23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (2376)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Það kom fram í ræðum tveggja hæstv. ráðh., að þeir bjuggust við, að hjer ætti að stofna til einhverrar skemtunar. Jeg stofnaði ekki til neinnar skemtunar, og mjer fanst ræður hæstv. ráðh. ekki heldur bera neinn blæ af slíku. Hjer er einungis um einfalt þingmál að ræða, og þótt hjer geti stundum verið skemtilegt á þingi, þá var ekki til þess stofnað í þetta sinn.

Hæstv. forsrh. virðist vera sá eini af ráðh., sem hefir skilið, um hvað var spurt. Því að hann reyndi að sýna fram á, og lagði mesta áherslu á, að aukastörf sín samrýmdust ágætlega ráðherrastörfunum.

Hjer er ekki verið að ræða um peningahlið málsins, sem hæstv. dómsmrh. gat ekki slitið sig frá. Og hjer er ekki heldur verið að ræða um það, hvort ráðh. geti annað störfunum, eins og hæstv. fjmrh. talaði um.

Mer skildist helst á hæstv. forsrh., að hann teldi störf atvmrh. og formanns Bún.fjel. Ísl. svo náskyld, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að sami maður gegndi hvorutveggja. Eftir hans skoðun ætti þá líklega atvmrh. að vera sjálfkjörinn formaður Búnaðarfjelagsins. En jeg er alt annarar skoðunar um þetta mál. Jeg álít það mjög óheppilegt, að sami maður gegni báðum þessum stöðum. Mjer virðist það svipaðast því, að sami maður ætti að dæma um sama mál bæði í undir- og yfirrjetti. Það má segja, að þar sem undirdómarinn hafi kynt sjer málið allra manna best, þá sje enginn maður hæfari en hann til þess að dæma það einnig í yfirrjetti. En það sjá allir, hve fráleit slík rökfærsla er. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa bæði undir- og yfirdómara, en sami maður má alls ekki vera hvorttveggja. Atvmrh. þarf auðvitað að kynna sjer málin, en hann á að gera það í þeim tilgangi að hafa gætur á störfum og afgreiðslu Búnaðarfjelagsstjórnarinnar, en ekki til þess eins að samsinna.

Þá mintist hæstv. forsrh. á starf sitt í gengisnefnd og kvaðst mundu verða þar áfram sem „fulltrúi atvinnuveganna“.

Nú er það svo, að þeir menn í gengisnefnd, sem eru þar sem fulltrúar atvinnuveganna, eru skipaðir mjög einhliða, því að þeir eru þar fyrir þá, er selja erlendan gjaldeyri, en kaupendur erlenda gjaldeyrisins, sem eru miklu fleiri, eiga þar engan fulltrúa. Það var ekkert athugavert þótt hæstv. atvmrh. væri í nefndinni sem fulltrúi eins atvinnuvegar, meðan hann var óbreyttur þingmaður, en síðan hann varð atvmrh. verður hann, í gengisnefnd sem annarsstaðar, að bera hag allra atvinnuvega jafnt fyrir brjósti. Nú er ómögulegt að neita því, að hagsmunir atvinnuveganna rekast á í gengisnefnd, og getur því sami maður ekki verið fulltrúi beggja, eða rjettara sagt allra. Jeg verð því að halda því fram, að starfsemi hæstv. atmrh. í gengisnefnd samrýmist illa ráðherrastarfi hans. Hæstv. ráðh. (TrÞ) sagði, að gengisnefndarstörfin tefðu sig ekki frá ráðherrastörfum. Jeg trúi því vel, því að það kom fram nýlega hjer í hv. deild frá öðrum manni úr nefndinni, að starfið væri svo að segja ekki neitt, þar sem hún kemur svo sjaldan saman, að mönnum hefir reiknast, að nefndarmenn hefðu 300–400 kr. kaup á klukkutíma. Það væri þá helsta vörn hæstv. ráðh. að því er þetta aukastarf hans snertir, að það rækist ekki á önnur störf hans af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki neitt. En mætti þá ekki leggja það niður?

