta vegna, hvort sem litið er á fjárhag okkar eða sjálfstæði, mæli alt með því, að stjórnin neyti heimildarlaganna frá 1917 og taki olíuverslunina í sínar hendur. Hún getur keypt það af mannvirkjunum, sem henni lítst og eru við okkar hæfi. Þá þurfum við ekki að óttast erlent auðvald og erlendan hernað.