16.04.1928
Sameinað þing: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2361)

109. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. Ísaf. (HG) sagðist hafa skilið orð mín svo, — að jeg játaði, að yfirráð Shellfjelagsins væru ekki íslensk. Þetta er mesti misskilningur. Útlendingar hafa að vísu lagt fram nokkuð af fje, en þeir eru alveg útilokaðir frá stjórn fjelagsins, því að meiri hluti hlutafjárins er íslenskur. Og jeg held því einmitt fram, að Íslendingar hafi full yfirráð fjelagsins. Staðhæfing hv. þm. (HG) er því röng. (HG: Voru ummælin ekki rjett hermd?). Það vantaði í þau. Annars snúast umræður nokkuð lítið um till., og skil jeg vel, að arðaltilgangur flm. hefir verið að fá tækifæri til að tala um þetta.

Hv. þm. (HG) talar um stór og smá skip. Jeg held, að stóru skipin þurfi ekki minni olíu, þegar þau smáu bætast við.

Annars hafa komið hingað skemtiskip, sem hafa haft með sjer eins mikið af olíu og allir geymarnir við Skerjafjörð taka til samans. (HG: Til hve langrar ferðar?). Frá Ameríku og hingað, til Spitzbergen og þaðan heim.

Heldur hv. þm. (HG), að fæði og föt t. d. sje ekki eins nauðsynlegt í stríði og olía? Yrði hlutleysi vort á annað borð brotið, mundi fleira verða notað en hún. Hjer eru oft fyrirliggjandi mörg þús. skp. af saltfiski. Ætli hann gæti ekki komið sjer vel. (Forseti: Tíminn er að renna út). Jeg er líka að verða búinn. En ef ófriðarþjóð ætlaði sjer á annað borð að nota þetta land, held jeg, að hún yrði ekki lengi að byggja hjer olíugeyma sjálf. Það mundi ekki taka nema fáeina daga.