16.04.1928
Sameinað þing: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (2359)

109. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki skorast undan því, að eiga orðastað við hv. þm. Ísaf. (HG) þangað til þingi verður slitið, ef hann vill. En mjer skilst, að það, sem hann undrast mest, sje það, að innlendir menn skuli geta haft umráð yfir geymunum, þar sem útlent fje hafi verið lagt fram til þeirra. Hann segir, að ef innlendir menn hafi stjórn og umráð yfir geymunum, þá hljóti þeir útlendu menn, sem lagt hafa fram fjeð, að vera snarvitlausir.

Jeg hjelt, að hv. alþm. vissi það, að það er algengt að fara með fjármuni í umboði eigenda eða fyrir þeirra hönd, og einnig hitt, að leggja fram fje til fjelaga, sem síðan ráða fullkomlega yfir því.

Þekkir hv. þm. Ísaf. ekki einhver dæmi þess? (HG: Jú, jú!). Gott og vel, en hvers vegna getur þetta þá ekki átt við hjer?

Svo hjelt hv. þm. því fram, að hægt væri að byggja nýja geyma svo stóra, að þeir næðu yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu! Því ekki yfir alt landið? Það væri lítið meiri fjrstæða. En jeg get sagt hv. þm., að það er ekki tilgangur fjelagsins að byggja stærri geyma fyr en á þarf að halda vegna notkunar innanlands. Jeg veit, að hv. þm. muni segja, að jeg fari með tilbúning. Og þegar hann stendur upp næst, heldur hann því sjálfsagt fram á ný, að þetta sje tilgangurinn.

Þá benti hv. þm. (HG) á, að ekki væru eingöngu notuð stór skip í ófriði, Það er rjett. En ófriði er þó ekki hægt að halda uppi á sjó, nema með því að hafa nokkuð af stórum skipum, og því geta geymarnir ekki komið hernaðarþjóð að haldi, eins og hann vill vera láta og jeg áður hefi bent á.

Auðvitað geta erlend stórveldi brotið hlutleysi vort. En þau geta það alveg eins, þó að landið ætti geymana. En ef þau á annað borð ætluðu að virða hlutleysi að vettugi, mundu þau fremur leita til annara landa, þar sem eftir meiru er að slægjast, t. d. til Danmerkur, sem hefir olíugeyma, sem taka 40–50 sinnum meira en olíugeymarnir hjer.

Annars er óskiljanlegt, ef hv. þm. (HG) heldur, að við megum aldrei eiga neitt, sem ófriðarþjóð getur komið að liði. Þá má bókstaflega ekkert ætilegt vera til í þessu landi. Hvað segir hv. þm. um kolabirgðir hjer? Vill hann ekki halda því fram, að ekki megi flytja inn kol? Og hversvegna reis hann ekki öndverður upp, þegar kolakraninn var bygður?

Það er rjett hjá hv. þm. (HG), að aðrar reglur gilda í stríði en á friðartímum. Því getum við ekki breytt. En hingað til hefir engin þjóð fundið upp á því að brjóta hlutleysi okkar. Stórveldin hafa þyrmt þjóðum, sem meiri fengur er í en nokkurntíma getur orðið í okkur. Og það er ósæmilegt að gera þeim getsakir að óreyndu.

Ágreiningurinn milli mín og hv. þm. Ísaf. (HG) er í því fólginn, að jeg álít besta tryggingu í því, að fjelagið sje undir yfirráðum Íslendinga, en hann en gagnstæðrar skoðunar. Ef Íslendingar þeir, sem stjórna því, brjóta skyldur sínar, er hægt að hafa hendur í hári þeirra, en ekki útlendinga. Og það get jeg sagt honum að lokum, að jeg álít þessu máli einmitt vel komið, af því að ábyrgðin á gerðum fjelagsins hvílir á herðum íslenskra manna.