Mjer virtist eitt merkilegt atriði koma fram í ræðu hæstv. atvmrh. Jeg skildi hann svo, að hann áliti mjög nauðsynlegt, að gengisnefndin hjeldi áfram störfum sínum. En nú, þegar seðlaútgáfurjettinum hefir verið ráðstafað og Landsbankinn hefir tekið til starfa sem seðlabanki, þá á hann að taka við því starfi, sem gengisnefnd áður var ætlað, meðan seðlaútgáfurjettinum var óráðstafað. En hæstv. fors.- og atmrh. virðist vera á annari skoðun, því að hann vill nú auka og efla nefndina, og jafnvel ganga svo langt að gefa fulltrúum atvinnuveganna atkvæðisrjett, eftir að nefndin hefir verið gerð þýðingarlaus. Því að það er vitanlegt, að nefndin, sem ekki hefir möguleika til að stjórna kaupum og sölu erlends gjaldeyris, getur engu ráðið um verð hans. Það er því fullyrðing ein hjá hæstv. ráðh., að störf hans í gengisnefnd og sem ráðherra samrýmist.

Þá sný jeg mjer aftur að formensku hans í Búnaðarfjel. Íslands. Hæstv. atvmrh. reyndi að sýna fram á, að sú staða samrýmdist alveg sjerstaklega vel starfi atvmrh. Hann sagði, að báðir yrðu t. d. að vera kunnugir sömu málum. Við það á dæmið um undir- og yfirdóm, sem jeg drap á áðan. Atvmrh. á að hafa eftirlit með því, sem fram fer í Búnaðarfjelaginu. Hæstv. ráðh sagði, að búnaðarþing hefði óskað eftir því að fá mann úr stjórnarráðinu í stjórn Búnaðarfjel. En það er nokkuð annað, þótt skrifstofustjóri úr atvinnumálaráðuneytinu sje í stjórn Bún.fjel., eða að atvmrh. sje það sjálfur. Skrifstofustjórar hafa ekki æðsta úrskurðarvald í þessum málum, og auk þess eru þeir ópólitískir menn, með fastri veitingu fyrir embætti sínu. En ráðherrann er besta spegilmynd öfgafullra pólitískra flokka. Þá sannar það ennfremur ekki neitt, þótt Búnaðarfjelagið sjálft hafi viljað fá mann úr stjórnarráðinu í stjórn sína. Jeg býst við að fleiri stofnanir vildu hafa forstöðumann, sem væri ráðherra, því að það gæti komið sjer notalega.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á það, að það mundi ekki hafa orðið heppilegt, ef varamaður hans hefði tekið sæti í Búnaðarfjelagsstjórninni, og skildist mjer það vera ein ástæðan, sem rjeði því, að hann hjelt starfinu áfram. Mjer þótti vænt um, að hæstv. forsrh. kom inn á þetta. Því hefir verið fleygt á milli manna, að hæstv. ráðh. sæti áfram í stjórn Búnaðarfjelagsins til þess að útiloka varamann sinn, og ýmsum getum hefir verið leitt um það, hvers vegna svo mikill kali hafi orðið á milli þeirra, að hæstv. ráðh. skuli heldur vilja sitja en að hinn hreppi tignina. Og mjer skildist, að hæstv. ráðh. staðfesti með ræðu sinni þessar ótrúlegu fregnir.

Út af síðari lið fyrirspurnarinnar sagði hæstv. forsrh., að það væri ekki á sínu valdi að ákveða, hvort hann sæti kyr eða ekki. Það getur maður líka skilið. Hæstv. ráðh. er t. d. dauðlegur, engu síður en aðrir menn. En um þetta var ekki spurt, heldur hitt, hvort hæstv. ráðh. vildi og ætlaði sjer að sitja kyr, ef hann mætti sjálfur ráða. Mjer skildist, að hann ætlaði að sitja áfram í gengisefndinni — og meira að segja að auka valdsvið hennar — en á hinn bóginn að það væri undir því komið, hver tæki við af honum, hvort hann mundi sitja í stjórn búnaðarfjelagsins áfram eða ekki.

