14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jörundur Brynjólfsson:

* Síðan jeg talaði í þessu máli síðast er nú liðinn langur tími og hafa margir tekið til máls. Brtt. þeim, sem meiri hl. flytur hjer, hefir verið andmælt, og þó einna sterkast þeim, sem jeg flyt ásamt nokkrum hv. þdm. á þskj. 528. Menn hafa rökstutt andstöðu sína gegn brtt. okkar með því að halda fram, að engin hætta væri samfara innflutningi á þessum vörum.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir gengið feti lengra en aðrir og haldið fram, að till. okkar hefðu ekki við neitt að styðjast. Þær væru annaðhvort bygðar á þekkingarskorti á málavöxtum, eða þá að eitthvað annað lægi á bak við. — Jeg mun nú síðar koma nokkru nánar að því, hvor okkar hefir meira til síns máls.

Málið hefir nú verið allrækilega upplýst af hálfu sjerfræðinga, og skal jeg leyfa mjer að vitna hjer til sömu sjerfræðinga og hv. 2. þm. Reykv. vitnar til, og athuga, hversu vel hann hefir farið með sínar heimildir. Jeg ætla þó fyrst að mótmæla því algerlega, að fyrir okkur vaki nokkuð annað en að verjast þeirri hættu, sem hjer vofir yfir. Hjal hv. þm. og fleiri um verndartollastefnuna læt jeg mig litlu skifta, en jeg skal bæta því við, að ef við teldum rjett að taka upp þá stefnu, þá mundum við hafa fulla einurð til að koma fram með hugmyndina ógrímuklædda.

Í brjefi því, sem sendiherra Dana hjer hefir sent stj., er komist svo að orði, að það vanti vísindaleg rök fyrir því, að nauðsynlegt sje að grípa til þessara ráðstafana. — Ennfremur er drepið á það, að lega landsins og staðhættir allir sjeu á þá leið, að ekki þurfi að óttast svo mjög, að veikin berist hingað, og að tilbúningur á mjólkurafurðum, smjöri, ostum o. s. frv., fari fram á þann hátt, að sýkingarhætta stafi ekki af þeim.

Þessar fullyrðingar, sem í þessu brjefi standa, hafa við lítið að styðjast, eins og jeg mun síðar sýna fram á. Í þessu brjefi er það talið nokkurnveginn víst, að Ísland liggi svo norðarlega, að þess vegna sje engin hætta á því, að veikin geri hjer vart við sig. Er þetta rökstutt með því, að veikinnar hafi ekki orðið vart fyrir norðan visst breiddarstig. Jeg býst við, að þetta hefði ef til vill ekki verið álitið ósennilegt áður en veikin barst til Noregs. En nú er veikin komin til Noregs, og hennar hefir ekki orðið þar vart fyr, svo menn hafi þekt. Reynslan hefir því skorið úr um þetta atriði, og er því ekki hægt að benda á þessi rök fyrir því, að veikin geti ekki þrifist á Íslandi. (HjV: Það var aðeins syðst í Noregi, að veikinnar varð vart). Já, satt er það að vísu, að hún varð aðallega skæð syðst, en þó virðist ekki betur en að hún hafi getað þrifist víðar. En Norðmenn gerðu strangar ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu hennar, og þó er það ekki víst, hvort þeim hefir tekist að taka alveg fyrir hana.

Það má vera, að það hafi tekist, en þó skal jeg ekkert fullyrða um það. Og það er afarfávíslegt, ef menn vilja byggja nokkuð á slíkum fullyrðingum sem þessum í svo mikilsvarðandi máli sem þetta er. Þetta, að veikin hefir ekki borist norðar, stafar efalaust af því, að vörur, sem sýkingarhætta getur stafað af, hafa ekki flutst norðar.

Það hefir verið vikið að ýmsum öðrum atriðum í þessu brjefi, svo að jeg hirði ekki að fara nánar út í þau, en það er bersýnilegt, að þær ástæður margar, sem þar eru færðar fram, eru mjög lítils virði.

Þá kem jeg að því mikilvægasta atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. bygði á sinn dóm gagnvart okkur, og talaði um af slíkum myndugleik, að menn hefðu getað ætlað, að hann væri smiðurinn að þessum vísdómi. En satt að segja fanst mjer á ummælum hans, sem honum mundi annað hentara en vísindamenska í þessum efnum. Því að fyrsta skilyrðið fyrir vísindastarfsemi er, að menn sjeu aðgætnir. Hann vitnaði sem sje í rit yfirdýralæknis Dana sjer til stuðnings. En það er skemst af að segja, að þessi vísindamaður segir ekkert í þá átt, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir eftir honum.

Dýralæknirinn segir, að það sje „ekki líklegt“ eða „sennilegt“, að veikin berist með mjólkurafurðum. Og hann færir það til sem ástæðu, að fyrst og fremst sje mjólkið „pasteuriseruð“, og ef gerlarnir dræpust ekki í þeim hreinsunareldi, þá mundi smjörsýran stytta þeim aldur mjög fljótlega. Hann staðhæfir ekkert. Hann segir, að það sje „ekki líklegt“ og „ekki sennilegt“, og viðvíkjandi gerilsneyðingunni segir hann, að ef engin óhöpp komi fyrir, þá eigi engin hætta að geta stafað af henni. Hann skírskotar til rannsóknarnefndar í Hollandi um það efni, og hafi hún komist að þeirri niðurstöðu. En það er sannað, að mjólk, sem hefir verið gerilsneydd, hefir sýkt frá sjer. Það er því ekkert hægt að fullyrða um það, hvort gerilsneyðing sje óyggjandi, enda er þessi dýralæknir svo varfærinn vísindamaður, að hann gerir það ekki, heldur segir hann, að ef engin sjerstök óhöpp komi fyrir, þá megi ætla, að svo sje.

