16.04.1928
Sameinað þing: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2360)

109. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) telur aðaltrygginguna í því fólgna, að fjelagið sje íslenskt. Jeg álít þvert á móti, að í því liggi hættan fyrst og fremst. Jeg skal taka dæmi máli mínu til sönnunar. „Íslenska“ fjelagið Shell getur nú gert það, sem því sýnist, brjóti það aðeins ekki formlega í bága við landslög. En breska fjelagið, sem á geymana hjerna við höfnina, má ekki auka þá um einn sentimetra án þess að fá leyfi landsstjórnarinnar. Íslenska fjelagið þarf ekki að biðja um neitt leyfi. Og þess vegna setti einmitt breska fjelagið það skilyrði, að íslenskir menn ættu, þ. e. teldust eiga, olíustöðina, sem það lagði fram fje til að reisa. Nú er hv. 1. þm. Skagf. (MG) hættur að halda því fram, að Íslendingarnir eigi hana í raun og veru. Hann talar um, að algengt sje að fara með eigur annara manna í umboði, og setja svo yfir þær sjerstaka stjórn. Jeg skil ummæli hans svo, að hann eigi við stjórn H. f. Shell á Íslandi. Og mjer þykir vænt um, að hann nú loks viðurkennir, að hún fari aðeins með fje útlendinganna í umboði þeirra. En þar sem stjórnin, þar á meðal hv. þm. sjálfur, starfar aðeins í umboði erlenda fjelagsins, hagar hún sjer auðvitað eins og það leggur fyrir hana að gera.

Hv. þm. (MG) segir, að jeg vilji láta útlendingana ráða. Jeg vil heldur, að útlendingar fái hjer ákveðin, takmörkuð rjettindi, en að íslenskir menn gerist leppar þeirra.

Þá sagði hv. þm. (MG), að ekki væri hægt að heyja ófrið á sjó án þess að hafa eitthvað af stórskipum. En honum þýðir þó ekki að halda því fram, að stórskip sjeu notuð eingöngu. Og vitanlega eru það aðallega smáu skipin, sem þurfa að leita til hafna og helst þurfa á olíustöðvum að halda. Hin stærri hafa forða til langs tíma.

Hv. þm. (MG) fataðist mjög rökfimin, þegar hann hjelt því fram, að sama hættan stafaði af öllum sköpuðum hlutum hjer, sem ófriðarþjóðir gætu til einhvers notað, t. d. matvælum og kolakrananum hans Hjalta! Hann sagði, að jeg hefði átt að vera á móti kolakrananum. Ekki sá jeg ástæðu til þess. Hv. þm. ætti að vita, að í styrjöldum er olían allra hluta nauðsynlegust, og því mest hættan af henni. Hún freistar ófriðarþjóðanna meira en nokkuð annað. Nú er svo komið, að í flotum ýmsra stórveldanna eru ekki nema 10%, sem nota kol. Öll önnur skip, sem nothæf eru í stríði — jeg tel ekki uppgjafafleytur, sem notaðar eru til þess að skjóta á afmælisdegi kóngsins o. s. frv. — eru knúin með olíu. Jeg vona því, að hv. þm. skilji, að ekkert hjer á landi mundi freista ófriðarþjóða eins mikið og hinar miklu olíubirgðir við Skerjafjörð, og að miklu sennilegra er, að þær reyni að nota sjer slíkt, heldur en að þær fari að smala lömbum uppi á afrjettum.