Hæstv. ráðh. mintist á Grænlandsnefndina, sem líka er aukastarf. Það er rjett til getið, að jeg hefi ekki lagt mikið upp úr því, en jeg er óviss um, að það geti verið þægileg aðstaða fyrir hæstv. ráðh. að vera í nefndinni. Maður gæti hugsað sjer, að atvikin leiddu nefndina í störfum sínum og ályktunum inn á þær brautir, sem gætu orðið ónotalegar fyrir hæstv. ráðh.

Það er best, að ráðh. hafi engin aukastörf með höndum. Þeir skipa svo áberandi stöður í þjóðfjelaginu, að það getur verið óþægilegt fyrir þá að gegna misjafnlega heppilegum aukastörfum, auk þess sem það dregur úr starfskröftum þeirra.

Jeg þarf ekki að svara hæstv. fjmrh. (MK) miklu. Mestur hluti ræðu hans kom fyrirspurninni ekkert við. Hann var að tala um það, að skemtunin, sem hjer hefði verið boðið upp á, mundi bregðast; og svo var hann að amast við því, að jeg þakkaði hæstv. forsrh. fyrir að hafa svarað fyrirspurninni. Það er eins og hann vilji ekki láta taka mark á hæstv. dómsmrh., sem hafði lýst því yfir, að stj. mundi ekki svara fyrirspurninni. Það er þó yfirleitt álit manna, að hæstv. dómsmrh. ráði miklu og komi því fram, sem hann vilji, jafnvel þótt það sje ekki á hans sviði. Og verkin sýna merkin. Það virðist svo sem vald hans sje að vaxa, en hinna ráðh. að minka. Þegar nú þessi voldugi ráðherra hafði lýst því yfir, að fyrirspurninni yrði ekki svarað, þá bjóst jeg við, að svo mundi fara. Þess vegna þakkaði jeg hæstv. forsrh. fyrir, að hann svaraði og ljet ekki hafa áhrif á sig.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að jeg hefði sagt, að stj. væri nauðulega stödd og ætti alt undir Jafnaðarmönnum. Máltækið segir, að sá, sem afsaki sig, ásaki sig. Jeg mintist ekki á þetta, en sagði, að það væri eðlilegt, að ráðh. hefðu ekki sagt af sjer aukastörfum sínum, þar sem stj. var mynduð milli þinga með stuðningi Jafnaðarmanna, og þeir því gátu búist við að sitja aðeins til bráðabirgða og fara frá, þegar þing kæmi saman. Jeg hjelt, að þeir vildu hafa vaðið fyrir neðan sig, því að þess eru mörg dæmi, að ráðuneyti hafa orðið skammlíf. Jeg man t. d. eftir því, að prófessor einn við Hafnarháskóla varð skyndilega ráðherra. Hann hjelt hjartnæma ræðu yfir lærisveinum sínum og kvaddi þá með mörgum fögrum orðum. Hann lýsti átakanlega trega sínum yfir því að þurfa að hætta kenslunni og hverfa til annara starfa. Daginn eftir kom hann í tíma eins og ekkert hefði í skorist — ráðuneytið var fallið.

Það er satt, að jeg hefi stundum vikið því að stj., hvernig ástatt væri fyrir henni og hverjir það væru, sem rjeðu lögum og lofum í raun og veru. En jeg gerði það ekki í þetta skifti.

Hæstv. fjmrh. sagði, að því væri fljótsvarað, hvaða aukastörfum hann gegndi; hann hefði verið forstjóri Landsverslunarinnar og væri það áfram, mjer skildist af því, að hann hefði búist við, að hún mundi líða undir lok. En sumir munu nú halda, að ekki sje ástæðulaust, eins og meiri hlutinn er skipaður, að ætla, að verslunin haldi áfram, enda eru góðar horfur á því eftir öllum sólarmerkjum að dæma.