Þá er eftir hitt atriðið, að sýring eða gerjun í smjöri drepi gerlana. — Þessi vísindamaður staðhæfir ekki heldur neitt um það atriði, enda er það eðlilegt, að ekki sje gott að ábyrgjast neitt í því efni. Það, sem hann segir um þetta atriði, er það, að það sje mjög sennilegt eða mjög líklegt, að þessar sóttkveikjur drepist við sýringu í smjöri. Þá talar hann einnig um osta og ostagerð, og það staðhæfir hann, að til osta sje ekki einungis notuð gerilsneydd mjólk, heldur og ógerilsneydd. En hann segir hinsvegar alls ekki meira um sýkingarhættuna en hann sagði áður um hana í smjöri, því að hann segir aðeins, að það sje sennilegt, að sóttkveikjur í sýktri mjólk drepist fljótlega sökum efnabreytinga í osti.

Þá víkur hann að því í niðurlagi brjefsins, að ef Íslendingar ætli að gera þessar ráðstafanir svo harðar sem ráðuneytið gerði í haust, þá megi þeir búast við því að verða að einangra sig lengi, því að veikin sje mjög útbreidd um Evrópu.

Þetta segir þessi vísindamaður, og skal jeg ekki dæma það hart, þótt hann segi þetta síðasta, en jeg álít, að það sje vissulega okkar, en ekki hans, að gera það upp við okkur, hvaða erfiðleika við viljum leggja á okkur í þessu efni.

Þetta er þá það helsta, sem máli skiftir hjer í skrifum þessa vísindamanns, og get jeg sagt það, að þar er hvergi sagt meira en jeg hefi nú frá skýrt. Það brjef, sem jeg hefi vitnað í, er skrifað í janúar þ. á.

Í raun og veru hefi jeg þá andmælt öllu, sem fram hefir komið gegn till. okkar í þessu máli, því að andstæðingar okkar færðu það eitt til stuðnings sínu máli, að það stafaði engin hætta af innflutningi þessara vara. Og þeir vitnuðu aðeins til þessa eina manns, og að því er mjer sýnist, hafa þeir lagt miklu meira í orð hans en þau gáfu tilefni til. Því sje jeg ekki ástæðu til að andmæla frekar því, sem enn hefir komið fram gegn tillögum okkar. Menn verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja leggja nokkuð á sig til þess að komast hjá þessari veiki með innflutningsbanni á þessum vörum og þeim óþægindum, sem altaf hljóta að leiða af slíkum höftum á viðskiftalífi manna. Meti menn það meira en öryggi alls búpenings í landinu, sem getur verið í hættu, ef allrar varúðar er ekki gætt, þá eigi þeir það við sjálfa sig.

Hv. 2. þm. Reykv. gerði fleiri atriði að umtalsefni í sambandi við þetta mál, en jeg held, að jeg geti sparað mjer að rekja það alt, því að jeg hefi nú drepið á helstu atriðin. Hann kvað ekki geta stafað mikla hættu af innflutningi á kartöflum, því að sýktir gripir mundu ekki ganga um kartöflugarðana. Og margt fleira sagði hann á ámóta þekkingu bygt. Auðvitað þarf ekki að óttast það, að menn láti sýkta gripi ganga um kartöflugarða, en hættan liggur í því, að áburður frá sýktum húsdýrum er borinn í garðana, og af honum stafar hættan, en ekki frá gripunum sjálfum. Gífuryrðum hv. þm. og brígslum í okkar garð, m. a. um það, að við vildum með þessu koma á verndartollum o. s. frv., hirði jeg ekki að svara. Slíkar fullyrðingar og gífuryrði og brígsl um fáfræði og illar hvatir sæma ef til vill honum og hans fylgjurum. (ÓTh: Jeg er alveg sammála honum í þessu máli. — MJ: Og jeg sömuleiðis). Já, einsdæmin eru verst. Annars óska jeg þessum hv. þm. hjartanlega til lukku með samfylgdina.

Jeg held, að jeg geti þá skilið við hv. 2. þm. Reykv., því að jeg hygg, að nú hafi verið kollvarpað öllu, sem hann sagði. Annars get jeg tekið undir þá ósk hans, að hv. deild hugsi sig um tvisvar áður en hún afgreiðir þetta mál.

Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm. Vestm., sem jeg sje ástæðu til að víkja dálítið að. Hann hafði eftir mjer, að ekki væri hægt að segja með vissu, hvenær sýkingarhætta væri úti, þar sem veikin hefði gert vart við sig. Þess vegna yrði slíkt bann gagnvart sýktum löndum að gilda — altaf eiginlega. Þetta er aðeins hártogun. Jeg ætlaði mjer auðvitað ekki að segja um það, hvenær mætti upphefja slíkt bann. Jeg ætlaði það mjer fróðari mönnum. En um það verður auðvitað að dæma fyrst og fremst eftir reynslunni. En að allrar varúðar og öryggis sje gætt rangað til slíkt bann sje upphafið, það vil jeg, og mjer finst, að ekki hefði þurft að skýra jafneinfalt mál og þetta fyrir hv. þm. Vestm. nje öðrum.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta mál að þessu sinni, en jeg verð að segja það, að mjer þykir það leiðinlegt, ef hv. Nd. ætlar að heykjast svo á þessu máli, að hún geri engar frekari ráðstafanir en Ed. hefir gert.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)