Þá fór hæstv. ráðh. að tala um, hvað aldraðir menn legðu mikið á sig. (Fjmrh. MK (kemur inn í deildina): Jeg hefi víst tapað miklu). Nei, aðeins fyrri hlutanum, skemtilestrinum. Jeg er kominn að því, þegar hæstv. ráðh. fór að tala um, hvað aldraðir menn legðu miklu meira á sig en ungir menn. En mjer finst það einkennilegt, að ráðh. skuli vaxa ásmegin, því meiri störfum sem þeir gegna. Og það er vitanlegt, að forstjórastaðan við Landsverslunina var talin fullkomið verk, (Fjmrh. MK: Þó að hún hætti?), á meðan hún var. En eins og jeg tók fram áðan, hefir hæstv. ráðh. kanske búist við, að hún yrði lögð niður, og því ekki sagt af sjer forstjórastöðunni. Þegar svo hæstv. ráðh. hefir tekið að sjer að gegna þessu aukastarfi á kvöldin og nóttunni, bætir hann við sig bankaráði Íslandsbanka, og ekki nóg með það, heldur rækir hann þetta aukaatarf svo vel, að það vex um allan helming. Jeg efast ekki um, að þess hafi verið full þörf og að hæstv. ráðh. geri sitt til, að ráðið verði annað en nafnið tómt. En það er merkilegt og skýtur sjerstaklega skökku við, að samtímis sem ráðherranum finst nauðsynlegt að auka starfsvið bankaráðs Íslandsbanka er verið að draga úr starfsemi bankaráðs Landsbankans. Það hefir komið fram frv. um, að það starfi aðeins á hálfsmánaðarfresti, í stað daglega nú. Og jeg býst við, að frv. sje flutt með vitund og vilja hæstv. fjmrh., sem þetta heyrir undir. En svo að jeg víki frekar að störfum ráðh. við Íslandsbanka, þá verð jeg að segja það, að mjer finst alveg nóg, að einn ráðh. sitji í bankaráðinu. Það er svo ákveðið í lögum bankans, að forsrh. skuli vera formaður bankaráðsins, og mönnum hefir víst frá upphafi fundist þetta misráðið og óþarft að lána nafn forsrh. í stjórn hlutafjelags. En ef það í raun og veru er ekki rjett, að forsrh. sitji í bankaráðinu, þá hlýtur það að vera óheppilegt, að tveir ráðh. sjeu þar. En sje þetta nú orðið vel viðeigandi, virðist ekkert á móti því, að öll stj. sje í ráðinu, svo að ekki sje verið að skilja einn útundan. Ef það er rjett, sem svo oft stendur í stjórnarblaðinu, að Íslandsbanki geri alt danskt, þykir mjer samt skjóta nokkuð skökku við, að flokkurinn skuli leyfa, að meiri hluti stjórnarinnar eigi sæti í bankaráðinu.

Þá kem jeg að hæstv. dómsmrh. Máltækið segir, að sjaldan bregði mær vana sínum. Það fór nú sem oftar, að hæstv. ráðh. hjelt sjer ekki fast við efnið. Meðal annars fór hann að tala um einhverjar lummur, sem hann hefði fengið norður í Eyjafirði. (ÓTh: Sbr. kökurnar í Hvolhreppnum). Jeg þekki ekki þessa sögu, en ef hæstv. ráðh. á við það, að farið sje að slá í þessa fyrirspurnarlummu mína, getur hann sjálfum sjer um kent. Þegar taka átti málið á dagskrá um daginn, fanst hæstv. ráðh. hvergi, og var þó í húsinu.

Annars vona jeg nú, að fyrirspurnarlumman verði ætileg, þegar hæstv. ráðh. er búinn að bæta hana með rjómafroðu mælsku sinnar.

Hæstv. ráðh. var að dylgja með það, að mjer gengi öfund til yfir peningum ráðh. Og í því sambandi fór hann að tala um peningagræðgi mína. En þetta er ekkert annað en dauft bergmál frá kosningabaráttunni í sumar. Eitt blaðið sagði þá, að jeg hefði met í bitlingum. Það hjelt, að jeg gegndi störfum, sem jeg kom alls ekki nálægt. Hæstv. dómsmrh. ætlar kanske samt að halda þessu sama fram. Ef jeg nú tel upp þau aukastörf, sem jeg gegni, verður það bankaráðið eitt, en í því er jeg — ásamt hæstv. ráðh. Og ef jeg fer að telja upp aukastörf mín á undanförnum árum, hefi jeg verið endurskoðandi landsreikninganna. Jeg hefi aldrei heyrt, að það væru met í bitlingum, þótt einhver endurskoðaði landsreikningana. Það er ábyrgðarstaða með 1000 kr. þóknun, og jeg skal ekki neita því, að mjer þótti bæði gott og þægilegt að fá þessa atvinnu utan embættis míns. Ef hæstv. dómsmrh. ætlar sjer að gefa fordæmi með því að taka ekki peninga fyrir störf sín, held jeg, að hann ætti að endurbæta flokksmenn sína áður en hann snýr sjer að okkur Íhaldsmönnum. Þeir eru sumir margfaldir í bitlingum, t. d. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), einhver besti maðurinn í flokknum. Jeg er ekki að ásaka hann fyrir það, hann á skilið að fá laun fyrir störf sín, ef hann leysir þau vel af hendi, sem jeg efast ekki um að hann geri. En hæstv. ráðh. ætti að byrja sjer nær, heldur en að vera að núa okkur andstæðingum sínum upplognum bitlingum um nasir. (ÓTh: Hvernig er ráðh. sjálfur?). Ef jeg hefði svo marga bitlinga, mundi jeg að minsta kosti hirða þá þegjandi. En jeg hefi unnið kauplaust líka. Jeg er í tveim ólaunuðum milliþinganefndum og þykist með því gjalda Torfalögin um ólaunuð störf fyrir það opinbera. En það er ekki tilgangur fyrirspurnarinnar — og jeg lýsti því yfir í upphafi — að amast við því, að ráðh. fengju borgun fyrir störf sín.

Þá gat hæstv. ráðh. upp á því, að jeg bæri fram fyrirspurnina af umhyggju fyrir lífi og heilsu ráðh. Hann er snjall í því, þessi hæstv. ráðh., að geta upp á öllu nema því rjetta. Í því sambandi bar hann mjer á brýn, að mjer væri sama, þó sjómennirnir svæfu ekki. Nú var jeg einn af þeim, sem fylgdu lögunum, um 6 tíma svefninn, svo að þetta kemur hálfilla heim. Og það er ekki laust við, að þetta skjóti dálítið skökku við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um gömlu mennina, að þeir ynnu fram á nætur.

Nei, það sem jeg átti við, var í fyrsta lagi, að hætta væri á, að ráðh. köstuðu höndunum til ráðherrastarfanna, og sjerstaklega hvort aukastörfin gætu samrýmst aðalstörfum þeirra.

Hæstv. dómsmrh. fór að vitna til Danmerkur. Það minti mig á manninn, sem fullyrti, að eitthvað væri óyggjandi, því að hann hefði lesið það í danskri bók. Það er margt ágætt í fari okkar ágætu sambandsþjóðar, en þar með er ekki sagt, að rjett sje að taka alt upp eftir henni. Enda býst jeg ekki við, að því sje til að dreifa, að ráðherrar hjer hafi miklar tekjur af að vera í stjórn hlutafjelaga. En hitt er það, að forsrh. er með lögum skyldaður til að vera formaður bankaráðs Íslandsbanka. Hæstv. dómsmrh. gleymir því stundum, að hann er ráðh. Honum fer eins og manninum, sem ekki vildi spila rúbertuvist, af því að hann gleymdi því altaf, á móti hverjum hann ætti að vera. Hæstv. ráðh. er líklega ekki búinn að skipa sætið nógu lengi. Hann er altaf í andstöðu, talar um fyrv. stjórn o. s. frv. Hann rjeðst á hv. 1. þm. Skagf. (MG) og hv. 3. landsk. (JÞ) og sagði, að þeir hefðu gert þetta sama; alveg eins og götustrákarnir, sem hrópa: Þú ert ekkert betri en jeg. Þú gerðir það líka. Þegar verið var að setja út á hæstv. dómsmrh. út af varðskipunum, svaraði hann því, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefði gert það sama sem hann sjálfur. Úr því að hv. 1. þm. Skagf. hafði gert það, var sjálfsagt, að það væri rjett. (JJ: Að minsta kosti fyrir Mogga). Það er nú samt ósatt, en jeg hirði ekki að færa rök fyrir því nú; það skiftir þetta mál, sem um er að ræða, engu.

Það er kunnugt, að ráðherrar Íhaldsflokksins bættu ekki þriðja manni við í stj., af því að kosningar stóðu fyrir dyrum. Þeir játuðu báðir, að störfin væru of mikil fyrir tvo menn, og mun þó enginn verða til þess að bregða þeim um að vera ónytjungar. En sannleikurinn er, að ráðherrastörfin eru fullkomlega nóg handa þrem mönnum. En þau eru með þeim hætti, að hægt er að vinna þau misjafnlega, svo að einn slæpingur kemst kanske af með að vinna jafnt sem þrír duglegir menn. Og því hygg jeg, að allir ættu að geta orðið sammála um, að nauðsynlegt er að búa svo um þessi embætti, að þau geti notið mannanna allra. Jeg held, að jeg þurfi ekki að fara frekar út í þetta.

Hæstv. dómsmrh. gekk fram hjá aðalatriðinu í fyrirspurn minni, hvort störfin í bankaráðinu gætu samrýmst ráðherrastöðunni eða ekki. Nú er það hugsanlegt, að bankaráðið geti í einhverju máli orðið aðili gegn landsstj. Og sem grundvallaratriði er það óheppilegt í alla staði, að einn ráðh. sje undir annan gefinn. Nú er hæstv. dómsmrh. í bankaráði Landsbankans og verður því undirmaður fjmrh. Auk þess verður hæstv. fjmrh. sem forstjóri Landsverslunarinnar, ef tóbakseinkasalan kemst á, undirmaður sjálfs sín. Og hæstv. forsrh. verður sem formaður Búnaðarfjelagsins og ráðherra undir- og yfirmaður sjálfs sín með einhverjum undarlegum hætti, og aldrei að vita, hvort hann er heldur í það og það skiftið. Nú er yfirstjórn sett til þess, að hún hafi eftirlit með undirstjórninni, og má því nærri geta, hvað vel það samrýmist, að sami maður hafi yfirumsjón með sjálfum sjer. Jeg get líka hugsað mjer, að árekstur yrði milli landsstjórnarinnar og bankaráðs Landsbankans, t. d. út af „valútu“ landsins. Það er hugsanlegt, að með völd fari stj., sem vildi hækkandi gengi, sem bankinn teldi ófært vegna atvinnuveganna, eða að stýfingarstjórn sæti að völdum, en bankaráðið vildi koma krónunni upp í gullgildi. Það getur orðið margskonar árekstur á milli stjórnarinnar og bankaráðsins, og það sýnir, hversu óheppilegt er, að ráðherra sje í bankaráðinu. Auk þess hættir ráðherrum yfirleitt til að vera of pólitískir og taka of mikið tillit til síns flokks, en það er besta ráðið til að drepa hvaða peningastofnun sem er að blanda slíku inn í störf hans. Maður gæti líka eftir þessu hugsað sjer, að öll stjórnin sæti í bankaráði Landsbankans. Og eins og nú er, sitja allir ráðherrarnir í bankaráðum, einn í bankaráði Landsbankans og tveir í bankaráði Íslandsbanka.

Jeg verð að segja, að jeg álít það enga dygð hjá hæstv. ráðh., þó að hann taki engin laun fyrir störf sín í bankaráði Landsbankans. Launin eru látin í sjóð, sem styrkir búnaðarframkvæmdir ýmsar, en það er ekki hæstv. ráðh., sem gefur þá gjöf, heldur sá varamaður, sem hann útilokar. Enda er peningunum varið til styrktar landbúnaðarmálum, einmitt með það fyrir augum, að það er búnaðarmálastjóri, sem gefur þá.

Hæstv. ráðh. talaði um fleiri aukastörf sín, t. d. blaðamensku. Ójá. Jeg er hræddur um, að mörgum finnist hans blaðamenska illa samrýmast því, að hann er dómsmrh.